August 7, 2013

Útúrdúr


Eftir hringferð sem átti upprunalega að vera 2x hálfhringur endaði snögglega, þá var fjölskyldan (lesist: Agnes) ekki búin að fá nóg af útilegum. Við fórum því af stað aftur með tjaldvagninn góða og komum okkur vel fyrir á Suðurlandi, rétt við Seljalandsfoss. Í næsta nágrenni var Gljúfrarbúi, litli bróðir Seljalandsfoss - sem hafði algjörlega farið framhjá okkur þar til við tjölduðm hjá honum. Það er svo gaman að uppgötva óvæntar náttúruperlur. Í raun má segja að óvænt gljúfur hafi verið þema ferðarinnar.

Tjaldstæðið



Nauthúsagil 

Nauthúsagil er nálægt Stóru-Mörk, á leið inní Þórsmörk. Þangað fór ég í fyrsta sinn þegar ég var með unglingaveikina með stórfjölskyldunni minni og gjörsamlega fríkaði út því mér þótti gilið þröngt og hættulegt. Síðan þá hefur mig alltaf langað að ganga inní botn á Nauthúsagili. Síðast fórum við þangað fyrir 5 árum. Þá vel ólétt að Loga og með Trausta á öðru ári... í það skiptið fór ég ekki alla leið.

Vinir okkar hittu okkur á tjaldstæðinu og við drógum þau með í ævintýraleiðangur. Þar tóku tveir "korter-í-ellefu ára" við stjórnartaumnum og leiddu leiðangurinn inn um gilið. Allir heimsins grænu litbrigði gerir þetta ævintarlega fallegt. Það var vaðið og stiklað á steinum. Búið er að koma fyrir köðlum og keðjum sem auðvelda fólki að ganga þarna um. Útúr kletti vex reynitré, sem segir í Vegahandbókinni að, "öll reynitré í Múlalundi séu komin af"... sannarlega merkileg staðreynd ;o)



 Nauthúsagil er ponsulítið leynilegt og lætur ekki mikið yfir sér.

 Leiðangursstjórar

Aðstoðar-yfir-leiðangurs-framkvæmdarstjóri





 
 Hópmynd

Seljavallalaug

Eftir Nauthúsagil fórum við í Seljavallalaug. Þangað er nokkur spotti fótgangandi. Laugin er góð og umhverfið dásamlegt en því miður hefur slæm umgengni neikvæð áhrif á heildarupplifunina. Þarna lágu blautar nærbuxur, sokkar og sígarettustubbar útum allt. Því ber þó að þakka að hægt sé að fara í náttúrulaugina eftir öskufall og hamfarir gosins í Eyjafjallajökli. En hey, þið sem eruð að fara þangað muniði eftir nærbuxunum ykkar ;o) 

 Á leið inní Seljavallalaug

 Svo dæmalaust vinaleg við myndavéla-augað

 Buslubelgur í "slímlauginni"



Hreinar múttur með frumburðina/leiðangursstjórana


 Leynigilið
Næstu nótt fengum við félagsskap vinafólks sem við höfum mikið ferðast með. Þau þekkja Suðurlandið prýðilega vel og fóru með okkur á stað sem erfitt er að finna nema þú vitir nákvæmlega að hverju þú leitar. Ég er mjög svo fylgjandi því að Íslands sé ferðamannaland en engu að síður er dásamlegt að finna staði sem örfáir hafa komið á áður - og vonandi verður það þannig áfram. 

Vinirnir höfðu farið í þetta gil, sem er í hvarfi fjallshlíðar, nokkrum árum áður með fullorðna menn sem minntust þess að hafa rekið rollur um svæðið. Það sem var sláandi við þeirra frásögn er hve mikið Sólheimajökull (sem kemur úr Mýrdalsjökli) hefur hopað á einni mannsævi. Aftur sló það mig hve margir grænir litatónar eru til. Vatn seitlar fram úr berginu og lífið sækir í það. Allskyns smágerður gróður sprettur í brekkunum.

 Lagt af stað

 Upp, upp, upp í mót




 Lítill maðkur vakti gleði hjá litlum grænjaxl

 Þarna mátti sjá græn lón í næsta nágrenni 


 Ævintýragilið 

 Fjölskyldan litríka

 Ferðafélagarnir góðu

 Jógað með Þorbjörgu - afbragð annarra kvenna

 Sá stutti stóð sig vel í gilja og gljúfragöngum


 Bergur féll fyrir persónutöfrum leiðangurstjórans

 Útilegukvöldmatur

 Skemmtikrafturinn og jógalærlingurinn Logi

 Undir regnboga má óska sér

Útilegu-tjill

August 4, 2013

Ferðasögur Hringsins: VI. hluti



Að vakna upp við þoku í Vesturdal kveikti í löngun til að koma okkur fyrir í Sæluhúsinu í Aðaldalnum. Þrátt fyrir að þokunni létti og hitinn steig uppfyrir 20° hita þá tókum við upp tjaldið og héldum af stað í vesturátt.

Í sælureitnum er grunnt vatn sem kallað er Kisi, þar sem það er talið vera kattarlagað. Þessi lind er botnlaus uppspretta gleði og leikja hjá ungum sem öldnum. Við höfðum frá Spáni flutt heim uppblásinn bát sem bræðurnir notuðu til leiðangra út á Kisann.

Umhverfið er sem blautur draumur fyrir áhugafólk um fugla. Jaðrakan gelti á þúfu fyrir framan stofugluggann. Kríurnar leituðu að æti í Kisanum. Rjúpa með ellefu unga fór um allt í móanum (enda er þetta hennar heimili). Lóur kíktu í heimsókn ásamt Hrossagauk og Spóa. Lómurinn veinaði í nokkurri fjarlægð.
...það er ómögulegt að hrífast ekki af lífríkinu í Sælureitnum.

Nokkrir góðir gestir stungu inn nefum. Systkini fóru í hjólatúr / svaðilför um Þingeyjarsveit. Mér tókst sömuleiðis að hjóla í nágrenni Sælureitsins ásamt því að við hjónin hjóluðum Laxárdalinn. Annars var þetta með hefðbundnu sniði; Húsfreyjan bakaði vöfflur, Húsbóndinn bisaði við að koma upp loftneti á húsið og krakkar léku útum móa og mela.