January 15, 2012

Capt. Sport-Baldur



Þó nokkur eftirvænting hefur verið hjá okkur mæðginum að mæta í íþróttaskólann. Logi fékk að fylgja með bróður sínum stöku sinnum íþróttaskólann í fyrra. Þá var hann tæplega tveggja ára og óttalegur óviti. Á þessum tíma var reyndar ekkert grín að fylgja Trausta í gegnum þrautabrautirnar. Honum fannst þetta leiðinlegt, óskiljanlegt að fara eftir fyrirmælum og yfirspenntur af áreitum í fullum íþróttasal af börnum, foreldrum, systkinum og svo var tónlist á fullu blasti. Ég þurfti að beita mig hörðu að mæta með Tryllinginn minn. Fólk horfði skilningssljó á drenginn og síðan á mömmu hann sem lét hann gera þrautirnar með handafli í forundran. Það velti fyrir sér "hvað er að þessum barni og svo og HVAÐ er að MÖMMU hans???"


Þar sem miðjubarnið er að troða sér inní dagbókarfærslu sem á að vera um litla barnið þá verð ég að segja frá því að það var hrein unun að fylgjast með honum mæta á fyrstu fótboltaæfinguna sína í síðustu viku. Hann var svooo glaður og duglegur að fara eftir fyrirmælum og skemmti sér líka afar vel. Einn af mörgum litlum og dísætrum sigrum sem við upplifum í gegnum strákinn okkar.

Logi mætti sumsé kátur í íþróttaskólann, setti upp stútmunn sem einkennir einbeitinguna hans og glettni var í augunum. Svo fór hann í gegnum þrautabrautirnar, gerði kollhnýsa og sagðist vera "brjálaður vísindamaður" (sem hann segir alltaf þegar hann skellir sér í kollhnýs). Við foreldrarnir fylgdu honum bæði, aldrei þessu vant fékk hann ótakmarkaða athygli beggja foreldra og það leiddist honum ekki ;o)

January 12, 2012

Ársbyrjun

Janúar er mánuður fagurra fyrirheita. Það er eitthvað mikið við orkuna sem einkennir ársbyrjun. Þrátt fyrir flensurnar sem ganga yfir ásamt leiðigjörnum fréttum um lélega sílikonpúða og skort á snjómokstri í borginni þá liggur vel á mér. Ekki bara vegna þess að vetrartíðin er gósentíð skíðafólksins né vegna bjartsýni minnar um að ég standi við áramótarheitin. Ástæðan fyrir innri ró er hreinlega einfaldleikinn í janúar. Öðru nafni kallað rútínan. Eftir annir á aðventunni og öll veisluhöldin yfir jólahátíðina þá dásama ég hversdagsleikann. Það er mikilvægt að þykja vænt um virku dagana í lífinu. Að mæta til vinnu, sinna heimanámi, ryksuga heimilið, koma börnunum í rúmið og prjóna fyrir framan sjónvarpið á kvöldin.

January 11, 2012

Ársskýrsla 2011



Húsbóndinn eyddi lunganu af árinu í að fljúga B- 747 á milli Langtíburtuistan til Fjarskistan. Hann segir það misskilning að „arabíska vorið“ hafi eitthvað með nærveru hans að gera. 

Einræðisherra fjölskyldunar, sjálf Húsmóðirin stýrði heimilinu með styrkri hönd. Öllum að óvörum hóf hún störf á leikskólanum Geislabaugi auk þess sem hún tjáir sig fjálglega um sín hjartans mál í fjölmiðlum. 

Töfrastrákurinn Harry Potter lagði álög sín yfir hann Berg á þessu ári og erum við búin að lesa vel yfir tvöþúsund blaðsíður um ævintýrin í Hogwartsskóla á árinu.  Þess auki spilar Bergur handbolta með Fram og stundar sund hjá Fjölni. 

Sigrar Trausta á liðnu ári eru jafn margir og þeir eru sætir. Hann sýnir stríðsrekstri miklum áhuga, syngur eins og engill og hlær bjartar en nokkur annar. Það má segja að Trausti hafi sett fataskápinn sinn á annan endan þegar hann komst að því að hann elskar rauðan og að grænn sé fyrir lítil börn

Logi Baldur kemur sterkur inn þegar stuð er annars vegar. Enda með eindæmum hress drengur og hefur verið meira og minna í lífshættu allt liðið ár. 

Við höfum gert margt skemmtilegt saman á þessu ári. Skíðaferð til Akureyrar bæði í byrjun árs og í desember var stórskemmtileg. Auk þess fórum við til Suður Frakklands í sumar. Gengum Laugarveginn og Leggjabrjót. Áttum góða daga í sveitasælunni á Sandi. Enduruppgötvuðum dæmalausa dásemd Þórsmerkur og hálendisins.