May 30, 2012

Síðasti

Hér kemur svo allra síðasti Ameríkupósturinn... lofa ;o)

Það var fremur stuttur fyrirvari að þessu ferðalagi. Bjartur stakk uppá þessu og nefndi við vini okkar, sem höfðu boðið okkur nokkrum sinnum í heimsókn. Ég var bara nokkuð slök eftir velheppnað vinnu/ferðalag til suður Frakklands (sbr. Taugaáfall í París) og fann enga sérstaka þörf fyrir ævintýraferð. Það þurfti þó ekkert að hafa mikið fyrir því að sannfæra mig...aldeilis ekki. Þó var meira en nóg að gera á þeim tíma sem leið á milli þessara ferðalaga og eftirvæntingin sem fylgir ferðalagi sem beðið hefur verið eftir var af mjög skornum skammti.

Vissi þó að það yrði skemmtilegt... en það er bara svo gaman að hlakka til og skipuleggja ferðalög að það er hálfgerð synd að missa af því. Bjartur og Leaf (vinkonan íslenska/kanadíska/bandaríska) sáu um að plana túrinn. Ég er kannski svo vön að mikrómanagera alla skapaða hluti að það er mjög, mjög, mjög gott að sleppa takinu af og til. Það er ágætt stöku sinnum að sjá heimskringluna halda áfram að snúast um möndul sinn og snúast í kringum sólina þó ég sé ekki með puttana i því.

Það verður þó ekki hjá því komist að skipuleggja heilmargt áður en strákastóðið er yfirgefið. Sá hluti ferðalagsins er snúnastur. Við erum svo óstjórnlega þakklát fyrir okkar góðu fjölskyldu sem er viljug að taka við barnaómegðinni. Þegar ég er komin um borð í flugvél líður mér eins og ég sé "í stikki" frá raunveruleikanum. Flóknustu ákvarðanirnar eru hvort ég eigi að fá mér rautt eða hvítt, horfa á bíómynd eða sjónvarpsþátt. Dásemd!

Ferðalagið sjálft um USA var viðburðarríkt og lítill tími til hugsa heim. Ég vissi að strákarnir væru í góðum höndum. Tímamismunurinn gerði það að verkum að ég heyrði bara 1x í þeim í síma. Það var líka bara ágætt. Svo þegar við vorum á heimleið, daginn fyrir flug, saknaði ég þeirra alveg ógurlega. Merkilegt hvað þessir háværu, lífsglöðu og klístruðu vandræðabelgir hafa mikið aðdráttarafl. Mikið sem það var líka gott að koma heim og knúsa þá.

Bæði er best; að sleppa frá þeim og að koma heim aftur. Nei, ég er að plata. Það er langt um betra að koma heim aftur!




May 29, 2012

Því kaffi er ekki bara kaffi!

Eru ekki allir orðnir leiðir á lofræðu minni um blessuð Bandaríkin?



Ég þarf allavega að tjá mig um eitt amerískt fyrirbæri sem virðist vera alheims-success og kallast Starbucks! Þessi kaffisjoppa er útum allan heim og orðið jafn sterkt einkennismerki um vestræna neyslumenningu og sjálfur McDonalds. Þó orðspor Starbucks sé líklega öllu jákvæðara. Eigendur fyrirtækisins tileinkuðu sér snemma samfélagslega ábyrgð í rekstri - það er aðdáunarvert (og vonandi bæði á borði og í orði).

Mér finnst þetta sull sem selt er í Starbucks næstum ódrekkandi óþverri. Ef þörfin fyrir skikkanlegt kaffínskot er alveg að fara með mann þá er hægt að notfæra sér þetta en úff hve vonbrigðin eru alltaf mikil. Í fyrstu þótti mér þetta bara ljómandi ágætt. Svoldið ruglingslegt þetta með stærðirnar, tall (lítill), grand (miðstærð), vente (stór) og svo, vegna þess að þetta er auðvitað supersized bransi þá er til trenta (rosa stór).  Þegar ég loksins fattaði að "tall latte" væri meira en nóg fyrir mig þá skildi ég líka hve lélegt stöff þetta er.

Eftir því sem kaffismekkur konu þróast sér hún stöðugt betur hve ótrúlega við erum heppin að eiga Kaffitár! Það er orðin órjúfanleg hefð að fá sér síðasta góða kaffið fyrir ferðalag hjá Kaffitári í Leifstöð.

Það ljúfengasta sem fæst á sölustöðum þeirra er líklega tónlistin sem þeir gefa út - plötuútgáfa er víst eitthvað sem þeir eru sérstaklega flinkir í...



May 28, 2012

Skíðadraumur

Á kortinu má sjá leiðina sem við fórum á ferðalaginun okkar. Þetta var vikuferðalag. Vegalengdin á milli Denver og St. Georg er álíka löng og frá Reykjavík til Egilsstaða. 

Denver er höfuðborg Colorado. Þar byrjaði og endaði ferðalagið. Reyndar sáum við ekkert af þeirri borg. Við leigðum bíl á flugvellinum og keyrðum af stað í vesturátt. Fyrsta nóttin var í skíðabænum Vail. Bjartur hafði pantað hótel fyrir okkur á netinu viku áður. Hótelið var ágætt og Vail áreiðanlega vænsti bær en við sáum lítið af hvorugtveggja. Vail er í tæplega 2 klst fjarlægð frá flugvellinum og við vorum svo óskaplega syfjuð þegar við komum þangað að ég hefði verið reiðubúin til að sofa á bílastæðinu ef þar hefði verið sæmilegt rúm til að fleygja sér í. Eftirminnilegasta úr Vail var að þegar við lögðum af stað, eldsnemma, þá var bílrúðurnar hélaðar!

Á heimleiðinni ákváðum við að stoppa í Aspen í Colorado, sem er annar frægður skíðabær. Þar var líka afar stutt stopp en þó náðum við að rölta aðeins um og anda að okkur tæru og fersku fjallaloftinu. Okkur þótti Aspen alveg sérlega fallegur bær. Falleg fjallaþorp umkringt skíðabrekkum er nokkurnvegin okkar hugmynd um himnaríki!

Það er þó nokkur bið þar til við höfum efni á að fara með fjölskylduna á skíði þarna. Skíðapassinn kostar um $100 (ca. 12.000 kr.)  á dag og þegar það er margfaldað með 5 manna fjölskyldu í 6 daga þá er kostnaðurinn orðin umtalsverður. Þá á eftir á að borga gistingu, mat, bíl og flug. Það er því hægt að fá meira fyrir "dýrmætu" íslensku krónuna á evrópskum skíðastöðum.










May 26, 2012

Grand Canyon




Áfram gakk!

Við héldum áfram ferðalaginu til Grand Canyon - North Rim. Norðurbrún Miklagljúfurs er ekki eins fjölfarin og sú syðri, sem er hinn hefðbundni viðkomustaður Grand Canyon með þorp og mikilli þjónustu við ferðamenn.

Þangað fórum við Bjartur fyrir 15 árum síðan. Það var fyrsta ferð okkar beggja til Ameríku og ein sú eftirminnilegasta sem ég hef farið. Fyrirfram hafði ég verið full af fordómum gagnvart Bandaríkjum... eins og langflestir sem ég þekki. Í þessari ferð áttaði ég mig þó á því hve ógnarstórt landið er og hve margt gott er þar að finna. Gönguferð ofan í gljúfrið var einn af hápunktum þess Ameríkuferðalags.

Við höfðum ekki mikinn tíma til að skoða okkur um. Það er svo ógnarstórt að hægt væri að eyða viku eða tveim í að skoða það. Sigla niður ánna Colorado sem mótaði svæðið. Ganga fram og til baka um svæðið. Ferðast á múlasna eftir slóðum og skorningum. Fara í útsýnisferð á þyrlu eða einhreyfilsflugvélum. Þarna eru frábær tjaldstæði og litlir svefnkofar sem falla vel að umhverfinu. Einföld gisting en eftirsótt. Mér skilst að þarna sé 12 mánaða bið eftir gistingu!

Verð að segja það enn og aftur að kanarnir kunna að reka þessa garða. Þeim tekst með aðdáunarverðum hætti að vernda náttúruna fyrir ágangi mannsins og á sama tíma að gera það aðgengilegt almenningi. Merktar ökuleiðir, gönguleiðir o.s.frv. ásamt fræðslu fyrir ferðamenn.

Í þetta skiptið keyrðum við um svæðið. Nutum breytingarinnar í gróðurfari og landslagi á bílferðinni. Fengum okkur ágætan hádegismat í fjallaskála og röltum að útsýnispöllum. Það var ferlega næs.




Getur einhver útskýrt fyrir mér jarðfræðilega tilurð svona grjóts? 
Þetta lítur út eins og sviðsmynd úr Starwars IV

Raunverulegur mannabústaður! Þó ekki í byggð núna. Man því miður ekki söguna á bakvið staðinn.



Veitingastaður við þjónustumiðstöðina í Grand Canyon - North Rim

Séð frá útsýnispalli




 Grand Yoga



 Fyndnir gaurar sem ferðuðust saman á mótorhjólum og tóku af okkur hjónum þessa ágætu ljósmynd: 



 Heill skógur af dauðum trjám en inná milli voru skærgrænar og fallegar ungar plöntur.





May 25, 2012

Verndarsvæði Navajo indjána


"Nú eru þið frá Íslandi" sagði leiðsögukonan af Navajo-ætt sem leiddi okkur í gegnum Antilope slot canyon. Svo bætti hún við "mig hefur einmitt lengi langað að heimsækja inúítana sem þar búa." Ég ákvað að leiðrétta hana ekki neitt.

Næsti viðkomustaður okkar var þetta ægifagra gljúfur sem innfæddir kalla Antilópugil. Þó eru engar antilópur þarna. Seinna sagði leiðsögukonan okkur að Navajo indjánar ættu sitt eigið nafn yfir staðinn en ekki myndi ég geta haft það nafn eftir þótt líf mitt lægi við. Af þeim sökum fundu þau þetta neytendavæna nafn yfir fallega gljúfrið/gilið.

Ef mikið vatnsfall verður, t.d. vegna rigningar, sunnan við þetta svæði fyllast árfarvegir, gil og gljúfur af vatni. Straumhart vatnið rennur því af miklum þunga í gegnum þunna skorninga og móta það. Þannig varð þetta gljúfur til. Við gengum þurrum fótum í gegnum gljúfrið u.þ.b. hálfann km. Það er því ekki langt en upplifunin af þeim stutta spotta er þeim mun tilkomumeiri.

Úti var steikjandi hiti 100 gráður á farenheit... uþb. 37 gráður á celsíus. Við hossuðumst á furðulegum túrístavagni yfir vegleysur, í gegnum hlið inná verndarsvæði Navajo indjána. Þannig getur engin farið um þetta svæði nema í fylgd innfæddra. Það gefur þessu töfrandi blæ.

Indjánakonan, leiðsögumaður okkar, var þó afar nútímaleg. Lágvaxin og stutthærð með rauða derhúfu og í stuttermabol og stýrði ferðinni af mikilli festu. Spilaði á flautu fyrir okkur inní gilinu til að sýna okkur góðan hljómburð þess. Hún sýndi hvar og hvernig ætti að taka ljósmyndir í gljúfrinu.

Birtan spilar fallega með sandsteininum og vandasamt að fanga fegurðina. Ég var með litla Nikon P310 vél en Bjartur smellti af stóru Nikon D3100 á þrífæti. Við notum enga sérstakar linsur, í þessari ferð a.m.k. Ég læt myndirnar flakka óritskoðaðar og án þess að eiga við þær á nokkurn hátt.


Þessi bílferð gerði mig dauðskellkaða! 



The Road






Indjánakonan stýrði þessari myndatöku. Sagði hvar ég skildi sitja og hvert ég skildi horfa.  Mér finnst þetta mögnuð ljósmynd!


 Svona lítur gljúfrið út séð utanfrá

Ein túristamynd að lokum! 

Þetta gljúfur er í nágrenni við Lake Powell sem er uppistöðulón í miðri eyðimörkinni. Mitt fólk eru nú engir sérstakið aðdáendur virkjanna. Þó vissulega séum við ánægð með okkar aðgang að rafmagni. Þetta lón á sér þó langa sögu hrakfalla. Það tók t.d. 15 ár að fylla lónið af vatni! Í 15 ár var því beðið eftir að stíflan gæti framleitt rafmagn. Vatn er jú af skornum skammti í eyðimörkinni og sandsteinnin er mjúkur og eftirgefanlegur! Rannsóknir og þekking á svæðinu hefur líklega ekki verið til fyrirmyndar fyrir framkvæmdina.  Þegar vatnið safnaðist saman í lóninu hurfu antilópurnar sem Antilop slot canyon er kennt við, ásamt slatta af fornminjum indjána.

Til að vera jákvæður þá má segja að nágrenni Powell er skemmtilegt. Feiknarstórt stöðuvatn dregur til sín fólk í miðri eyðimörkinni. Þar eru margskonar bátar á ferð, strendur og huggulegheit. Við tókum nokkrar myndir af fallegu umhverfinu. Þarna hefði ég gjarnan viljað eiga auka dag... á sundlaugarbakka með nokkur tímarit og bleikan kokteil.

Stíflan 

Garðpartý útskriftarnema´12 í High school

Garð-jóga

Ljúfur andvari frá vatninu

Hótelið okkar séð frá smábátahöfninni