May 30, 2012

Síðasti

Hér kemur svo allra síðasti Ameríkupósturinn... lofa ;o)

Það var fremur stuttur fyrirvari að þessu ferðalagi. Bjartur stakk uppá þessu og nefndi við vini okkar, sem höfðu boðið okkur nokkrum sinnum í heimsókn. Ég var bara nokkuð slök eftir velheppnað vinnu/ferðalag til suður Frakklands (sbr. Taugaáfall í París) og fann enga sérstaka þörf fyrir ævintýraferð. Það þurfti þó ekkert að hafa mikið fyrir því að sannfæra mig...aldeilis ekki. Þó var meira en nóg að gera á þeim tíma sem leið á milli þessara ferðalaga og eftirvæntingin sem fylgir ferðalagi sem beðið hefur verið eftir var af mjög skornum skammti.

Vissi þó að það yrði skemmtilegt... en það er bara svo gaman að hlakka til og skipuleggja ferðalög að það er hálfgerð synd að missa af því. Bjartur og Leaf (vinkonan íslenska/kanadíska/bandaríska) sáu um að plana túrinn. Ég er kannski svo vön að mikrómanagera alla skapaða hluti að það er mjög, mjög, mjög gott að sleppa takinu af og til. Það er ágætt stöku sinnum að sjá heimskringluna halda áfram að snúast um möndul sinn og snúast í kringum sólina þó ég sé ekki með puttana i því.

Það verður þó ekki hjá því komist að skipuleggja heilmargt áður en strákastóðið er yfirgefið. Sá hluti ferðalagsins er snúnastur. Við erum svo óstjórnlega þakklát fyrir okkar góðu fjölskyldu sem er viljug að taka við barnaómegðinni. Þegar ég er komin um borð í flugvél líður mér eins og ég sé "í stikki" frá raunveruleikanum. Flóknustu ákvarðanirnar eru hvort ég eigi að fá mér rautt eða hvítt, horfa á bíómynd eða sjónvarpsþátt. Dásemd!

Ferðalagið sjálft um USA var viðburðarríkt og lítill tími til hugsa heim. Ég vissi að strákarnir væru í góðum höndum. Tímamismunurinn gerði það að verkum að ég heyrði bara 1x í þeim í síma. Það var líka bara ágætt. Svo þegar við vorum á heimleið, daginn fyrir flug, saknaði ég þeirra alveg ógurlega. Merkilegt hvað þessir háværu, lífsglöðu og klístruðu vandræðabelgir hafa mikið aðdráttarafl. Mikið sem það var líka gott að koma heim og knúsa þá.

Bæði er best; að sleppa frá þeim og að koma heim aftur. Nei, ég er að plata. Það er langt um betra að koma heim aftur!




No comments:

Post a Comment