April 12, 2012

Taugaáfall í París

Hérna kemur tragíkómiska ferðasagan:



Sjáið fyrir ykkur sjálfa mig með þrjá lífsglaða drengi á leið í ævintýri. Ferðalag til Parísar með Icelandair og þaðan til Marseille með Air France. Iss, ekkert mál. Við trítluðum um borð í Keflavík. Strákarnir sátu prúðir og góðir þrír saman á meðan ég raunverulega slakaði á og horfði  á 500 days of Summer (mæli eindregið með þeirri bíómynd).

Í París var hálfleikur. Þangað komumst við brosandi og sæl.

Næsta verkefni var að komast til Marseille þar sem við ætluðum að hitta Bjart sem var þar í vinnuferð. Það eru forréttindi að geta notfært sér ID miða, ranglega kallaðir frímiðar. Ég þurfti að minna mig nokkrum sinnum á að þetta væru forréttindi næstu klukkutímana... Þegar ferðast er á þessum miðum fær maður lausu sætin í vélinni. Fullborgandi farþegar hafa forgang, eðlilega. Við fáum far með flugvél þar sem laus sæti eru. Í langflestum tilfellum fæ ég far.

Frá París CDG (Charles de Gaulle) áttum við möguleika á að ná 3 flugum til Marseille. Þetta leit vel út. Ef við myndum ekki fá sæti í fyrstu ferð áttum við möguleika á að komast með tveimur öðrum vélum seinna um daginn. Við komumst ekki með fyrstu vél og reyndar sagði starfsmaður flugfélagsins að við ættum nánast enga möguleika á að komast með frá CDG þennan daginn!!! Það væri sniðugt að reyna að fara frá Orly (sem er annar flugvöllur hinum megin við París).

Þarna fór að reyna á Frú Freknu. Á þessum tímapunkti fór líka að reyna á ferðafélagana. Þeir voru orðnir þreyttir. Bergur var stressaður og spurði allskyns spurninga um framhald ferðalagsins sem ég vildi líka fá svör við eins og: förum við með næsta flugi? Trausti nennti þessu ekki og sagði bara: æi mamma, ég vil fara á hótelið, ég vil ekki fara í aðra flugvél. Logi var þreyttur og velti sér uppúr gólfinu og smakkaði á forvitnilegum hlutum!

Hvað átti ég að gera?

Fyrst tók ég Loga í fangið og ruggaði honum þartil hann sofnaði. Næst tók ég Trausta í fangið og ruggaði honum þartil hann sofnaði. Gaf Bergi crossaint og kók. Þá gat ég dregið inn andann, hugsað málið og ráðfært mig við Bjart sem var við Miðjarðarhafið. Þetta hljómar eins og ég hafi haft fulla stjórn á hlutunum. Það er gott að ég fæ að segja þessa sögu ;o) Það er mér ekki eiginlegt að "hatast" útí fólk og fyrirtæki og flugstöðvar en það var freistandi að gera það þarna... öll mín flugóhöpp á ID miðum hafa tengst þessu flugfélagi eða þessum flugvelli!

Til að gera langa sögu stutta þá varð niðurstaðan sú að ná í farangurinn sem ég hafði tékkað inn. Finna rútuna til Orly og gera tilraun til að fara þá leiðina. Ég nennti þessu ekki fyrir mitt litla líf... kallið mig lata ef þið þorið! Rútan silaðist í gegnum/framhjá París á hraða snigilsins og ég nagaði neglurnar. Strákarnir höfðu fengið kríu og náð að endurhlaða batteríin en í mér var hver taug þaninn. Því það þurfti varaplan við þetta Orly-varaplan.

Flugvellir eru meira og minna allir eins uppbyggðir. Fljótlega eftir að maður kemur inná flugstöð finnur maður "check in" þar sem maður losar sig við töskur, fær farseðil (og stundum er maður svo heppin að fá líka sæti í vélinni). Því næst þarf maður að finna andsk. öryggishliðið (ég gæti skrifað heilan bókaflokk um hve mér er illa við þetta öryggiseftirlit). Síðast er að finna flughliðið sem leiðir mann út í flugvélina. Þrátt fyrir þessa basic uppsetningu þá er hægt að flækja þetta merkilega mikið. Því hlakkaði ég ekkert til að læra á nýjan flugvöll með ungana trítlandi á eftir mér, óviss um hvenær ég kæmist á leiðarenda.

Á Orly gekk ég á milli starfsmanna og biðraða til að finna útúr þessu á meðan Bergur spurði í sífellu hvað þessi eða hinn væri að segja og hvað við myndum gera næst og Logi lét eins og allir 3ja ára hvatvísir og forvitnir strákar gera á flugvöllum - hlaupa stjórnlaust um í landkönnun. Merkilegt hve hann verður heyrnarlaus þegar ég byrja að segja "Nei!" og "Ekki!" í sífellu.

Þegar við loks fengum loforð um sæti í flugvél kl. 20.30 (15 klukkutímum eftir að ferðalagið hófst) og okkur var vísað í 300 metra langa biðröð í gegnum öryggishliðið þá féllust mér hendur og ég fór að gráta. Þetta var ekki í fyrsta sinn og reyndar ekki í annað skiptið sem ég græt á frönskum flugvelli... gamanaðþessu!

Í fimmta sinn þennan daginn fór ég í gegnum öryggishlið með 3 stráka, 4 bakboka, eina tölvu, sýndi 4 vegabréf og 4 farseðla þennan daginn. Gengum síðust um borð í vélina og flugum af stað.

Amen? Ekki alveg!

Bjartur tók á móti okkur á flugvellinum í Marseille. Hann var sjálfur á leið í flug. Þarna gátum við hringt úr sérstökum síma á flugvellinum í starfsfólkið á hótelinu okkar og fengið bíl til að sækja okkur. Síminn virkaði ekki! Alveg satt!

Síðasti spotti ferðalagsins  var því þannig að ég gekk í 10 mínútur með synina; 9 ára, 5 ára og 3 ára frá flugstöðinni og á hótelið í hlýju vorkvöldinu meðfram hraðbrautinni til að komast á leiðarenda. Þetta hljómar eins og geggjun en göngutúrinn var frískandi eftir ævintýri dagsins.

3 comments:

  1. hahaha þú ert frábær elskan skemmtileg lesning
    StÓRt knús
    Tinna

    ReplyDelete
  2. Vá hvað ég öfunda þig ekki að hafa gengið í gegnum þetta. Ég var "frífarþegi" þegar ég var barn og leið því eins og Bergi á hverju ári. "hvað næst?, hvað eru þau að segja?, verðum við hér í nótt?, mig langar heim!, ég nennisekki!, komumst við ekki heldur með núna?, á ég að fara ein í flugvélina" (sem ég gerði oft en fékk að sitja hjá flugmönnunum sem var stuð).
    Já það er stundum lítið frí að vera "frí"farþegi sem barn eða með fullt af börnum sem ekki skilja allt þetta vesen.
    Vona að fríið hafi verið yndislegt eftir þessar hremmingar Agnes mín.

    ReplyDelete
  3. Þú ert hetjan mín!

    ReplyDelete