August 31, 2012

Endalaus hamingja



...alltíplati! Hamingjan fæst víst ekki með dauðum hlutum eins og hornsófa sem rúmar fimm manna fjölskyldu. Hamingjan felst í fólkinu sem situr í sófanum. Því trúi ég og get reyndar bakkað það upp með vísindalegum gögnum. Maðurinn sem dýrategund er forrituð til að eiga samskipti við aðra. Tilfinningalíf okkar mótast af miklum hluta af því hve sterk tengsl við eigum við annað fólk. Maður er manns gaman og allt það.

Í hornsófanum hef komið mér vel fyrir og horft á heimildarmyndir um hamingjuna.  Fyrir sálfræði-wannabe og margfalt sálfræði-dropout þá er þetta sannkölluð veisla. This Emotional Life taka á ýmsum þáttum sem tengjast velferð einstaklingsins. Þetta er ekkert innihaldslaust sjálfshjálpar kjaftæði, heldur byggt á vísindalegum rannsóknum. Jákvæð sálfræði er hreinlega stórskemmtileg... og gagnleg.

Peningar, ástarsambönd og börn hafa öll áhrif á líkur einstaklingsins til að upplifa hamingjuna. Það sem kemur skemmtilega á óvart er að rannsóknir sýna að tengsl þessara þátta er með öðrum hættin en flestir búast við. Í stuttu máli má segja að:
  1. Peningar skapa hamingju.
    • Efnað fólk er hamingjusamara en þeir sem ná ekki endum saman. Það er nokkuð rökrétt ekki satt? 
  2. Rannsóknir sýna að hjón séu hamingjusamari en þeir sem ekki eiga sér maka. 
    • Þrátt fyrir að helmingur hjónabanda enda með skilnaði þá virðist ástin vera í jákvæðu sambandi við hamingjuna.
  3. Barnlaus hjón eru hamingjusamari en hjón sem eiga börn.
    • Þetta er "sjokkerinn" í þessu sambandi. Það er ekki lítið sem konu er talið trú um að börnin séu dásemdin holdi klædd og að barnlausir hljóti að vera að missa af lífshamingjunni. Staðreyndin er sú að barnafólk hefur minni tíma, orku og fjármuni til að njóta svo margs sem lífið hefur uppá að bjóða.
Margt annað kemur á óvart við leitinni að hamingjunni... það er freistandi að koma sér fyrir í "hamingjuhorninu" mínu með tölvunni í kjöltunni og deila með þeim sem glugga í Dagbókina mína nokkrum gullkornum úr þessum fræðum. Svo er líka hægt að kíkja á Ted og horfa á fyrirlestur eftir Dan Gilbert, prófessor í Félagssálfræði við Harvard, höfund þáttanna.




Reyndar held ég (án nokkurra vísindalegra gagna) að hamingjan sé oftar en ekki ákvörðun. jÞað hjálpar líka að velja sér að umgangast lífsglatt og jákvætt fólk fremur en fýlupúka...


August 29, 2012

Hamingjuhornið


Það sem vantaði í líf mitt er nú komið á heimilið. Í hamingjuhorninu er nú sófi sem getur rúmað alla fjölskylduna þegar henni hentar að horfa á sjónvarpið. Satt besta að segja þá hefur sjónvarpsdagskráin batnað stórkostlega síðan þessi kostagripur bættist í búslóðina. Þarna getur 5 manna fjölskylda legið þvert og á kross... og æft samningartæknina (lesist: rifist) um yfirráð fjarstýringarinnar.

Eftir spennandi ævintýri sumarsins er loksins, loksins, komin tími á að gerast sófakartafla!

ps. hvað vantar á þessa mynd?
svar: húsmóðurina og stoltan eiganda sófans flatmagandi þarna á púðanum með spjaldtölvuna, spilandi bubbles ;o)

August 26, 2012

Eldhúsþrællinn

 Mynd: abebooks.com

Suma sunnudaga er notalegt að vera heima og halda sem mest til í eldhúsinu. Byrja á að skoða helgarblöðin yfir morgunmat. Hella uppá kaffi og dunda sér. Gera tilraunir í eldamennskunni á milli þess sem hent er í þvottavél. Þetta er þess háttar sunnudagur. 

Ég freistast óþarflega oft til að kippa með mér Gestgjafanum þegar staðið er í biðröð við kassann í Bónus. Blöðin eru svo falleg og freistandi. Því miður elda ég alltof sjaldan uppúr þeim. Reyndar er ég ein þeirra sem breyti stöðugt uppskriftum eftir eigin höfði. Í vor keypti ég tvær afar ólíkar matreiðslubækur. Sú fyrri er ein söluhæsta bókin á árinu: Heilsuréttir fjölskyldunnar. Bjútífúl bók og fróðleg. Seinni bókina var keypt í Bandaríkjunum í vor. Sú er meira svona kúreka en hippaleg heilsubók.... og kannski meira djúsí. Höfundur hennar er heillandi húmoristi, bóndakona í Oklahoma og bloggari. Ree Drummond er nokkurnvegin að verða fyrirtæki í sjálfri sér. Vörumerkið er The Pioneer Woman.

Núna ilmar húsið af langelduðu svínakjöti (pulled pork) sem verður sett í tortilla brauð með sýrðum rjóma,guacamole, grilluðu grænmeti og salsasósu. Vonandi smakkast það jafn vel og það hljómar.

Svo er á stefnuskránni að vera duglegri að nota Heilsurétti fjölskyldunnar. Stundum vex mér í augum að tileinka mér allt nýmóðins heilsufæðið s.s. chia fræ, kínóa, möndlumjöl og þessháttar. Það verður samt gaman að takast á við það ;o)


Mynd: bokafelagid.is

August 25, 2012

Tölvuvírus


Ef þið haldið að ástæðan fyrir leti á bloggsíðunni stafi af hlaupaæfingum eða ferðalögum þá hafið þið rangt fyrir ykkur. Ég er dottin í tölvuleik... af fínustu sort... sá besti síðan ég týndist í Tetris. Í sumar eignuðumst við spjaldtölvu (ekki Ipad sko) og síðan hef ég varla verið viðræðuhæf.

Sem er eiginlega bara gott á frú Yfir-tölvuleiki-hafin. Meira að segja tölvusjúkum frumburðinum er hætt að lítast á blikuna og kallar þetta eiturlyfið hennar mömmu. 

...jæja... þarf aðeins að vinna borð nr. 143... það er fjári snúið - okey bæ

August 19, 2012

Tilfinningaróf hlaupara

 Mynd: marathon.is

Stend við rásmarkið á Lækjargötu, óviss um hvar væri rétt að taka sér stöðu. Svo er ræst af stað með hvelli og hvetjandi tónlist hljómar. Eftirvæntingin liggur í loftinu og tilfinningarnar taka á sig mynd gæsahúðar og gleðitárs. Það er einfaldlega magnað að hlaupa yfir rásmarkið.

Kveiki á hlaupaúrinu mínu og sé að gleymdist að fá gervitunglatengingu fyrirfram og því byrja ég ekki að telja mínútur og kílómetra við rásmarkið. Það skiptir litlu máli þvi úrið átti ekki að vera plássfrekt í þessari upplifun.

Mannþröngin er mikil og ljóst að ekki er hlaupið að því að taka framúr. Klárlega þéttari hópur eða fleiri þátttakendur en nokkru sinni. Rauðklæddur hópurinn hlykkjast um Tjörnina, framhjá Þjóðminjasafninu og niður Suðurgötuna. Ég er bara eins og lítil fruma í þessari rauðu lífveru. Mér líður vel og soga að mér orkuna sem gjörningurinn gefur frá sér. Við Þjóðminjasafnið verður úrið tilbúið til tímatöku. Kveiki á úrinu og minni mig á að pæla ekki mikið í tímanum, pace-inu né vegalengdinni sem eftir er. Enn er þéttur hópur og erfitt að taka framúr.

Hjarðarhagi! Maður minn! Takk kæru íbúar - þið eruð stórkostleg. Hvílík stemning á þeirri götu. Við Ægisíðuna standa aðstandendur hjálparsamtaka sem hægt er að styrkja með hlaupum sínum. Nýrnasjúkir hvetja hlaupara. Parkisonsveikir standa keikir og hvetja hlaupara. Krabbameinssamtök hvetja hlaupara. Barnaheill hvetur hlaupara. Samtök um mænuskaða hvetur fólk áfram. Þakklát fyrir heilbrigði mitt hleyp ég áfram. Takk fyrir hvatninguna!

Mynd: marathon.is

Svo kemur Seltjarnarnesið sem skartar sínu fegursta. Sjórinn er spegilsléttur. Lindarbrautin er stórskemmtileg. Vönduð djasshljómsveit spilar og hvetur áfram. Takk íbúar - þið eruð líka stórkostleg. Af og til kíki ég á hlaupaúrið góða og sé að pace-ið er fínt. Hleyp á 5.4 - 5.5 - 5.3. Okey þetta er bara fínt, reyndar mun betra en ég átti von á. Alltaf gott að vera undir 6.0 - sé fram á að koma í mark á 56 -57 mín. Fínt, hugsaði ég, á nóg inni.

Við JL húsið þóttist ég vita af mínu klappliði. Þarna voru skytturnar mínar þrjár, mamma, pabbi, amma, systir og mágur - þau gáfu mér fæv og aukið búst til að taka Geirsgötuna. Í sama hlaupi ári áður sá ég særðan hlaupara fara í sjúkrabíl við Héðinshúsið og óskaði mér að skipta við hann um hlutverk, svo rosaleg var fýlan í mér á þeim stað á þeirri stund. Nú var ég bara með sæmilegan fókus og einbeitti mér bara að því að hlaupa á jöfnum hraða. Óvíst hvenær á að hefja endasprettinn þar sem allt er gefið í botn. Vegna þess að upplýsingaveitan, gps úrið, sýndi jákvæða framvindu ákvað ég að vera ekkert að spretta fyrr en í Lækjargötu. Kom brosandi í mark.

Seinna þegar úrslitin voru skoðuð á netinu varð ég hissa. Hlaupahraðinn sem gps úrið gaf upp var ekki í samræmi við niðurstöður. Öll upplifunin af hlaupinu breyttist eftir á. Vegna þess að hlaupið tók 59 mín en ekki 57 mín! Fyrstu 700 metrarnir tóku hlutfallslega lengri tíma en afgangurinn af hlaupinu, þar sem svo mikið af fólki var... eða ég ekki staðsett rétt... veit ekki.

Svo þessi stórkostlega upplifun tók 2 mínútum lengri tíma en planið var. Bömmer? Borgin skartaði sínu fegursta. Íbúar þess sendu rauða hlaupaorminum langa sínar bestu kveðjur. Ég naut góðs af þessari velvild. Það eru forrétindi að vera þátttakandi í 10 km hlaupi. Hver getur verið stoltur af því að vera nægilega heill heilsu til að fara þá vegalengd fyrir eigið afl. Svo leyfi ég mér að láta þessar skitnu 2 mínútur fara í taugarnar á mér. Góði heilinn minn segir bara; "Skammastu þín stelpa".

Hversu margir klukkutímar (eða 59 mín) lífsins eru jafn samanþjappaðir af orku, tilfinninganæmi, þakklæti, stolti, eftirvæntingu og gleði sem hlaupari upplifir í einu 10 km. Reykjavíkurhlaupi?

Mynd: marathon.is


August 17, 2012

...á hlaupum


Þessi vika hefur verið svolítið á hlaupum. Fjölskyldan fór norður um síðustu helgi til að fylgja mér í Jökulsárhlaupið. Gist var í sæluhúsinu í Aðaldalnum, í næsta nágrenni við Ásbyrgi þar sem hlaupið var. Í stuttu máli sagt þá var það mikið hamingjuhlaup. 13 km leið frá Vesturdal/Hljóðaklettum til Ásbyrgis. Markmiðið var að njóta stórkostlegrar náttúru landsins og heillrar heilsu. Tímatakann var minna mál.

Veðrið var dásemd og stemningin góð. Mér leið vel allan tímann. Datt reyndar einu sinni en það var "þægileg bylta". Leiðin er á þröngum göngustíg, sandflákum, grófu grjóti og upp myndarlega hæð, svo lítið var um framúrhlaupum. Í marga km horfði ég dáleidd á rauðu hlaupasokkana á næstu hlaupakonu. Lagalistinn í ipodnum var líka sjúkt góður. Klappliðið var búið að koma sér fyrir í fallegri laut, rétt eftir rásmark þar sem það hvatti okkur áfram. Það kom líka skemmtilega á óvart að þau voru búin að koma sér líka fyrir rétt fyrir marklínu til að "gefa okkur five". Ég lauk hlaupinu á 1 klst. og 33 mín. Sem þýðir að ég var fyrir framan miðju í mark og u.þ.b. 10 minútum fyrr á ferðinni en ég lagði upp með.

Eftir að klára hlaupin fengum við smá sumarauka í bústaðnum. Týndum haug af bláberjum, veiddum silung, kíktum á hamingjuhænurnar hennar Fíu og skáluðum í kokteilum.

Þegar suður var komið átti frumburðurinn 10 ára afmæli!!! Vissulega tímamót fyrir bæði afmælisdrenginn sem og móður hans. Greyið hefur ekki enn fengið almennilega stórveislu en var vakinn upp á afmælisdaginn með söng, pakka og amerískum pönnukökum. Almennt dekur stóð svo yfir allan daginn.

Í vinnunni eru skrítnir dagar. Börnin "mín" eru að kveðja öryggi leikskólans og hefja nýtt og spennandi líf í fyrsta bekk. Það eru fáir á deildinni og því "hljóðlátt" hjá okkur á meðan við undirbúum að taka á móti nýjum hóp.

Á morgun er svo seinna hlaup mánaðarins. Reykjavíkurmaraþonið - 10 km. Klukkutíma sem ég hef kviðið fyrir í heilt ár! Vonandi mun góð reynsla frá síðustu helgi hjálpa mér svo að hausinn hlaupi með mér en ekki á móti. Ég hef markmið. Tímamarkmið. Finnst það svolítið scary og því mun það ekki verða upplýst á opinberum vettvangi ;o)

Mikið sem ég sé eftir því að hafa ekki safnað áheitum í þágu góðs málefnis í þetta skiptið. Það var mjög gaman að gera það í fyrra. Þess í stað ætla ég að heita á aðra sem hlaupa til góðs.

 Undirbúningur í Ásbyrgi

 13 km: Agnes, Gerða og Fríða

Rétt eftir start
 
 "Gemmér fæf" - klapplið ársins 

 Hlaupalið Sandala: Egill, Fríða, Gerða og Agnes



August 8, 2012

Þrír fyrir einn

Reykjanesviti

Fyrst: Júlí markmið


Júlí var tekin sem heilagur frímánuður. Markmiðið var að sleppa öllum skyldum og einungis gera það sem mig langaði. Samviskubitslaust! Sem er áskorun í sjálfu sér.  Það er furðu nærandi að gera það sem leitar á hugann hverju sinni án þess að vera búin að ákveða það með löngum fyrirvara. Merkilega við svona afslappelsi er að glettilega margt kemst í verk. Við fórum víða, gerðum margt og í miklu afslappelsi.


Hverir við Seltún

Annað: Ágúst markmið


Um næstu helgi ætla ég að taka þátt í Jökulsárhlaupi sem er frá Hljóðaklettum til Ásbyrgis (13 km). Þetta hlaup var ákveðið fyrir nokkrum mánuðum. Það er lengsta hlaup sem ég hef tekið þátt í. Sem er áskorun. Markmiðið er að klára. Tíminn mun engu skipta... svona næstum því. Hlaupið er í stórbrotnu landslagi. Þarna hef ég gengið 2x áður.

18. ágúst tek ég þátt í Reykjarvíkurmaraþoninu í 4 skipti. Það er stórkostlegt stemningshlaup. Reyndar var mín persónulega stemning með allra versta móti síðast þegar ég fór. Mig langar að bæta minn tíma agnarögn en vill þó enn frekar endurupplifa gleðivímuna þegar komið var yfir marklínuna í fyrstu tvö skiptin.

Ágúst verður því hlaupa og gleðimánuður Drekaársins mikla ;o)


Valahnúkur / Reykjanestá

 

Þriðja: nokkrar vangaveltur um hlaup

 

Eftir veturlanga hvíld á hlaupum reimaði ég á mig skónna, skellti mér í spandex gallann og setti á mig hlaupaúrið / púlsmælir. Ákveðin í að ofreyna mig alls ekki. Vildi vera laus við þráláta verki í sköflungi (búin að reyna ALLT til að losna við þann verk) svo ég setti allt mitt traust á hlaupaúrið og púlsmælinn. Alltaf að passa mig að ofreyna mig ekki. Blessaður púlsmælirinn lét eins og ég væri að fá hjartaáfall. Mestan part sumarsins hef ég því verið í stresskasti yfir hraða og hjartslætti... sem er leiðinlegt. Því ákvað ég að skilja þessi rafmagnstæki eftir í síðustu hlaupum og einbeiti mér að því að njóta hlaupsins. Já ég sagði NJÓTA!

Fyrir mér eiga hlaupin að vera í senn hugleiðsla og lofsgjörð líkamans. Það er bara stórkostlegt kikk að hlaupa upp og niður móa og mela, umkringd fuglum og ilmandi gróðri þó ég sé móð og másandi. Vitandi að holdið ræður við átökin svo lengi sem andinn lætur ekki undan. 
 

Valahnjúkur