March 28, 2013

Páskafrí

 Mynd: Tinna Stefánsdóttir

Í fyrra byrjaði páskafríið með taugaáfalli á flugvelli í París og mikið sem ég væri til í að endurupplifa það aftur í ár... tja, allavega það sem síðar tók við. Þessir páskar verða öðruvísi. Þetta frí byrjar með spennufalli í úthverfi Reykjavíkur. Ýmislegt liggur fyrir á næstunni en skírdagur verður hvíldardagur.

Sígangandi stórfjölskyldan mín ætlar að ganga 40 km leið frá Þingvöllum til Mosfellsbæjar á föstudaginn langa. Það verður gaman að taka þátt í því. Krossa fingur og vona að veðrið verði gott. Tengdó ætlar að bjóða uppá páskalamb. Einnig ætlum við hjónin að eiga gæðatíma saman - tvö ein... áður en ástkær eiginmaður minn fer til Venezuela í faðm Maríu sinnar. Strákunum hlakkar líka mikið til að fá frí frá foreldrum sínum.

Gleðilega páska

March 27, 2013

MM07: Sögur af þremur bræðrum



Trausti: 

Var að leika sér með vinum sínum í "Blómastofunni" á leikskólanum. Hann sat eins og kóngur uppi á borði og útdeildi hlutverkum í leiknum. Krakkarnir röðuðu sér upp og báðu um að fá verkefni. Trausti sagði að einn skyldi verða Spiderman, sá næsti gæti verið Vörður og sá þriðji fékk að vera Stjórinn. Loks kom að stelpunni í hópnum af á hlutverk. Þá vandaðist málið svo mér skilst að Trausti hafi hugsað sig um og sagt svo: "þú ert stelpa og þú mátt þrífa". Stelpurófan sem er leiðtogi í sér tók brosandi við því hlutverki og byrjaði að þrífa.

Hver rauðsokkaklædda mamma með sjálfsvirðingu hlýtur að fyllast stolti við það að heyra þessar sögu.

Bergur:

Frumburðurinn verður brátt 11 ára og er stundum barn en stundum unglingur. Í nokkrar vikur hefur verið bóla á kinninni hans... ég hélt að þetta hlyti að vera ofnæmi... svo blind gagnvart því að hann sé að eldast og þroskast. Þessum þroska fylgir að hann hefur nokkrar áhyggjur af því að verða skilnaðarbarn. Við foreldrarnir erum í lukkulegu hjónabandi en grínumst stundum með langar fjarverur húsbóndans. Einkabrandarar um að nú þurfi að sinna Maríu í Venezuela eða hinn pabbinn mæti hér á heimilið þegar hann er farin í vinnuna. Saklaust grín sem magnast upp eftir að þau berast í viðkvæm barnaeyru.  Í fyrradag fann Bergur sig knúinn til að segja við pabba sinn að: "Seriously pabbi, það kemur enginn hingað þegar þú ert í vinnunni. Henni mömmu þykir bara svo vænt um þig."

Logi: 

Fer með heimsins fallegustu bæn fyrir svefninn. Hún er einhvernvegin svona: "Ég elska mömmu mína, Trausta, pabba, Berg, ömmu og afa minn. Góði guð viltu gefa þeim súkkulaði og líka mér. Amen. Var þetta fallegt hjá mér?" Svo nú þegar eru að koma páskar má segja að Logi hafi verið bænheyrður... Hann er ekki svo þjakaður af fyrirfram mótuðum hugmyndum um kynjahlutverkin heldur elskar prinsessukjóla jafn mikið og bazuka-byssur!

Hvert eitt og einasta barn hefur einstaka sýn á heiminn. Það gott að staldra stöku sinnum við og reyna að sjá veröldina með þeirra augum... við lærum af því!

March 18, 2013

Karma

mynd: observando.net

Hafiði pælt í karma? Ekki bara í "bókstaflegum" skilningi búddismans (eða hindúisma?) um að manneskjur með skítlegt eðli verði kakkalakkar í næsta lífi... heldur karma í hversdagslífinu. 

Eitt af ótal gullkornum úr hinni heilögu bók "Eat, pray, love" fjallar um karma. Hugmyndin er þessi: við erum stöðugt að takast á við sömu verkefnin aftur og aftur í lífinu og þegar við náum að mastera verkefnið losnum við undan hringrás óþæginda.

Það er karma að falla aftur og aftur í sömu gildruna.  Karma bítur mig í rassinn þegar ég er að fresta verkefnum, því það hverfur hvorki né minnkar við frestunina. Karma "híar á mig" þegar ég borða yfir mig í veislum þrátt fyrir fögur fyrirheit um að sýna sjálfsaga.

En það er líka karma að fá til baka það sem maður gefur af sér. Með því að vera góður við náungann er líklegt að maður fá það verðlaunað. Það er skemmtilegra að aðstoða kurteist fólk en leiðindapúka. Með kurteisi og almennri elskusemi löðum við að okkur skemmtilegt fólk. Eða eins og útlendingar segja... what goes around comes around. 

mynd:pinterest.com

March 14, 2013

Ný árstíð

 Myndir: www.hitherandthither.net

Úti svífa þungar snjóflögur til jarðar en samt ilmar allt af vori. Í útvarpsfréttum var sagt frá því að Lóan, hin eina sanna vor-díva sé komin að kveða burt snjóinn. Bjart er í morgunsárið og krakkarnir eru farnir að leika meira úti. Krókusarnir teygja sig uppúr moldinni. Brum er komið á runnana í garðinum og brátt fer kirsuberjatréið mitt að blómstra.

Það er ný árstíð í öðrum skilningi. Ég undirritaði ráðningarsamning á nýjum vinnustað í morgun. Mun byrja þar eftir sumarfrí. Þetta eru tímamót og fyrsti lóusöngur ársins boðar gæfu. Full tilhlökkunar bíð ég eftir heyra í lóunni og að takast á við nýjar áskoranir á nýjum starfsvettvangi. 


 Mynd:dv.is

Dirrindííí... vorið er mín árstíð!

March 13, 2013

MM: 06 - Lestur er bestur

Bókalestur er líklega hollari en lýsi! 



Sem eirðarlaus krakki tel ég að fátt hafi gefið mér jafn mikið og að hverfa inní heim ævintýranna. Ein með sjálfri mér, uppí rúmi að lesa Ronju Ræningjadóttur, Öddubækurnar, Ísfólkið ásamt Tár,bros og takkaskó og svo margt fleira. Að lesa var að ferðast. Kynnast nýrri veröld og eignast vini í sögupersónunum.

Sem eirðarlaus kona veit ég fátt betra en að lesa og jafnvel enn betra að hlusta að hljóðbækur, því þá er hægt að "múltítaska". Enn ferðast ég um ímyndaða veröld höfunda og eignast vini í sögupersónunum. Dumbeldor, skólastjóri Hogwartskóla, segir í einni bókinni um Harry Potter að orð séu galdrar. Það tel ég að sé hárrétt hjá honum.

Með því að lesa bækur fyrir börnin okkar margföldum við orðaforða þeirra og málskilning. Auk þess sem nærveran ein er gefandi.  Sögurnar örva sköpunarkraft barnanna og þau læra ýmislegt um heiminn með því að lesa og skoða bækur. Fyrir börn í máltöku er fátt betra en bókalestur og samtöl.

Íslenskar bækur veita líka menningarlegt mótvægi við allt barnaefni sem stendur krökkum til boða í gegnum sjónvarp og tölvur. Það er gott fyrir okkur að lesa (og horfa á) efni sem byggir á þeim veruleika sem við búum við. Dóra landkönnuður, Bósi ljósár, Spiderman, Harry Potter og Ronja Ræningjadóttir endurspegla þann veruleika sem höfundar þeirra búa við. Þetta eru allt frábærar sögupersónur en það er líka gott að ota að börnum íslenskar sögupersónur eins og Teit tímaflakkara, Jón Odd og Jón Bjarna, Mæju Spæju og Arngrím apaskott.

Það er skoðun mín (ekki byggð á vísindalegum rökum) að við eigum að ýta bókum, sögum og frásögnum að börnum með öllum tiltækum ráðum. Það er hægt að lesa fyrir þau og leyfa þeim að skoða bækur sjálf í rólegheitum s.s. í bílnum. Vegna þess að ég er svolítið húkkt á hljóðbækum hef ég á boðstólnum í bílnum. Frumburðurinn, 10 ára, fer með mér á bókasafnið og velur sér hljóðbók sem við hlöðum inná smartsímann hans.

Í löngum bílferðum og ferðalögum fjölskyldunnar hlustum við á þjóðsögur, útvarpsleikrit og margt annað sem er í boði af bókasöfnum bæjarins. Tölvur og teiknimyndir fá ekki að vera fyrsta val!

Bæði ég og synir mínir höfum þurft að hafa býsna mikið fyrir því að tala rétt, lesa hratt og skrifa rétt mál. Það er æfing og maður er aldrei útskrifaður í eigin móðurmáli. Um leið og ég fór sjálf að líta á íslenskuna sem þjón minn fremur en húsbónda breyttist viðhorfið til tungunnar.

Með lestri og markvissri málörvun er svo margfalt auðveldara að færa í orð hugsanir manns og langanir. Þannig verður auðveldara að eiga samskipti við vini og fullorðna.

Þrátt fyrir yfirlýst markmið "Miðvikudags-mömmupistla"  sé að predika ekki þá freistast ég til þess í þetta skiptið. Svo krakkar, lesið fyrir börnin ykkar. Því bók er betri en kók ;o)

March 4, 2013

Tilvitnun vikunar: 05


Vegna þess að á morgun byrja ég á námskeiði hjá Dale Carnegie er við hæfi að sækja tilvitnun vikunar í smiðju þess meistara.



Þú nærð ekki árangri án þess að taka áhættu... það er bara þannig! 

Einfalt... ekki satt?

March 3, 2013

Hrósaðu


Allir dagar ættu að vera "Hrós-dagar". Við ættum að vera duglegri að hrósa hverju öðru. Daglega! Sá sem gefur hrós græðir líka á því að beina athygli sinni að því sem vel er gert. Það er svo miklu betra að hafa augun opin gagnvart því jákvæða í umhverfinu heldur en því sem miður fer.

Alvöru hrós er einlægt, innihaldslaust skjall missir marks.

Jákvæð styrking (eins og hrós) er ein besta leiðin til að móta hegðun. Við leggjum okkur harðar fram ef einhver von er til þess að tekið sé eftir fyrirhöfn okkar. Spurðu hvaða hundatemjara sem er, atferlisþjálfara, leikskólakennara eða stjórnanda.

Hrósin mín fær:
  1. Mamma sem er duglegasta kona sem ég þekki
  2. Pabbi fyrir æðruleysið og hjartahlýjuna
  3. Bjartur fyrir að draga það besta fram í mér, fyrir hæfileika sína til að laga hluti og fyrir að verða sífellt sætari
  4. Bergur fyrir umburðarlyndi sitt gangvart bræðrum sínum
  5. Trausti fyrir að yfirvinna allar sínar hindranir
  6. Logi fyrir sjálfstæðið
  7. Alma Rut fyrir hjálpsemina og dugnaðinn
  8. Erla fyrir að vera góð móðir
  9. Amma Sísí fyrir metnaðinn
  10. Tengdó fyrir seigluna
  11. Anna fyrir að vera hlýjasta manneskja í heimi
...hvar á maður að stoppa? Ég gæti haldið áfram endalaust.

Mér þykir það svo leitt þegar ég missi af tækifæri til að benda fólki á það góða og fallega í fari þess. Þess vegna ætla ég að vera duglegri við að hrósa og hrósa og hrósa.