September 30, 2012

Hjólað hér og þar


Í gær hjólaði ég 40 km um Washington DC með ástinni minni og það var dásamlegt. Hitinn var yfir 20 stig og því lítil not fyrir ullarpeysuna sem ég pakkaði niður. Var tilneydd að finna mér stutterma í búðunum... en það gekk ekki vel því nú er komið "cashmere season" í búðunum og ekki gert ráð fyrir að fólk þurfi á stuttum ermum að halda.

Lúxusvandamál?

Í dag hjólaði ég svo 3 km um Grafarholtið með strákastóðinu mínu og það var dásamlegt í mildu haustveðri og klædd flíspeysunni sem aldrei var notuð í útlandinu.

Lúxuslíf!



Það er svo skemmtilegt að fara í ferðalag en samt alltaf best að koma heim aftur.

September 25, 2012

heima




Nýjung að hausti: 

- er farin að hitta vinkonu í "kaffi-sjortara" - sækir þú ekki bara strákana á leikskólann?
- ætla í jóga - verður þú ekki bara heima með strákana?
- geturðu farið á foreldrafundinn hjá handboltanum hans Bergs?
- ekkert mál, við mætum bæði!
- okey, ég er farin í saumaklúbb. 
- góða nótt, ég er farin á tennisæfingu - strákarnir eru sofnaðir!
- jahérna, bara komin upp skjólveggur í garðinum... þú ert aldeilis duglegur hér heima við.
-  já takk, ég vil mjög gjarnan koma með þér einn skrepputúr í vinnuna!


Dásamlegt frelsi sem fylgir því að vera ekki langtíma grasekkja! 




September 17, 2012

Tuð og takk


Nýlega hlustaði ég á viðtal í BBC við tölfræðing sem fór yfir tengsl velsældar þjóða við líkur á gullverðlaunum á Ólympíuleikunum. Án þess að fara náið í þessi fræði þá má segja í stuttu máli að ríkar þjóðir séu líklegri til að ná á verðlaunapall, jafnframt eru fjölmennari þjóðir líklegri til verðlauna. Það er skömm hve fjárhagslegur stuðningur við íþróttafólk á Íslandi er lélegur. Enda sjaldgæft að heim komi verðlaunapeningur af Ólympíuleikum. Hljóti Íslendingur verðlaun fær hann jafnframt Fálkaorðu... svo sjaldgæft er að íþróttamaður standi á palli, fremstur meðal jafningja á heimsvísu.
 

Í ár sendum við fjóra fatlaða íþróttamenn á leikana og við fengum gullverðlaun í sundi. Jón Margeir fékk þó ekki Fálkaorðu. Fáránlegt! 



Í þetta skiptið verður ekki tuðað yfir þessu óréttlæti og pólitík tengdri æðstu viðurkenningu Forseta Íslands heldur skulum við snúa okkur að líkum þess að Íslendingur fái verðlaun á Ólympíuleikum. Ísland er fámennt og leggur almennt ekki mikla peninga í íþróttamál og því er merkilegt hve marga verðlaunahafa meðal fatlaðra við eigum.

Jón Margeir er ekki sá fyrsti sem fær verðlaun á Ólympíuleikum fatlaðra, öðru nær. Því ber að fagna að íslenska þjóðin sýni þessum olnbogabörnum samfélagsins nægilegan stuðning til að þau geti náð hæstu metorðum í íþrótt sinni. Að baki þessum árangri liggur sjálfsagt blóð, sviti og tár. Ég þekki ekki fólkið sem stendur að baki þessum árangri en því ber að þakka. Það er merki þess að við búum í manneskjulegu samfélagi að sinna ólíkum þörfum einstaklinganna.

Hafa ber í huga að fatlaðir íþróttamenn þurfa oftar en ekki að yfirvinna fleiri hindranir í iðkun sinni en hinir ófötluðu. 

Takk - þið sem lögðuð grunnin að þessari velgengni.

September 11, 2012

Er ekkert að djóka með þetta jóga

mynd: tulipop.is

Að setjast niður í kjarnastöðu, með hendur í bænastöðu, byrja á að óma og enda á namaste. Virkar ekki eins og þetta séu mikil átök? En boy óboy... það er nú ekki svo einfalt. Það dugar ekki að vera viljug og liðug til að ná hinum ýmsu jógastöðum. Eftir fyrsta tíma fékk ég hressilegar harðsperrur í tíma nr. tvö leið næstum yfir mig. Alveg satt! Í þeim þriðja svitnaði ég eins og svín.

Mikið dásamlega er jóga skemmtilegt svo er það líklega hollara en lýsi. Það er svo margt sem sameinast í þessari ævafornu list. Líkaminn nýtur góðs af því að teygja sig, styrkja sig og efla jafnvægið. Sálartetrið þarf jafnframt að teygja sig, styrkja og æfa jafnvægið. Nauðsynlegt er að temja hugann sem og kroppinn. Samvinna andans og efnisins er kjarninn.

En grínlaust... stundum hef ég gengið nærri mér í hinni ýmsu hreyfingu. Með góðum þjálfara hafa þolmörkin stundum verið þanin. Aldrei hef ég þó komist jafn nærri yfirliði og í jóga. Jóga! Finnst það svoldið vandræðalegt. En í hvert skipti geng ég þó út af jógastöðinni endurnærð á sál og líkama. Hver fruma stútfull af vellíðan. Þakklát fyrir að upplifa samspil eigin anda og efnis.

Namaste






September 2, 2012

September



Við höfum verið mikið á flakki þetta sumarið. Oftast er myndarvélin með í för. Það er ágætt að eiga sætar og penar myndir af manni á ólíkum áfangastöðum. Ég tók það skrefinu lengra í þetta skiptið. Til eru jóga-myndir af mér á ólíklegustu stöðum s.s. á toppi fjalls i þjóðgarði í USA, við Grand Canyon, á franskri strönd, við Glym í Hvalfirði, í leikskólanum og fleiri stöðum. Uppáhaldið mitt er við Reykjanestánna.

Þetta er auðvitað eins sjálfhverf gjörningur og hugsast getur... ég veit. En kannski er innsæið líka að koma skilaboðum áleiðis? Jóga ástundun mín er afar takmörkuð. Stundaði reyndar HotYoga nokkra vetrarmánuði á meðan ég var í fæðingarorlofi með þeim minnsta. Þar var þessi fallega staða æfð.

Staðan heitir standandi bogi (skv. Bikram yoga) og kostir hennar eru; aukið jafnvægi, betri liðleiki í mjóbaki, þenur út rifbeinin, styrkir maga og læri. Jafnframt á staðan að auka einbeitingu, staðfestu og þolinmæði. Innsæið er klárlega að reyna að segja mér eitthvað ;o)

Vegna þess að það er freistandi að trúa því að svörin við öllum okkar spurningum búi innra með okkur hef ég ákveðið að hlusta á þessa innri rödd. Jóga getur ekki gert mér neitt nema gott! Hvort sem það er stífa og stutta vöðva eða fyrir úttaugaða húsmóður. Hlakka svo til að byrja...

Namaste