October 23, 2012

Meistaramánuður (frammistöðuskýrsla)

Hvernig ætli gangi hjá meisturum mánaðarins?

Mynd: knitoneone.com


Hér er haldið vel á prjónunum... í orðsins fyllstu. Búin með búk og aðra ermina. Byrjaði að prjóna eftir uppskriftinn en svo rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna ég gafst upp á þessari peysu fyrir tveim árum síðan. Stærðirnar passa ekki! Svo nauðsynlegt var að rekja upp nokkurra daga vinnu. Fara í smá fýlu, safna kjarki í að byrja uppá nýtt og reikna stærðir og prjónafestu uppá nýtt. Þarf þó að vera ansi dugleg til að fullklára verkið á næstu dögum. Krossa fingur og vona það besta.

Heimsljós Halldórs Laxnes er á lokasprettinum. Góð bók, auðvitað. Merkilegt samt hvernig manni finnst sem nauðsynlegt sé að setja sig í einhverjar hátíðlegar stellingar við að lesa Laxnes. Hún passar (óviljandi) inní eitt bókaþema síðustu mánaða hjá mér sem er íslenska bændasamfélagið eins og það var í upphafi síðustu aldar. Nýlega lauk ég við Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Sögusviðið í Heimsljósi er harla svipað. Önnur er skáldsaga og hin æviminningar. Hef ekki gert upp hug minn um hvor sé betri... enda ekki nauðsynlegt.

Miðlungurinn les 5x í viku. Honum eru skammtaðar 2 bls. á dag úr lesheftum sem ætluð eru krökkum í fyrsta bekk. Skammtaðar... því hann vill lesa meira! Til að halda áhuganum er betra að lesa lítið og oft. Stundum fer hann í leiki inná nams.is og Glóa Geimfara til að halda lestrarnáminu fjölbreyttu.


Mynd: www.thequotefactory.com

Ef eitthvað fleira var á meistaralistanum þá verður að viðurkennast að ég kemst ekki yfir meira.

October 22, 2012

Fram, frúin og ferðalangarnir fljúgandi

Samviskusama mamman með lausu skrúfuna fór til Akureyrar til að hvetja frumburðinn á handboltamóti með sitt fagra föruneyti. Eins og fín frú flaug hún norður og gisti á fallegu hóteli. Ferðafélagarnir voru hinir mjög svo hressu synir hennar. Húsbóndinn var fjarri góðu gamni en var haldið vel upplýstum með hjálp tæknibyltingarinnar.

Þar sem biðin eftir flugferðinni var lengri en gert var ráð fyrir hófst ferðalagið með rölti um miðbæ Reykjavíkur og svo kíktum við örlítið útá Ægisíðuna. Sólsetrið var rauðgullið og logn í Vesturbænum. Við stoppuðum við skúra Grásleppukarlanna og lékum smávegis í síðdegissólinni.

 




Einn óvæntur gestur var með í för. Flökkubangsinn Fúsi, af leikskóladeildinni hans Loga, fékk að fara með. Eftirvæntingin að fá Fúsa í heimsókn er svo mikil að mamman hafði ekki dug í sér að gera það eina skynsama í stöðunni og skilja tuskudýrið eftir. Fúsi flaug því í Fokker 50 norður til Akureyra.



Bræðurnir voru alsælir með fallega hótelið og þá sérstaklega með sjónvarpið sem horft var á úr rúminu sem við deildum þrjú saman. Fúsi þurfti að dúsa á sófanum... samt ekki fyrr en sérlegur verndari hans var sofnaður.




Þessari fínu frú þótti bruðl að splæsa í bílaleigubíl svo þau fóru allra sinna ferða fótgangandi. Fyrirfram var talið að strætisvagnar myndu koma að gagni en þá sáum við hreint ekki á ferðinni. Ferðafélagarnir voru sæmilega viljugir að ganga upp gilið. Þeir eiga hrós skilið fyrir vaska framgöngu.

Í bjartsýni sinni trúði mamman með lausu skrúfuna að hún myndi geta átt notalegan "fullorðinstíma" með kærri vinkonu sem var fyrir norðan í sömu erindagjörðum, vinkonan fylgdi reyndar rauðklæddum Hafnfirðingum. Raunin var þó önnur... við hittumst í mýflugumynd á göngugötunni góðu, rétt á milli leikja, nógu lengi til að smella einni mynd af skvettunni hennar við saklausan ísbjörn.



Þessir bláklæddu kappar eiga auðvitað líka lof skilið fyrir vaska FRAMgöngu. Margt hefur gerst síðan þeir spiluðu handbolta á sínu fyrsta móti. Það er þroskandi ævintýri að fara í svona keppnisferð. Ómetanlegt! Mömmunni viðurkennir þó að stundum hafi verið erfitt að horfa á. Hún vonar að syninum hafi ekki þótt jafn erfitt að hafa mömmu á áhorfendabekknum... Móðir og sonur tóku bæði þroska í þessari ferð.

Eftir erfiðan dag í íþróttahöllinni var kærkomið að mæta á Bautann og fá sér einn sveran borgara. Líklega besti hamborgari lífs míns, jamm - svo svöng var ég. 



Ef frúin með ferðaþrána væri spurð hvort þetta hefði verið afslöppunarferð, þá væri svarið; Nei! Ef hún yrði spurð hvort þetta hafi verið vesen, þá væri svarið; Já! Ef spurningin væri, hvort þetta tilstand hefði verið þess virði, þá væri svarið; Já - alltaf!


Að ferðast með börn er eins og að... ferðast með börn ;o)

October 21, 2012

Afmælis-Álfur


Hoppandi kátur fjörkálfur - álfur varð fjögurra ára í gær. Ósköp sem hann hafði gaman af því að eiga afmæli. Í tilefni dagsins bauð hann fjölskyldunni heim í hádegismat. Það er alltaf gaman að fá fólkið sitt í heimsókn. Afmælisstrákurinn"elskar" grænan og fékk því græna afmælisköku og grænan afmælispakka. Þegar sest var til borðs og nefnt að nú ættum við að syngja tók hann það til sín og söng fallega lagið Takk sem mikið hefur verið sungið á leikskóladeildinni hans.

Til marks um það hve heitt mamman ann drengnum sínum fékk hann Íþróttaálfagalla að gjöf. Til marks um andlegum þroska mömmunnar fékk barnið að klæðast gallanum í afmælisveislunni í stað fallegu fötunum sem höfðu verið sérvalin í tilefni dagsins.

Afmælisbarnið fékk marga fallega pakka sem glöddu litla hjartað og þegar hann var komin á stjá í morgun dró hann nýju gullin sín uppí rúm og raðaði þeim í kringum sig. 
















October 17, 2012

Keisari fæddur


Hríðirnar tóku tímann sinn. Tæpum tveim sólarhringum eftir að systir var sett af stað var hún rist á kviðarhol og sprækur drengur kom í heiminn. Fæddur eftir rúmar 38 vikna meðgöngu og var tæpar 12 merkur.
Það er ekki mitt að fara með fæðingarsöguna. Þetta eru helstu upplýsingarnar sem fólk spyr um.

Móður og barni líður vel.

Keisaraynjan er að átta sig á að magavöðvarnir eru notaðir við ólíklegustu athafnir s.s. til að standa á fætur og setjast niður. Göngulagið hefur jafnframt verið þokkafyllra ;o) Það mun þó ná fyrri reisn á skömmum tíma.

Ósköp sem litli kútur er fínn. Sléttur og fallegur og ósköp smár. Greyið var pínt í myndartöku í gær... Agga móða er strax farin að vera til vandræða. Myndirnar ná nú ekki að fanga mýktina og fegurð nýfædda barnsins en samt ætla ég að birta nokkrar.









October 11, 2012

Móðursystir með hríðir



Einmitt núna, í dag, er litla systir mín uppi að fæða sitt fyrsta barn. Það er mikil eftirvænting að hitta nýjasta fjölskyldumeðliminn. Fyrsta fæðingin er einstök, allar fæðingar eru vissulega sérstakar en tímamót fyrstu fæðingar eru meira afgerandi. Barn fæðist og kona verður móðir.

Hluti eftirvæntingarinnar er óvissan um kyn barnsins. Mun yngstu systur takast það sem við hinar gátum ekki, að eignast dóttur? Verðandi amman og afinn eru þriggja dætra foreldrar og eiga fimm stráka barnabörn. Víbrandi spenningur er því hvort mynstrið verður brotið upp. Í öllum þessum vangaveltum hafa nokkrir nefnt að "kynið skipti engu, heldur að barnið sé heilbrigt"

Þessi algenga setning vekur upp nokkrar spurningar. Vissulega er heilbrigði barns mikilvægt. Mjög mikilvægt. En er það mikilvægast? Hvað ef barnið er með fæðingagalla eða fötlun, er fæðing þess og tilvera einskis verð? Hvernig á að takast á við nýfædda barnið ef það er ekki fullkomið? Í huga verðandi foreldra munu ófædd börn þeirra alltaf vera óaðfinnanleg. Stundum, gerist það samt ekki og hvað þá?

Það eru nefnilega börnin sem krefjast af manni aukinn þroska sem stækka hjartað mest. Þau fá gjarnan mestu athyglina og ástúðina. Fylgist með foreldrum "óheilbrigðra" barna og þið sannfærist.

Ég sit og bíð eftir fréttum af fæðingu barns sem verður elskað og boðið velkomið í þennan heim. Það verður áreiðanlega dásamlegt og best. Kannski strákur og kannski stelpa, vonandi heilbrigt en alltaf, alltaf velkomið og kært.

Það er mikilvægast!

October 2, 2012

Meistaramánuður

Að setja sér markmið er góð leið til að beina orku sinni í ákveðin farveg. Öll teljum við okkur geta gert betur í einhverju. Flest erum við alveg á leiðinni að gera eitthvað stórkostlegt. Hvort sem það er að verða sjúkt mjór, ýkt ríkur, geggt klár eða hvað annað.

Viðleitni mín á þessu ári hefur verið að tikka við "to do - listann" og því hef ég fundið mér markmið í hverjum mánuði. Viðfangsefnin hafa verið ólík en öll stefnt að því að gera mig að betri manneskju og auðga tilveru mína. Að vissu leiti má rekja þessa hugmynd til Meistaramánaðar í fyrra. Hugmyndarfræðin hitti mig í hjartastað. Það gerist nefnilega ekkert nema kona geri það sjálf. Ekkert ávinnst nema unnið sé markvisst að því.

Það er svo margt sem mig langar að gera í október. Til dæmis að verða sjúkt mjó, ýkt rík og geggt klár... og líka:
  • mála vegg í eldhúsinu og setja upp hillur fyrir matreiðslubækurnar mínar
  • vera duglegri að elda nýjar uppskriftir úr þessum sömu matreiðslubókunum 
  • tala við vini mína í stað þess að læka bara facebookstatusa þeirra... þið vitið svona "old school" símtöl og jafnvel hitta suma
  • kenna miðlungnum að lesa
  • ná að fullkomna bakhöndina í tennis
  • eyða ekki peningum í óþarfa
  • lesa bók eftir Laxnes
  • útrýma sætindum úr lífi mínu
  • byrja í þriðja sinn á lopapeysunni sem ég rakti 2x upp fyrir rúmu ári síðan



Auðvitað ekki séns að ná að fullkomna allt þetta á einum mánuði en kannski gerist eitthvað af þessu... Til að byrja með verður fitjað uppá prjóna. Að prjóna heila lopapeysu á mánuði er afar metnaðarfullt markmið. Líklega óraunhæft svo ef það tekst verð ég sjúkt ánægð.

Prjónaskapur og önnur handavinna er svo áþreifanlegt markmið. Þannig er hægt að horfa og handfjatla árangurinn ólíkt t.d. að neita sér um eitthvað. Það er gott fyrir sálartetrið að prjóna. Notalegt að sitja í haminguhorninu sínu og horfa að sjónvarp eða hlusta á Laxnes með hlýjan lopa í fanginu. Ég hlakka bara til að takast á við markmiðið. Ef ekki næst að klára heila peysu á 30 dögum þá verður lokið við hana ögn seinna... og það er bara allt í lagi.

Í stað þess að fljóta stefnulaust í lífinu án þess að reyna að hafa á það áhrif hef ég allavega að einhverju að stefna. Það hlýtur að vera megin inntakið í meistaramánuði... eða hvað?