December 22, 2012

Játningar jólafasista



 

Hvað er það mikilvægasta í við jólahátíðina?
  • kakóbolli og kósýheit? 
  • jólatónleikar sem snerta mann?
  • vandlega valin jólagjöf sem hittir í hjartastað?
  • ilmandi hamborgarahryggur?
  • jólatréið í stofunni sem sótt var úr íslenskri skógrækt?
  • stífpressaður jóladúkur?
  • ys og þys á þorláksmessu?
  • dúnmúk og skjannahvít fannbreiða?
  • jólakort?
  • ..að vera með mikilvægasta fólkinu sínu þegar kirkjubjöllur klingja? 

Í mínum huga er allt þetta mikilvægast.

Það er vissulega áskorun fyrir jólafasista að aðlaga sig að jólahátíðinni þetta árið. Húsbóndinn er í fjarlægri heimsálfu. Það fer nokkuð útfyrir hið hefðbundna handrit að hinum "fullkomnu jólum". Tilfinningaskali dramadrottningar er ýktari á jólahátíðinni. Ætli ekki sé rétt að orða það þannig; að maskari muni ekki bæta útlit mitt á aðfangadag.

Marineruð í eigin sjálfsvorkun gleymdist um stund að setja sig í spor þess sem eyðir jólunum á hótelherbergi í hættulegri borg með vinnufélögum sínum. Þrátt fyrir að hangikjöt og uppstúf sé með í för þá nær það bara ekki að fanga hinn eina sanna jólaanda. 

Strákarnir taka þessu með jafnaðargeði. Sá 10 ára er meðvitaður um að þetta sé óvenjulegt. Litlu strákarnir skynja þetta ekki þannig. Sem er gott... eða þannig?

Litlu jólin voru um síðustu helgi. Við héldum þau á Akureyri. Bærinn var svo fallegur í jólafötunum sínum. Hlíðarfjallið tók vel á móti okkur. Hamborgarahryggurinn var á sínum stað ásamt vel völdum jólagjöfum. Eftirvæntingin í augum drengjanna var sönn.










Hóhóhó... happy fo**ing xmas!

November 18, 2012

Hvíldarinnlögn


Hluti af meistaranámi mínu í háskóla var tekin við CBS í Kaupmannahöfn. Þar kynntist ég sjö frábærum stelpum sem voru í sama námi. Dvölin í Köben var mikið ævintýri og margt lærðist sem aldrei var lesið í skólabókum. Við kölluðum félagskapinn Glytturnar og settum það að markmiði að leggja heiminn undir okkur... í það minnsta hið smá Ísland.

Svei mér þá, þær virðast ekki langt frá því að ná settu marki þessar kraftmiklu kjarnakonur.


Í nokkurn tíma hafa þó "reglulegir strategíufundir" legið niðri. Við ætlum að bæta úr því og ein Glyttan bauð okkur hinum í sumarbústað á suðurlandinu. Þrátt fyrir að hafa ekki verið mikið saman uppá síðkastið var þessi bústaðarferð svo áreynslulaus og afslöppuð. Endurnærandi samvera.


Myndarvélin mín varð eftir heima en instagramið í símanum var brúkað þeim mun meira... og konu gæti grunað að þetta væri matarblogg af því að skoða myndirnar. Við borðuðum góðan mat enda eru þær allar listakokkar.









November 14, 2012

Feika'ða og meika´ða



Eftir dásamlegt sumar finnst mér haustið dimmt, napurlegt og lítið skemmtilegur tími. En þar til að skammdegið í sálatetrinu fjarar út reyni ég að "feika´ða þar til ég meika'ða". Jólin eru auðvita stórfín en mér finnst samt betra að fæla myrkrið í burtu með litafylleríi. Kveiki á kertum síðdegis, fer í heitt bað, mæti í ræktina, sinni fjölskyldunni og endurtek nýju möntruna mína sem ég fann á Pinterest.

Hver veit nema einn daginn muni ég trúa þessu? Það er þess virði að reyna ;o)


www.wantadumpsterbaby.com


November 11, 2012

Markmiðamartöð


Í öllum kennslubókum um markmið er talað um mikilvægi þess að þau séu SMART.

S = Skýr: mikilvæg, læsileg og skiljanleg.
M = Mælanleg: þú verður að vita hvenær þú hefur náð þeim.
A = Alvöru: þú verður að geta náð þeim.
R = Raunhæf: það má ekki taka of langan tíma að ná þeim.
T = Tímasett: settu lokatíma á markmiðin.

Nú er ég í vanda með mitt októbermarkmið. Þau voru reyndar nokkur en aðalverkefnið var að prjóna peysu á einum mánuði. Sem er skýrt markmið, alvarlegt, mælanlegt og tímasett. Í sjálfu sér jafnframt raunhæft... þó tæplega.

Martröðin er sú að sjá að hindranirnar á veginum gera það að verkum að erfitt er að standa við tímarammann sem settur var. Þá kemur í ljós hvurslags karakter kona er. Gefst hún upp eða heldur hún áfram. Ákveður hún að tímanum sem varið er í að klára verkefnið væri betur varið í að sinna öðrum verkefnum og ef svo er, má þá telja markmiðið mistök?

Í hverjum sólarhring eru 24 klst. og innan þess tímaramma rúmast býsna mörg skylduverk. Að setjast niður, slá saman prjónum í rólegheitum og horfa á áþreyfanlegan árangurinn er virkilega gefandi iðja. Þó er því ekki að neita að ef kona er í tímaþröng og þarf að múltitaska skriljón hluti samtímis þá verður prjónaskapurinn að kvöð fremur en ánægju.

Á síðasta mánuði hefur peysunni verið sinnt og ýmislegt annað þurft að sitja á hakanum. Hún hefur verið rekin upp og prjónuð uppá nýtt. Að ná SMART markmiði á réttum tíma hefur valdið prjónakonunni hugarangri. Að gefast upp hefur verið freistandi... jafnvel skynsamlegt. En til að þjálfa seigluna hefur hún ákveðið að fyrirgefa sjálfri sér að standa ekki við tímamörkin og leyfa sér meira að segja að njóta restarinnar af verkefninu... svona að mestu leiti ;o)

November 1, 2012

Hrekkjavaka


31. október er ágætis dagur til að vera hryllilegur en skemmtilegur samtímis. Villingur og Tryllingur buðu þremur vinum hvor heim í hrekkjavökupartý. Frú Hryllingur hafði fyrir því að baka múffur og lagði sig fram um að hræða vinina. Fyrir viku síðan skar frumburðurinn út grasker (með ogguponsulítilli aðstoð). Það er í þriðja árið í röð sem það gerist... þar með er það orðið að hefð!

Planið var að nota kjötið úr graskerinu i ljúffenga graskerköku... en því var þó ekki komið í verk. Hefði verið smart að henda inn uppskrift að bragðgóðri dásemd. Jæja, kona kemst ekki yfir allt sem henni langar til að gera.

Litlu guttarnir voru alsælir með uppistandið. Klæddu sig í búninga og léku sér. Það er ástæðulaust að láta sem maður sé yfir "Dag hinna dauðu" hafinn. Það er gaman að nota tækifærið til að gera eitthvað skemmtilegt.

Við skemmtum okkur allavega hræðilega vel.







October 23, 2012

Meistaramánuður (frammistöðuskýrsla)

Hvernig ætli gangi hjá meisturum mánaðarins?

Mynd: knitoneone.com


Hér er haldið vel á prjónunum... í orðsins fyllstu. Búin með búk og aðra ermina. Byrjaði að prjóna eftir uppskriftinn en svo rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna ég gafst upp á þessari peysu fyrir tveim árum síðan. Stærðirnar passa ekki! Svo nauðsynlegt var að rekja upp nokkurra daga vinnu. Fara í smá fýlu, safna kjarki í að byrja uppá nýtt og reikna stærðir og prjónafestu uppá nýtt. Þarf þó að vera ansi dugleg til að fullklára verkið á næstu dögum. Krossa fingur og vona það besta.

Heimsljós Halldórs Laxnes er á lokasprettinum. Góð bók, auðvitað. Merkilegt samt hvernig manni finnst sem nauðsynlegt sé að setja sig í einhverjar hátíðlegar stellingar við að lesa Laxnes. Hún passar (óviljandi) inní eitt bókaþema síðustu mánaða hjá mér sem er íslenska bændasamfélagið eins og það var í upphafi síðustu aldar. Nýlega lauk ég við Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Sögusviðið í Heimsljósi er harla svipað. Önnur er skáldsaga og hin æviminningar. Hef ekki gert upp hug minn um hvor sé betri... enda ekki nauðsynlegt.

Miðlungurinn les 5x í viku. Honum eru skammtaðar 2 bls. á dag úr lesheftum sem ætluð eru krökkum í fyrsta bekk. Skammtaðar... því hann vill lesa meira! Til að halda áhuganum er betra að lesa lítið og oft. Stundum fer hann í leiki inná nams.is og Glóa Geimfara til að halda lestrarnáminu fjölbreyttu.


Mynd: www.thequotefactory.com

Ef eitthvað fleira var á meistaralistanum þá verður að viðurkennast að ég kemst ekki yfir meira.

October 22, 2012

Fram, frúin og ferðalangarnir fljúgandi

Samviskusama mamman með lausu skrúfuna fór til Akureyrar til að hvetja frumburðinn á handboltamóti með sitt fagra föruneyti. Eins og fín frú flaug hún norður og gisti á fallegu hóteli. Ferðafélagarnir voru hinir mjög svo hressu synir hennar. Húsbóndinn var fjarri góðu gamni en var haldið vel upplýstum með hjálp tæknibyltingarinnar.

Þar sem biðin eftir flugferðinni var lengri en gert var ráð fyrir hófst ferðalagið með rölti um miðbæ Reykjavíkur og svo kíktum við örlítið útá Ægisíðuna. Sólsetrið var rauðgullið og logn í Vesturbænum. Við stoppuðum við skúra Grásleppukarlanna og lékum smávegis í síðdegissólinni.

 




Einn óvæntur gestur var með í för. Flökkubangsinn Fúsi, af leikskóladeildinni hans Loga, fékk að fara með. Eftirvæntingin að fá Fúsa í heimsókn er svo mikil að mamman hafði ekki dug í sér að gera það eina skynsama í stöðunni og skilja tuskudýrið eftir. Fúsi flaug því í Fokker 50 norður til Akureyra.



Bræðurnir voru alsælir með fallega hótelið og þá sérstaklega með sjónvarpið sem horft var á úr rúminu sem við deildum þrjú saman. Fúsi þurfti að dúsa á sófanum... samt ekki fyrr en sérlegur verndari hans var sofnaður.




Þessari fínu frú þótti bruðl að splæsa í bílaleigubíl svo þau fóru allra sinna ferða fótgangandi. Fyrirfram var talið að strætisvagnar myndu koma að gagni en þá sáum við hreint ekki á ferðinni. Ferðafélagarnir voru sæmilega viljugir að ganga upp gilið. Þeir eiga hrós skilið fyrir vaska framgöngu.

Í bjartsýni sinni trúði mamman með lausu skrúfuna að hún myndi geta átt notalegan "fullorðinstíma" með kærri vinkonu sem var fyrir norðan í sömu erindagjörðum, vinkonan fylgdi reyndar rauðklæddum Hafnfirðingum. Raunin var þó önnur... við hittumst í mýflugumynd á göngugötunni góðu, rétt á milli leikja, nógu lengi til að smella einni mynd af skvettunni hennar við saklausan ísbjörn.



Þessir bláklæddu kappar eiga auðvitað líka lof skilið fyrir vaska FRAMgöngu. Margt hefur gerst síðan þeir spiluðu handbolta á sínu fyrsta móti. Það er þroskandi ævintýri að fara í svona keppnisferð. Ómetanlegt! Mömmunni viðurkennir þó að stundum hafi verið erfitt að horfa á. Hún vonar að syninum hafi ekki þótt jafn erfitt að hafa mömmu á áhorfendabekknum... Móðir og sonur tóku bæði þroska í þessari ferð.

Eftir erfiðan dag í íþróttahöllinni var kærkomið að mæta á Bautann og fá sér einn sveran borgara. Líklega besti hamborgari lífs míns, jamm - svo svöng var ég. 



Ef frúin með ferðaþrána væri spurð hvort þetta hefði verið afslöppunarferð, þá væri svarið; Nei! Ef hún yrði spurð hvort þetta hafi verið vesen, þá væri svarið; Já! Ef spurningin væri, hvort þetta tilstand hefði verið þess virði, þá væri svarið; Já - alltaf!


Að ferðast með börn er eins og að... ferðast með börn ;o)

October 21, 2012

Afmælis-Álfur


Hoppandi kátur fjörkálfur - álfur varð fjögurra ára í gær. Ósköp sem hann hafði gaman af því að eiga afmæli. Í tilefni dagsins bauð hann fjölskyldunni heim í hádegismat. Það er alltaf gaman að fá fólkið sitt í heimsókn. Afmælisstrákurinn"elskar" grænan og fékk því græna afmælisköku og grænan afmælispakka. Þegar sest var til borðs og nefnt að nú ættum við að syngja tók hann það til sín og söng fallega lagið Takk sem mikið hefur verið sungið á leikskóladeildinni hans.

Til marks um það hve heitt mamman ann drengnum sínum fékk hann Íþróttaálfagalla að gjöf. Til marks um andlegum þroska mömmunnar fékk barnið að klæðast gallanum í afmælisveislunni í stað fallegu fötunum sem höfðu verið sérvalin í tilefni dagsins.

Afmælisbarnið fékk marga fallega pakka sem glöddu litla hjartað og þegar hann var komin á stjá í morgun dró hann nýju gullin sín uppí rúm og raðaði þeim í kringum sig.