April 29, 2012

Út og suður


Mér finnst ég ekki hafa gengið í takt við gangverk hversdagsleikans síðustu tvær vikur. Það hafa engar stórkostlegar breytingar átt sér stað en mér hefur fundist ég þurfa að juggla fleiri boltum á lofti síðustu daga. Smávægileg frávik eins og ferðalagið fræga um páskana og svo ljúflings jeppatúr auðga lífsgæðin, vissulega. En svo vorum við mæðgur búnar að plana dekurtúr í boði bóndans um þessa helgi. Svo kom í ljós að það myndi ekki ganga upp í þetta skiptið. Því fylgdu viss vonbrigði en síðan gríðarlegur léttir. Léttir yfir að missa af dekurtúr af bestu sort!!!

Stundum er lífið bara of skemmtilegt til að ég meiki að gera allt hitt líka ;o)

Helginni var eytt heima í rólegheitum. Við fengum frænda í næturgistingu. Grasekkja mætti með þrjá spræka syni og sushi. Gerði mér ferð í IKEA með langan innkaupalista af bráðnauðsynlegum óþarfa sem mér blöskraði hvað ég þurfti að borga fyrir við kassann. Fór í sund með strákana og út að hlaupa. Lá líka heilmikið uppí rúmi og horfði á þætti í seríunni Weeds... ný uppgötvun hjá mér.

Fyrirfram var ég búin að ákveða að maí-markmiðið yrði tengd útihreyfingu. Að ég myndi hlaup 3x í viku eða fara á Esjuna vikulega, byrja í Útipúli í Laugardalnum... eitthvað þessháttar. En ég skipti um skoðun! Sko, ég ætla alveg að hlaupa meira og ganga á fleiri fjöll en það verður ekki hið eiginlega maí-markmið.

Ég ætla að taka ljósmynd daglega eftir fyrirfram ákveðinni forskrift:


Þetta er ögrandi verkefni og opnar augu manns fyrir umhverfi sínu. Líklega er þessi áskorun ætluð instagram myndum (myndum teknar á síma) en þar sem ég var að eignast nýja myndavél þá er þetta líka alveg kjörið fyrir mig til prófa mig áfram og læra á nýju vélina. Myndirnar verða svo birtar hér á síðunni minni... allavega þær sem heppnast vel.

Hvernig líst ykkur á?

April 25, 2012

Markmið... og mistök!

Þegar markmið eru sett má eiga von á að þeim sé ekki náð. Það getur verið drullufúlt. Meira að segja verra en fúlt. Ég get verið reglulega andstyggileg við sjálfa mig þegar mér mistekst eitthvað. "Vondi heilinn" byrjar að rakka mig niður fyrir það hverskonar örlaga aumingi ég sé. Ég yrði snælduvitlaus ef einhver myndi tala með sama hætti við einhvern sem mér þætti vænt um. Myndi kalla það ofbeldi! Sálartetrið er skringilegt fyrirbæri.

Þegar markmið eru sett upplifir maður ákveðið varnarleysi. Í hvert sinn sem við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum þurfum við að takast á við þá staðreynd að manni gæti mistekist. Að ætla sér að klífa Hvannadalshnjúk, eignast kærasta, hlaupa 10 km í Reykjarvíkurhlaupinu, lifa á fæði steinaldarmanna eða hvað annað sem er nýtt, krefjandi og/eða framandi  krefst hugrekkis.

Það er mögulegt til að mistakast aldrei í lífinu; með því að taka aldrei áhættu, setja sér ekki markmið, forðast nýjungar og neita að aðlagast breytingum.  Sá möguleiki ver okkur gegn sársaukanum og drullunni sem fyrrnefndur "vondi heili" hellir yfir okkur. Ef maður velur þá leið í lífinu upplifum við heldur aldrei sæluvímuna við sigurinn yfir sjálfum sér. Slíkur einstaklingur nær aldrei að þroskast og vaxa sem manneskja.

Er þá ekki betra að vera margfaldur feiljör heldur en lúser sem aldrei þorir? Einn af fjölmörgum lyklum að  lífshamingjunni er að þora að gera mistök og læra af þeim.

Það held ég allavega!

Reyndar vill dr. Brené Brown eða "Vulnerability-TED" eins og hún kallar sig meina það i stórskemmtilegum fyrirlestrum sem hún hefur haldið á ted.com. Mér finnst hún frábær fyrirlesari og því verð ég að breiða út fagnaðarboðskapinn.

  1. The Power of Vulnerability
  2. Listening to Shame

Einn daginn mun ég ná þeim þroska að fagna mistökum mínum.
Það er markmið...sem gæti mistekist!


April 22, 2012

Heitt í köldu


Íslenska náttúran er margrómuð og áreiðanlega sú besta í heimi... líkt og við eigum sterkustu karlanna og fögurstu konurnar ;o)

Við fórum yfir Mýrdalsjökul, fórum varlega framhjá Kötlu gömlu svo við myndum ekki vekja þá kröftugu  fjalladrottningu. Komum okkur fyrir í fjallaskála í Hvanngili. "Vá, fínt hótel" sagði yngsti fjallagarpurinn. Kveiktum uppí gasofninum og lögðumst í kojurnar. Sváfum vært... sem er fréttnæmt. Hrotubelgir og fyllibyttur halda stundum fyrir manni vöku í sæluhúsum.

Morguninn eftir drógum við fram sleða og skíði, bundum í jeppana og létum þá draga okkur yfir rennisléttann Mýrdalssandinn. Komumst á snjó inní Strútslaug þar sem við fækkuðum fötum og dýfðum okkur í heita laug. Aldrei munu töfrandi áhrif þess að stinga sér í heita laug á hálendinu, um miðjan vetur missa áhrifamátt sinn. Aldrei!

Um kvöldið grilluðum við lambakjet og drógum tappa úr rauðvínsflösku. Spiluðum Olsen Olsen, púsluðum og tókum okkur kvöldgöngu uppá Brattaháls í Hvanngili. Sváfum vært... aftur!!!

Loks var tími til komin að halda heim til byggða. Keyrt var um Álftakrók við Álftavatn, Pokahryggi og slegið upp pylsupartýi við Dalakofa. Komin heim síðdegis, tekið uppúr töskum, yngsta barnið sótt úr pössun, skrímslið í þvottahúsinu fyllt af skítum fjallafötum og vatnssalernið dásamað!



















April 18, 2012

Markmiðið

Mynd: www.forkparty.com


Í haust kviknaði hjá mér ljós. Hugmynd að bók, hvorki meira né minna. Ég fór vel með þessa hugmynd og sagði engum frá. Ætlaði að njóta hennar ein með sjálfri mér. Ákveðin í að gera eitthvað í málinu.

Haustið er sá tími ársins sem hlutirnir gerast. Ég byrjaði í föstu starfi... sko alveg 5 klst. á dag, 5 daga vikunnar. Hnussið yfir því að vild en þetta voru viðbrigði fyrir frúnna. Auk þess var maðurinn mikið í fjarverandi og við mér blasti nýtt og stórkostlegt "sótt og skutl" prógramm þar sem frumburðurinn æfir 5x í viku. Miðlungurinn hóf talþjálfun og iðjuþjálfun 2-3x í viku. Auk þess sem ég sótti sjúkraþjálfara 2x í viku og lét mig dreyma um að nota WorldClass kortið sem ég borgaði mánaðarlega af. Þetta kallaði á endurbætur á daglegri rútínu fjölskyldunnar og slíkt tekur bæði tíma og orku.

Frítíminn sem ég sá í hillingum vegna hlutastarfsins og átti að nýtast í að hlúa að áhugaverðum verkefnum s.s. að vinna að ofangreindri hugmynd fuðraði upp. Ég varð svo pirruð útí að hafa ekki orku í að sinna þessu öllu saman að ég gerði það eina skynsamlega í stöðunni - keypti garn og byrjaði að prjóna peysu á Loga!

Ef það væri tími til að nýta "dauðar stundir" eins og á kvöldin eða á biðstofum tal-, iðju- og sjúkraþjálfara þá hlyti að vera tími til að henda nokkrum orðum á blað. Með þeim hætti væri hægt að höndla hugmyndina um bókina með viðráðanlegum hætti. 

Frestunaráráttan er uppáþrengjandi fyrirbæri og fylgir mér flesta daga. Það er svo ótrúlega mikið auðveldara að gera flesta hluti seinna en strax. Markmið á ári drekans er viðleitni mín til að taka til á "to-do" listanum mínum. Lífið er núna!

Markmið aprílmánaðar er að byrja á þessu verkefni. Ég keypti í peysu handa Bergi um mánaðarmótin. Til þess eins að fresta því að prjóna hana þar til að efsta verkefnið á "to-do" listanum mínum er komið af stað - auðvitað fullkomlega röklegt samband eins og þið sjáið! 

April 17, 2012

Lestur er bestur

Bókasafnsdagurinn er haldin í dag. Mér finnst lestur bestur og góð bók betri en kók.
Ég svolgraði í mig tveimur bókum um síðustu helgi. Las Hausaveiðarana eftir Jo Nesbö og Ómunatíð eftir Styrmi Gunnarsson. Stórgóðar báðar tvær þó ólíkar séu.







Hausaveiðarnir er spennusaga. Hrikalega skemmtileg og spennandi og vel skrifuð bók. Höfundurinn er norskur og hefur skrifað nokkrar bækur um lögreglumanninn Harry Hole. Þær eru allar stórgóðar og þessi er ekki síðri. Eins og góðum krimmum hæfir þá gat ég ekki lagt hana frá mér fyrr en hún kláraðist.





Mynd: Uppheimar


Bókin sem tók við af norskum krimma var bókin Ómunatíð: Saga um geðveiki. Sérdeilis vel skrifuð bók eftir fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Hún fjallar um geðveiki og byggir mikið á veikindi konu höfundar. Það er ekkert tilfinningaklám í bókinni þó höfundur gangi nærri sér og fjölskyldu sinni í frásögninni. Góð bók! Betri en ég bjóst við.




Mynd: Veröld




Fyrst ég er byrjuð þá vil ég nefna bókina sem ég kláraði fyrir páska. Frönsku svítuna. Sagan um bókina og höfundinn er hugsanlega meira heillandi en sagan í bókinni. Þó hafði ég stórgaman af henni. Hún fjallar um líf fólks í Frakklandi á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Höfundur kláraði ekki söguna þar sem hún dó í stríðinu. Þetta er samtíma frásögn úr stríðinu. Ljómandi fín bók.







Mynd: Forlagið


April 15, 2012

Lítill sigur en sætur

Mynd: www.youthcancertrust.org

Sigrum ber að fagna. Sérstaklega þessum litlu. Hreinlega vegna þess að þeir gera lífið skemmtilegra. Ég er montin með mig í dag. Sigurinn er lítill en sætur. Ég fór út að hlaupa í fyrsta sinn í 7 mánuði! Kannski er ekki rétt að kalla þetta hlaup, meira svona göngutúr með stöku skokki.

Síðast hljóp ég Reykjarvíkurmaraþoninu (sjá hér). Í þessu hlaupi klikkaði hausinn minn en ég hef líka verið í vandræðum með slæma beinhimnubólgu. Þrálátt fyrirbæri sem hefur fylgt mér í mörg ár og truflað mig í leik og starfi á tímum þegar ég hef verið hvað duglegust að hoppa og skoppa. Því fór ég til sjúkraþjálfara sem hjálpaði mér mikið. Hann setti mig í 2ja mánaða hlaupabann. Þegar því tímabili var að ljúka hrundi ég niður stiga og sleit liðband í ökla. Svo það hægði enn frekar á "afrekum" í hlaupum.

Hlaup eru svosem ekkert stórmál fyrir mér. Mér finnast þau oft erfið svo hlaupabann olli engum sálarkvölum. Hinsvegar fylgir þeim ótrúlega góð frelsistilfinning og einhverskonar hugleiðsla. Það er eitthvað við vorið og sumarið sem veldur hlaupafiðringi hjá mér.

Þessa helgina hef ég verið óttaleg lufsa. Óstjórnlega þreytt og löt. Þó tókst mér að herða mig uppí að reima á mig skónna og halda af stað útum útidyrnar og ganga af stað. Plataði mig af stað í fyrstu, sagði við sjálfa mig að þetta væri bara göngutúr. Þegar ég var búin að ganga ca. 2 km jók ég hraðann og byrjaði að hlaupa. Það var meðvituð ákvörðun að bera engin GPS mælitæki á sér til að meta þessa gleði. Ég fór hægt yfir - það var líka meðvituð ákvörðun. Leiðinlega skynsöm auðvitað, því óþægindin við beinhimnubólguna og laus liðbönd í ökla eru óþörf. Vonandi allavega.

Líklega hljóp ég rúma 2 km á hraða snigilsins en er algjörlega alsæl með árangurinn. Hlakka til að reima á mig skónna aftur fljótlega.

April 13, 2012

Svo sannarlega þess virði!

Nú þegar ég hef gubbað yfir bloggsíðuna mína um flugferðirnar er rétt að taka fram að um leið og ég fékk góðan nætursvefn voru erfiðleikar ferðalagsins gleymdir. Svo nú koma myndir frá páskafríinu okkar. Þetta eru auðvitað óþolandi montmyndir af okkur í dásamlegu umhverfi Provence héraðsins í suður Frakklandi... gjöriði svo vel og gubbið af óþoli yfir því að ég skuli leyfa mér að vorkenna mér yfir því hve erfitt það var að komast á staðinn ;o)



Spakir strákar að bíða eftir töskum

4 klst. seinna að bíða eftir töskum að nýju (áður en rútan var tekin á næsta flugvöll)
Svellkaldur á sundlaugarbakkanum
Fallegur gamli bærinn í Aix en Provence
Pabbarnir með minnsta manninn 

Pabbastrákur
Stóru og ábyrgu bræðurnir

Sjarmatröllið

Óborganlegir Bjartmarssynir

Falleg klettaleið á milli strandbæjanna La Ciotat og Cassis við Miðjarðarhafið

Gengið "upp á topp"


Hver þarf strumpastrætó þegar hægt er að vera í stuði í Pugeot smábíl? 

Bara fallegt!

Gosbrunnar voru í eftirlæti

Les Bergur

Les Logi 

Ströndin i bænum Cassis

Hreinræktuð gleði 

Páskahéraleit á páskadagsmorgun 

Monseur Croissaint í morgunmat


Logi ánægður með súkkulaðihérann sinn
 Trausti var líka súkkulaði sáttur

 Bergur á flótta undan fallandi frumskóginum

 Heimsóttum nunnuklaustur á Páskadag...við vitum ekkert hvar í heiminum við vorum... en þetta var skemmtilegt

 !

 Gestapresturinn þennan sunnudag

 Tennis

 Trausti í bambusskógi

 Logi Pandabjörn
 Franskir kossar...

 Tilþrifin stórkostleg
Að loknum tennisleik og frönskum kossum skelltum við okkur á ströndina
 

 Annar dagur páska 2012! 


 Fallega fólkið



 Jógandi...

 Skemmtileg lítil strönd

 Sandkastali

 Sundgarparnir

 Syntu í aprílköldum sjónum 


 Falleg strandlengjan 





...svo þið skiljið að ég er líkleg til að treysta á ID miðana mína til að komast á fjarlæga staði enn á ný... jafnvel þó það kosti mig nokkur taugaáföll!