July 31, 2011

Laugarvegurinn: 1. hluti

Í byrjun ársins var tekin sú ákvörðun í fjölskylduboði að láta verða að því að ganga Laugaveginn. Það hefur staðið til í fjöldamörg ár að ganga og keyra þessa leið en aldrei orðið úr því. Lífið er núna og því er mikilvægt að gera sem allra mest úr því á meðan hægt er.

Í upphafi leit út fyrir að gönguhópurinn myndi samanstanda af tæplega 30 fjölskyldumeðlimum! Svo þegar leið á sumarið var ljóst að einhverjir myndu helltast úr lestinni. Þannig er það alltaf. Skiljanlega. Lífið er núna en stundum er flókið að láta allt ganga upp á tilsettum tíma. Veðurspáin var líka óhentug fyrir suðurlandið og því ljóst að ef við myndum láta verða að þessu myndum við þurfa að sætta okkur við stöku rigningarskúr.

Síðastliðin ár höfum við gert lítið af því að ferðast um hálendið okkar ægifagra. Útilegur hafa heldur ekki heillað mig uppá síðkastið enda finnst mér lítið spennandi að hanga á yfirfullu tjaldstæði með stuðboltum. Auk þess sem bleyjuskipti á 2 litlum kútum henta illa í útilegum. Hins vegar hef ég saknað þess að heimsækja ekki náttúruperlurnar okkar á hálendinu.


Til að geta farið svona ferðalag með þrjú börn á aldrinum 2ja til 8 ára þarf annars vegar mikla skipulagshæfni og hins vegar sterkar taugar. Það vill einmitt svo vel til að heimilisfaðirinn hefur sterkar taugar og ágæta skipulagshæfileika. Degi áður en við lögðum af stað þá ákvað minn Bjartur að sjá um að trússa (vera á bíl og sjá um að tjalda) auk þess sem hann ætlaði að vera með strákana svo ég gæti gengið. Þó það hefði verið meiriháttar að ganga þetta saman er ljóst að þegar á reyndi var býsna gott að hann væri í trússliðinu. Því trússararnir lentu í ýmsum ævintýrum á meðan við gengum Laugaveginn.
Tryllitækið okkar rauða sá um að flytja okkur inní Landmannalaugar þar sem við gistum fyrstu nóttina. Mikil ósköp Dómadalsleiðin inní Landmannalaugar falleg.

Laugarnar eru auðvitað perla og aðstaðan til fyrirmyndar að því undanskyldu að tjaldstæðin eru ömurleg. Við tjölduðum í mýri! Strákarnir voru eins og beljur sem sleppt hefur verið út á vorin og óðu um allt fullir af lífsgleði og forvitni... (lesist: gerðu móður sína klikkað pirraða). Þá var nú líka ljúft að dýfa sér ofan í heita náttúrulaugina og baða sig fyrir háttinn. Fæ ekki nóg af svona náttúrlaugum... finnst þær undursamlegar.


Þegar við vorum búin að tjalda nýja fjölskyldutjaldinu. Róa strákastóðið í heitri lauginni, tannbursta og klæða í ullarnáttfötin. Var ljúft að leggjast í svefnpokann og sofa vært. Hvíla sig fyrir næsta verkefni, nefnilega að ganga inní Hvanngil með viðkomu í Hrafntinnuskeri og Álftavatni. 

July 25, 2011

Eldhúsgyðjan

Hamingjuóskum og heillaskeytum hefur rignt inn vegna hrærivélarinnar góðu. Það er bara gaman. Ég bakaði þessa fallegu pavlovu á laugardaginn.

Uppskriftin er:
4 eggjahvítur
200 gr. hvítur sykur
1 tsk. balsamic edik
2 msk. kakó
50 gr. saxað súkkulaði
1 peli rjómi
bláber
bakað við 120 gr í rúma klst. Best er að láta marange-inn kólna inní ofninum, þannig verður hann seigari

...það er engin tilviljun að marange skyldi verða fyrsta verkefni nýju maskínunnar þar sem það er algjörlega glatað að þeyta egg og bæta varlega útí viðkvæma eggjablönduna öllum aukaefnunum þegar notaður er handþeytari.

Næsta verkefni voru hafraklattar svona "hafrafitness" og þar sem þetta heitir fitness gleymir maður alveg öllu smjörinu og sykrinum sem er í uppskriftinni eða hvað ;o)

Uppskriftin:
1 1/2 bolli hveiti
1 tsk. matarsódi
1 tsk. kanill
1/2 tsk. salt
1 bolli smjör
1 bolli púðursykur
1/2 bolli hvítur sykur
2 egg
3 bollar hafrar
200 gr. rúsínur

mótaðar flatar kúlur eftir smekk, muna þarf að þær fletjast út í ofninum

Kökurnar ilma undursamlega vel og renna út. Ég get talist góð að hafa náð þeim á mynd... Verði ykkur að góðu gæskurnar.

July 23, 2011

God moves in a mysterious ways


Hver segir að Secret sé þvættingur? Allavega ekki hún ég! Máttur viljans er augljóslega mikill og ég vildi KitchenAid. Í gær fékk ég símtal frá manni sem vildi selja gamla hrærivél á spottprís. Ég tel mig hafa gert góðan díl og var hætt að gera kröfur um árgerð, ábyrgð eða nýjasta tískulitinn. Mig vantar hrærivél og vil KitchenAid frekar en aðrar týpur. Það fékk ég!

Í þessum skrifuðu orðum er pavlova (margange) í ofninum og ég lofa því að láta inn myndir og uppskrift af þeirri fegurðardrottningu meðal eftirrétta fljótlega...

July 19, 2011

Hoppandi skoppandi gleðigjafi

Ein mestu mistök ævi minnar var að óska sérstaklega eftir því að fá EKKI KitchenAid hrærivél í brúðargjöf (dramatísk að vanda, en ég meina það samt). Krúsjal mistök fyrirmyndarhúsmóður sem elskar að baka kökur og að halda veislur. Svona gerist þegar kona reynir að berjast gegn sínu rétta eðli ;o) Svo kom góðæri og ekki keypti ég mér fína hrærivél þó ég væri farin að gera mér grein fyrir því á þeim tíma að svona vél þyrfti ég að eiga. Eftir góðærið skall á kreppa og enn mikilvægara að eiga góða hrærivél fyrir öll heimabökuðu brauðin sem manni hefur verið talið trú um að breyti fjárhag hagsýnna húsmæðra. En kreppan gerði það jafnframt að verkum að gæðavél hækkaði mjög í verði og heimavinnandi húsmæður fá ekki launaseðil til að eyða í óþarfa.

Fyrr á árinu seldi ég nokkra gæðahluti á barnalandi og ákvað að aurinn sem ég fékk endaði ekki hjá Bónus né bensínstöðvunum. Þess heldur ætlaði ég mér að safna mér fyrir KitchenAid vél. Svona fyrirhyggjusemi er sjaldséð hjá undirritaðri en ég stóð við mitt. Stóð við mitt þar til... ég fékk flugu í höfuðið. Þar sem ég stóð í Rúmfatalagernum og horfði á Trausta í hamingjukasti hoppandi og skoppandi á trampólíni flaug mér í hug að nýta þennan sjóð í hoppandi skoppandi gleðigjafa. 

Það varð úr! Í dag fórum við mæðginin og skoðuðum helstu trampólín stórhöfuðborgarsvæðisins og bárum saman verð, gæði og öryggisstaðla. Á endanum keyptum við hæfilega stórt og öruggt trampólín. Settum það í strumpastrætóinn okkar og keyrðum með það heim. Nú bíður það í 5 kössum á pallinum okkar eftir því að handlagni heimilisfaðirinn setji það saman. Jibbýkóla.... ég hlakka svo til... já, og strákunum mínum líka ;o)

July 18, 2011

Harpa Sjöfn


www.celebitchy.com

Falleg mynd af frægum feðginum. Blessuð stúlkan náttúrulega læknisfræðilegt afrek. Þyrfti að komast í samband við lækninn þeirra. Get ekki ímyndað mér að hann geri uppá milli okkar þriggja-keisara-strákamæðranna. Eða hvað?

Suma daga finnst mér heillandi að eignast eitt barn til viðbótar. Þó ekki í þeim tilgangi að óska eftir stelpuskotti. Það er bara svo dásamlegt að ganga með barn og koma því í heiminn og næra það með brjóstamjólk. Svo heilagt og best.

July 17, 2011

Grænna en grænt


Síðast var blái liturinn ríkjandi en nú finnst mér allt svo grænt. Djúpgrænt, skærgrænt, ljósgrænt, þurrgrænt, mosagrænt... endalaust. Sumarið er í hámarki og gróðurinn í blóma.
Við fórum aftur í útilegu fyrst sú fyrri tókst svona ljómandi vel. Í þetta sinn fórum við í Þjórsárdalinn. Ég hef afar takmarkaðan áhuga á yfirfullum tjaldstæðum þar sem er "rosa stuð". Ég er afar ófélagslynd á svoleiðis stöðum. Þjórsárdalur er svolítið gamaldags tjaldstæði sem rúmar mikið af fólki. Þarna eru rjóður sem passa fyrir 1 og 2 tjöld saman. Þar er líklega ekki hægt að "plögga sig í rafmagn" eins og á nýmóðins tjaldstæðum. Okkur leið afar vel þarna og sváfum vært í tjaldinu. Veðrið var líka frábært. Hlýtt og bjart.



Við fórum í skemmtilega gönguferð meðfram ánni sem rennur í gegnum tjaldsvæðið... er ekki viss um hvað hún heitir en ég ætla að skjóta á að það sé Selá. Logi vinnumaður henti steinum útí hana eins og enginn væri morgundagurinn...

Rúsínan í pylsuendanum var síðan náttúruleg laug við Hruna, í nágrenni við Flúðir . Algjör perla sem við heimsóttum í fyrsta sinn í dag. Það merkilega er að vinnumaðurinn sem bleytti sig í fæturnar við að kasta steinum og viðardrumbum útí ánna degi áður fannst rosalega klígjulegt vatnið í heitu lauginni. Barnið sem líklega er það sóðalegasta norðan Alpafjalla fannst þetta skrítin sundlaug og frekar mikið bjakk.


Ísland í sumarbúningi... hvílík sæla... og við í fríi akkúrat þegar sólin skín... hvílík forréttindi!

July 12, 2011

Sundin blá


Það er svo gaman að vera túristi í Reykjavík. Borgin okkar hefur svo margt uppá að bjóða. Mágkona mín er í heimsókn á Íslandi en hún býr í Noregi ásamt fjölskyldu sinni. Hin mágkonan bauð okkur öllum í siglingu til að skoða lundabyggðina í Akurey.

Lundinn er fallegur fugl og vekur athygli útlendinga sem margir telja hann líkjast mörgæsum og verða hissa þegar þeir sjá hve smávaxinn hann er. Akurey er í "sundfjarlægð" frá Gróttu og því magnað að sjá hve gríðarlegur fjöldi fugla sveimaði yfir eyjunni og synti í sjónum. 
 
Þessar myndir líða fyrir skort á almennilegri aðdráttarlinsu. Því tók ég líklega fleiri myndir af fuglunum mínum...



Þessir sæfarar voru alsælir með sjómannslífið. Voru jafn hrifnir af marglyttum í sjávarborðinu, lundum á sundi og flugvélum á lofti. 
Ég var með fangið fullt og ánægð með að koma þeim öllum þurrum á land.

 Spegilsléttur hafflötur og bláminn alveg óendanlegur.
Norskt "sjóræningjaskip" tók svo á móti okkur þegar við sigldum inní höfnina. Það vakti lukku eins og vera skyldi! Ég þakka mágkonunum fyrir mig og mína unga.

July 11, 2011

Útilega


Fimm manna fjölskylda fékk boð um að koma í heimsókn í bústað til annarrar stórfjölskyldu. Við þáðum boðið, fylltum bílinn af dóti og tjölduðum í íslenskum móa við fallegt stöðuvatn. Svo svifum við inní draumalandið við undirleik margradda fuglasöng.
Börnin eru á sama aldri. Það elsta er næstum tíu ára og yngstur er 8 mánaða sjarmatröll. Það er svo gaman hvað þau smella saman í hvert sinn sem þau hittast. Jafnvel þó stundum líði langt á milli. Merkilegur eiginleiki barna að detta áreynslulaust í leik.
Tjaldið var vígt að nýju... þannig lagað. Því það hefur ekki verið notað frá árinu 2005! Strákunum mínum þótti ekki leiðinlegt að sofa á flatsæng, öll fjölskyldan saman! Ég hef oft velt því fyrir mér hvert málið sé með sérherbergi. Líklega fer betur um alla ef við svæfum öll saman í einu rúmi. En það þykir ekki vandað uppeldi, skilst mér... og þó.

Yfir í allt annað... fegurðardísin í hinni fjölskyldunni fangaði athygli mína og ég náði af henni mynd. Úff, hvað ég held að það geti verið erfitt stundum að vera stelpupabbi þegar maður á svona fallega dóttur.
Stóru börnin minntu á Ronju Ræningjadóttur og Birki Borkason. Í eigin heimi úti um móa og mela. Pabbar þeirra eru þó miklir mátar og minna á engan hátt á þá skítugu skógarræningja ;o)
Til að bæta gómsætu glassúri á þessa glansmynd þá sigldu pabbarnir útá Þingvallarvatnið með fullan bát af strákspottum á meðan ungamamman gaf brjóst og ég dáðist að brjóstagjöfinni.

 Ég mátti líka til með að taka myndir af þessum glaðværu vinnumönnum. Sem eru næstum því vandræðalega líkir... þeir eru samt ekki bræður... krossa fingur og sver við hvíta biblíu!

July 10, 2011

Brúðkaup



Í gær fórum við í stórskemmtilegt brúðkaup hjá mági mínum og svilkonu. Dagurinn var bjartur og hlýr sem gefur vonandi tónin fyrir hjónaband þeirra. Ég verð auðvitað afar væmin í svona samkomum og finn fyrir kærleikanum í hverri frumu líkamans. Það er svo hátíðlegt og fallegt að sitja í kirkjubrúðkaupi með ástinni sinni sér við hlið. Ég tek orð prestsins til mín rétt eins og þau séu ætluð mér og mínum heittelskaða.





Til hamingju með að hafa fundið ástina hvort í öðru elsku Hildigunnur og Gunnar Ingi

July 8, 2011

Traustur árangur



Orðið árangur og nafnið Trausti eru samtengd í mínum huga. Við gleðjumst með hverjum sigri þessa brosmilda bláskjás. Í þessari viku var helsti sigurinn sá að hann byrjaði að hjóla án hjálparadekkja. Á fyrsta degi "æfingaferlisins" þurfti hann aðstoð. Á öðrum degi þurfti hann minni aðstoð og á þriðja degi hjólaði hann einn og óstuddur. Á fjórða degi var hann farin að taka U-beygjur og bremsa.
Árangursríkur Trausti!!!!

July 6, 2011

Sumarævintýri

Langþráð sumarið er komið! Ó, fagra fósturland... Á göngu um ævintýraleg hverasvæði, spölkorn frá Reykjavík. Sólin skín og fuglarnir syngja. Kindurnar jarma. flugurnar suða og hestarnir hneggja.







Gönguhópurinn samanstóð af rúmlega 20 georgeous fjallaskvísum. Toppurinn á ferðinni var svo auðvitað að dýfa sér í volgan hveralæk. Það þótti okkur allavega sem þorðum...


Á vegi okkar var þessi brekkusnigill sem fór heldur hægar yfir en við hinar... sem betur fer.
Það er á svona kvöldum sem maður kann að meta það að búa á þessum veðurbarða kletti í Norður-Íshafi ;o)


Sumarævintýri með bakboka...