January 31, 2013

Rauðar blöðrur


Það er töfrum líkast hvað ein stök rauð blaðra getur gert fyrir mynd!

 Mynd: klimtbalan.wordpress.com

Mynd: etcy.com

Mynd:stylink.nl


Mynd: feedfloyd.com

Árið 1956 kom út myndin "Le Ballon Rouge" sem fjallar um samband drengs við rauða blöðru.

Myndin er tekin í París og talað mál er takmarkað. Stutmyndin er svo töfrandi að raunsæir efahyggjumenn hrífast með. Myndina er hægt að sjá á Netflix en líka hér.

Mæli með myndinni og meira að segja gallharðir ofurhetju- og stríðselskandi synir mínir elska ævintýrið um rauðu blöðruna.





January 30, 2013

MM 02: Háttatíminn

Mynd: dreams.co.uk




Suma daga óska ég mér þess af öllu hjarta að ég ætti töfrasprota og með einni hókus pókus sveiflu myndu synir mínir vera komnir uppí rúm baðaðir, tannburstaðir, lesnir og (lykilatriði) sofnaðir. Það er samt með háttatímann, eins og önnur óumflýjanleg verkefni, mikilvægt að þykja vænt um hann.

Háttatíminn er álagstími á fjölskyldur. Allar heimsins uppeldisbækur benda á mikilvægi þess að háttatíminn sé í föstum skorðum, bæði með tilliti til klukkunnar og rútínu fyrir háttinn. Með því að halda blíðum járnaga á afkvæmum okkar veitum við þeim öryggi. Barn sem nær ekki góðum nætursvefni er pirrað og þreytt næsta dag. Alveg eins og við hin.

Strákarnir mínir eru ólíkir og það á við um viðhorf þeirra til þess að fara að sofa. Logi hreinlega biður um að fara að sofa á kvöldin. Bergur rígheldur í rútínu fyrir háttinn, jafnvel þó hann sé orðin 10 ára. Yfirleitt er hann sofnaður á núll einni. Trausta er hins vegar meinilla við háttatímann og að sofa yfir höfuð. Hann þarf minni svefn en bræður sínir og verandi þrjóskari en flestir þá þarf að dekstra hann í svefn.

Í haust átti Trausti óvenjulega erfitt með að festa svefn. Hann fékk martraðir í tvígang og svo virtist sem hann óttaðist að sofna og missa þannig tökin á veruleikanum. Þá greip ég til þess ráðs að spila slökunartónlist (svona snyrtistofu-/nuddstofutónlist) og við það nær hann að slaka á og sofna.

Slökunardiskinn fékk ég í jólagjöf frá vinkonu minni þegar ég gekk með Trausta. Diskurinn er tvískiptur, annars vegar hefðbundin slökunardiskur sem er ætlaður mömmunni og hins vegar vögguvísur með slökunartónlist undir, ætlaður barninu. Fyrst setti ég vögguvísurnar á og það virkaði ekki betur en svo að drengurinn með svefnvandann sat í rúminu sínu og fylgdist með númer hvað lagið var sem verið var að spila. Þannig kíkti ég inn til hans reglulega og fékk að vita hvaða lag væri í gangi hverju sinni. Þá skipti ég yfir í hefðbundna diskinn fyrir mömmuna ;o)

Eftir langan og erilsaman dag þrái ég að hlamma mér í sófann, horfa á hæfilega heilalaust sjónvarpsefni og eiga korter fyrir sjálfa mig áður en ég sofna. Verandi frekar þreytt týpa sem trúir á mátt svefnsins við flestum vandamálum þá er þessi "me-time" fremur stuttur. Það er freistandi að reyna að stytta sér leið í háttatímanum. Mín reynsla er þó sú að í 90% tilfella er betra að gefa sér tíma til að sinna því vel.

Þetta er sá tími dagsins sem auðveldast er að eiga "one-to one" tíma með barninu sínu. Það er notalegt að liggja með mjúkum og hlýjum kroppi og lesa bók. Ég nota háttatímann gjarnan til málörvunar (rím, setja saman orð, andstæður) eða til að kenna þeim nöfn á líkamshlutum (smá inside infó: börn eru spurð um hvar kjálki sé í 4ra ára skoðun). Svo er spjall ekki lítils virði. Það er fróðlegt að heyra hvað þeim þótti það merkilegasta sem gerðist fyrr um daginn.

Nálægðin og samveran er mikilvæg í háttatímanum. Vissulega er galli að uppáhalds þátturinn er sýndur samtímis. Hins vegar er  Vod-ið og plúsinn að koma sterkur inn og getur reddað manni þegar þannig stendur á. Þar til að ég eignast háttatíma-töfrasprota þá mæli ég með að þið gefið ykkur tíma til að svæfa ungviðið.

Góða nótt

January 28, 2013

Tilvitnun vikunar


Ég er aðdáandi Tinu Fey, höfund 30 Rock. Mér finnst hún fyndin og þættirnir skemmtilegir. Nýlega sá ég bók eftir hana sem heitir Bossypants og fletti í gegnum hana í bókarbúð á flugvelli en keypti ekki. Skömmu seinna eignaðist ég hana sem hljóðbók. Tina les og hún stendur alveg undir væntingum. Sem hljóðbók er þetta fyrirmyndar eintak. Oftast eru hljóðbækur beinn upplestur bókar og það er bara fínt... en mikið sem er skemmtilegt þegar efnið er sniðið að miðlinum sem notaður er.

Margt skemmtilegt kemur fram í bókinni. Tina er klár og fyndin feministi. Ójá, fyndin og feministi í sömu setningu um sömu manneskjuna... þetta tvennt getur nefnilega farið saman ;o)

Tilvitnun vikunnar er jafnvel lengri en sú síðasta og kemur úr Bossypants og fékk mig til að flissa.

Tina Fey og Amy Poehler (úr Parks and Recreation) voru kynnar Golden Globe fyrr í janúar. Sjálf horfi ég ekki á svona hátíðir en kíki á helstu brandarana á youtube eftirá. Sérstaklega þegar Ricky Gervais (The Office) kynnti síðustu þrjú ár. Hann er sjúklega fyndin kynnir. Tina og "tvíburasystir mín" Amy voru þægari en hann. Sem var kannski skynsamlegt fyrir þær... miðað við hvað Ricky virðist hafa móðgað stjörnurnar á síðustu Golden Globe verðlaunaafendingum.



Jæja, þetta er gott í bili. Næsta tilvitnun verður djúp og útpæld. Núna ætla ég að plögga heyrnatólunum í eyrun, halda áfram að hlusta á lífsspeki Tinu Fey og fara að hlakka til að horfa á næstu seríu af 30 Rocks.

January 27, 2013

Nautn þagnarinnar

Dýrð sé guði... ég á mig sjálf í nokkra klukkutíma. Ein heima og nýt þagnarinnar. Karlpeningurinn fékk sitt bóndadagsdekur í gær. Okkur finnst óþarfi að hengja okkur í nákvæmar dagsetningar - höldum jólin 10 dögum fyrir aðfangadag og bóndadaginn degi seinna en almenningur ;o)

Strákastóðið er núna að leysa um hreyfiorku og athafnaþrá í fimleikasal Fylkis. Sem stendur okkur til boða á sunnudögum. Síðast fór ég með þeim og tók nokkrar myndir. Það er ekki sjálfsagt að ná óhreyfðum myndum í slíku aksjóni.












Jæja... tiltekt eða heitt bað... það er stóra spurningin!

January 23, 2013

Mömmu miðvikudagur: Getur Batman verið bleikur?

Komum við eins fram við telpur og drengi?
Gerum við sömu kröfur til kynjanna? 
Hafa dætur okkar og synir sömu möguleika?

Mynd: stickershopping.com

Leikskólinn Geislabaugur tekur þátt afar skemmtilegu þróunarverkefni um stráka- og stelpumenningu í leikskólanum. Í vikunni hlustaði ég á afar fróðlegan fyrirlestur Þórdísar Þórðardóttur, lektor við Háskóla Íslands, um menningarlæsi barna. Sérstök áhersla var lögð á kynjað uppeldi.

Niðurstöður rannsókna hennar voru áhugaverðar. Meðal þess sem þær virðast staðfesta er að stelpur fá jákvæð viðbrögð frá umhverfinu séu þær "strákalega" en á sama tíma virðist sem strákar taki niður fyrir sig séu þeir "stelpulegir".  Hvaða þýðingu hefur það?

Það leiðir til þess að ungar konur fá hvatningu og jákvæða athygli fyrir að vera rafvirkjar, gröfubílstjórar, verkfræðingar, flugmenn, slökkvuliðsmenn og ráðherrar. Á sama tíma og að ungir menn eru lattir til að  verða hjúkrunarfræðingar, þroskaþjálfar og leikskólakennarar. Enda takmarkaður fjárhagslegur hvati til að feta braut hinna hefðbundnu kvennastétta.

Sem merkir að leikskólatelpur hafa fleiri samfélagslega viðurkennda möguleika á að skapa sér sína framtíð heldur en drengir.  Það finnst mér umhugsunarvert! Það grátlega er að þær telja sig seint nógu góðar og eru (frá unga aldri) alltaf að æfa sig í að verða betri...
Mynd: retrorush.com
 
Ef þú átt lausn við þessum vanda máttu skilja eftir skilaboð ;o) 

January 21, 2013

Tilvitnun vikunar

www.forbes.com

Fyrir viku kláraði ég ævisögu Steve Jobs, stofnanda Apple. Bók sem gefin var út skömmu eftir dauða Jobs og unnin í samvinnu við hann. Bókin byggir á viðtölum við vini, samstarfsaðila og ættingja. Hún er vönduð og gefur líklega býsna raunsanna mynd af manninum. Ef eitthvað er að marka það sem stendur í bókinni varð hann svo sannarlega ekki dýrlingur. Hann var margbrotinn, dyntóttur og óvæginn í samskiptum við samferðarfólk sitt.  

Þið hafið heyrt sagt að enginn óski þess á sínum hinsta degi að hafa eitt meiri tíma í vinnunni og minna með fjölskyldunni... mig grunar að það hafi ekki átt við um Steve Jobs.  

Ég á ekki ipad, iphone né Mac... er eiginlega búin að gefast uppá ipodnum mínum því það er svo miklu auðveldara að færa gögn og hlusta á tónlist/hljóðbækur í gegnum snjallsímann. Samt sem áður tel ég Jobs hafa verið snillingur! Þess vegna deili ég með ykkur "manifesto" Apple og ræðu sem Steve hélt við útskrift Stanford árið 2005.


Er einhverju við þetta að bæta?

January 19, 2013

Upplifun

 Mynd: www.drstandley.com

Fimmtán flottar konur úr ólíkum áttum mættust í fallegum dal í miðri Reykjavík. Þær fengu spádóm, létu varðeld dáleiða sig, dönsuðu og svitnuðu í indjánatjaldi.

Reynslan var bæði sameiginleg og persónuleg.

Ferlið gengur útá að sleppa því gamla. Sigra eigið egó. Losa sig við óþægilegar hugsanir, sættast við tilfinningar, styrkja líkamann og efla andann. Að deyja en endurfæðast að nýju með hjálp frá móður jörð.

Hljómar gúgú? Það fannst manninum mínum allavega... hann hélt að ég væri tveim skrefum frá því að yfirgefa mitt fyrra líf og ganga í sértrúarsöfnuð ;o)


Mynd: www.tipi-village.com

Hér með viðurkennist það að ég var skíthrædd. Fannst þetta andlega erfitt  á meðan á því stóð en líkamlega frelsandi að því loknu. Þegar hið eiginlega svett var lokið var ég ákveðin í að endurtaka það ALDREI en degi seinna tel ég NAUÐSYNLEGT að fara aftur. Það mun taka nokkurn tíma að vinna úr þessari reynslu.

Það sem stendur eftir er:
  • ég þarf að dansa meira
  • skv. spádómnum hef ég næga orku til framkvæmda
  • drifkraftur minn er að fræðast og miðla
  • uppgjöf er mikilvægari en að gefast upp
  • verð að efla eigin seiglu
"Indjánarnir" sem stýrðu andlegu ferðalagi okkar þessa kvöldstund áttu ótal gullkorn. Það er erfitt að muna þau öll en eitt það besta var: "Núið er snúið því það er aldrei búið." - Mikill sannleikur í því!


 Mynd: Tinna

HÉR er linkur á síðu sem segir skemmtilega frá þessari upplifun.

January 16, 2013

Ofurmamman


Er viðurnefni eða uppnefni sem fylgir mér. Í fyrsta sinn sem ég var kölluð ofurmamma varð ég "skiljanlega" móðguð enda sannfærð um að viðurnefninu fylgdi kaldur hæðnistónn. Síðar skildi ég að þetta var sagt af einlægni. Síðan þá hefur mér lærst að þykja vænt um þetta viðurnefni. Þau gætu verið svo miklu verri.

Ekki svo að skilja að ég sé sammála viðurnefninu, enda er ég of óþolinmóð, eirðarlaus og pirruð týpa til að standa undir nafni.
  • Ég er ekkert sérlega upptekin af fullkominni næringasamsetningu fæðunnar sem strákarnir borða.
  • Öryggismál á heimilinu eru ekki óaðfinnanleg. 
  • Ég missi stundum stjórn á skapi mínu og nota þá ekki inniröddina mína. 
  • Stundum of kappsöm og stundum of löt. 
  • Oftar en ekki beiti ég afar hæpnum uppeldisaðferðum einsog að segja; "nei, ekki, nei það er ekki í boði, NEI! (og svo nokkrum mínútum síðar) ...jæja ókey þá, en bara í þetta skiptið". 
  • Suma morgna fara strákarnir í leikskólann án þess að vera tannburstaðir. 

Ég samþykki viðurnefnið vegna þess að mér þykir svo fjarska vænt um móðurhlutverkið. Það er eitt það allra besta sem fyrir mig hefur komið. Mér finnst félagsskapur sona minna betri en allt annað. Ég vanda mig og ber virðingu fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir að ala upp barn. Þess vegna er það markmið að verða ofurmamma fremur en að ég telji það varanlegt ástand.

Vegna þess að ég hef leitað uppi allskyns efni varðandi uppeldi og spreyti mig daglega á allskyns tiktúrum í eigin afkvæmum þá hef ég ákveðið að skrifa vikulega pistla inná síðuna um uppeldi og foreldrahlutverkið. Miðvikudagssmamman eða eitthvað álíka hressandi. Þetta verða ekki predikanir! Þetta verður vonandi jöfnum höndum til gamans og fróðleiks.

January 10, 2013

Dugleg

Nýtt ár kallar á nýja dagbók. Í dag ákvað ég að fjárfesta í þessari elsku... þrátt fyrir aulahrollinn sem heiti hennar framkallar. Hún er praktísk og ég er að stýra fimm manna fjölskyldu í úthverfi sem svo keyrir um á strumpastrætó... stoltur eigandinn er því sama klisjan og dagbókin.

Dugnaðarforkar þurfa að vera vel skipulagðir. Þessi dagbók nýtist því mjög vel. Í morgun kom ég tveimur í leikskólann áður en þeim elsta var fylgt til heimilislæknis í morgunsárið (dugleg). Því næst var skultað í skóla og ég vann mína vinnu (þrátt fyrir stuttann vinnudag þá fannst mér ég nokkuð dugleg í vinnunni). Eftir vinnu fór ég loks í langþráða jólaklippingu (dugleg&sæt). Þegar heim var komið undirbjó ég kvöldmatinn (dugleg) og stóð vaktina á diskóteki 5. bekks (dugleg). Þannig náði ég heim í háttatímann og lét miðlunginn lesa, tannburstaði og fór með bænirnar (dugleg). Loksins hafði ég næði til að baka kökur fyrir "Himnasæluna" sem verður í vinnunni á morgun (dugleg). Í stað þess að hlunka mér í sófann og horfa á heilalaust sjónvarpsefni eða hlamma mér í rúmið og lesa jólabókina mína ákvað ég að gleðja vinkonu mína (líklega einu manneskjuna sem kíkir daglega á þessa síðu) sem hafði rukkað mig um bloggfærslu fyrr í dag (dugleg).

Nýlega fékk það verkefni að skrá niður styrkleika mína. Verkefninu átti svo að skila nokkrum dögum síðar. Á þeim tíma tók ég eftir því að af og til fæ ég að heyra að ég sé dugleg. Vissulega er það gott að gaman þegar aðrir taka eftir því og nefna við mig. En stundum gæti ég gubbað yfir sjálfa mig þegar ég er svona dugleg! Það er nefnilega list að kunna að taka því rólega og njóta augnabliksins.

Treysta því að jörðin snúist um möndul sinn án þess að þú sért með puttana í því? 

Svo fór ég að hugsa... ef ég fengi örlítið oftar hrós fyrir ytra útlit... myndi ég hugsa betur um útlit mitt? Ekki misskilja, ég met mun betur eiginleikann dugnað fremur en eiginleikann sæt. Hins vegar, veitum við extra eftirtekt einmitt því sem við fáum athygli fyrir. Það er kostur að fá að heyra oftar um jákvæða eiginleika fremur en þá neikvæðu. Það væri þó verðugt markmið að fækka athugasemdum um meintan dugnað minn og auka hrós fyrir aðra eiginleika?  Pæling...

Yfir og út

January 4, 2013

Baðdraumar

Hér er ró og hér er friður,
hér er gott að setjast niður...

Kannski gerist það árið 2013 að baðherbergi heimilisins fái uppreisn æru? Það er búið að vera á "5 ára planinu" síðastliðin 9 ár.

www. bottegatokyo.com

Ef hægt væri að útfæra þessa dásemd inná baðherbergi þá myndi heiti-potturinn-í-garðinn sjálfkrafa detta útaf  "5 ára planinu". Það er ef að útsýnið fylgir með.

 


 www.designesponge.com

Listaverkagallerý á kamrinum - verður ekki mikið smartara. Þó nokkur bið á að hægt verði að bjóða karlpeningnum uppá þessi smekklegheit. Hinsvegar er óvitlaust að vera bara með pissuskálar á strákaheimilinu.

www.instorevoyage.com

January 2, 2013

"You had me at hallo"



Við kassann í Hagkaup blasti við mér fyrirsögn á forsíðu Nýs Lífs: "Ekkert foreldri læknar einhverfu". Engrar umhugsunar var þörf heldur greip ég eintak og borgaði brosandi fyrir. Í blaðinu er viðtal við átta barna móður og barnalækni. Ýr er einstaklega áhugaverð og aðdáunarverð manneskja. Í þessu viðtali ræðir hún um eigin reynslu af einhverfu. Þessar blaðsíður æstu upp lærdómsfíknina í að skilja fyrirbærið betur. Af og til grípur mig þörf til að lesa meira og skilja betur einhverfu. Rétt eins og viðmælandinn þá er ég "elska ég einhverfu". Það er svo merkilegt hvernig einstaklingar á rófinu skynja veröldina með öðrum hætti en við sem erum með leiðinlega venjulega heila.

Ef þig grípur stjórnlaus þörf fyrir að lesa meira þá mæli ég með þessum:

Reglur hússins  eftir Jodi Picoult.
Skáldsaga sem er stórskemmtileg, áhugi á asperger er alls ekki skilyrði fyrir því að hafa ánægju af lestrinum. Það eina sem ég hef útá að setja í bókinni eru stöku uppeldisaðferðir móðurinnar. Spennandi bók!

Born on a Blue Day eftir Daniel Tammet.
Fyrst heyrði ég viðtal við Daniel í BBC og varð viðþolslaus þar til bókin var komin á náttborðið mitt, með hjálp amazon. Daniel er svokallað "savant" ofurheili. Hann á met í að þilja upp aukastafi pí og lærði íslensku á einni viku!!!

Let me hear your voice eftir Catherine Maurice.
Saga móður sem tekst á við einhverfu barna sinna. Þessi er eiginlega skyldulesning aðstandenda. Það sem stendur uppúr eftir lesturinn er hve magnað internetið er. Börn höfundar eru fædd í kringum ´90 og óboy hvað það var mikið erfiðara að nálgast upplýsingar og meðferðir á þeim tíma. Hún er í raun frumkvöðull í að bera út boðskap atferlisþjálfunar fyrir hönd einhverfa. Takk Catherine!

Baráttan fyrir börnin eftir Karenu Kristínu.
Reynslusaga móður um einhverfu. Þessi byggist á reynslu íslenskrar móður sem á tvö börn á rófinu. Hún leggur mikið uppúr mikilvægi rétts mataræðis og bætiefna.  

Frík, nördar og aspergersheilkenni eftir Luke Jackson.
Breskur unglingsstrákur með asperger segir sína sögu. Fyndin á köflum.

Furðulegt háttarlag hunds um nótt eftir Mark Haddon.
Skáldsaga sem sögð er frá sjónarhóli drengs með einhverfu. Það er reyndar ár og aldir síðan ég las þessa ágætu skáldsögu. Á þeim tíma hafði ég ekki orðið ástfangin af einhverfu. Þyrfti að lesa hana aftur... áramótaheit kannski?


Svo fyrir fróðleiksfúsa bókaorma sem hafa nú þegar klárað jólabækurnar þá mæli ég með að þið kíkið á þessar ágætu bækur ;o)
.

January 1, 2013

Halló 2013

www.bragikokkur.is

Gleðilegt nýtt ár!

Fjölskyldan var sameinuð í árslok. Pabbi kom heim með rakettuprikið. Í þetta skiptið héldum við áramótin hátiðleg heima hjá okkur, einungis fimm saman. Tímamótin voru hvorttveggja hátíðleg og heimilisleg. Sá yngsti sofnaði yfir skaupinu og allir voru komnir undir sæng fljótlega eftir kl. 1... ónei, ekkert partýstand þetta árið.

Á morgun er jólafríið búið og við tekur vinnan og hversdagsleikinn. Rútínan verður kærkomin en samt berst ég í kvöld við öfund útí grunnskólakennara, svo ekki sé talað um menntaskóla- og háskólakennara. Er ekki oft öfundsjúk, sko. En jæja, hugga mig við að dagleg rútína er notaleg.