February 22, 2012

Influenza

Ónæmiskerfi mitt er eitt af mínum bestu eiginleikum. Ég er svo baneitruð að sýklar leggjast yfirleitt ekki á mig. Svo vaknaði ég á sunnudagsnótt (eftir skvísupartý) með liðverki og í svitakasti... í fyrstu viss um að of margir drykkir væru um að kenna. En hingað til hef ég ekki fengið háan hita vegna þynnku.

Í fjóra daga hef ég legið í rúminu og "látið stjana við mig" óóó hvað ég vorkenni þeim sem hugsa um mig... ég hef ekki góða skapgerð í veikindum. Kontrólfrík eru slæmir sjúklingar. Mikið sem það er gott að vera gift þolinmóðum manni með jafnaðargeð.

Trausti féll fyrir flensunni degi á eftir mér. Hann er alsæll með að vera heima hjá mömmu sinni, kúrandi uppí rúmi og horfandi á teiknimyndir. Þegar ég mældi hann í morgun, og sá að hitinn hafði hækkað síðan í gær, sagði ég "æi, Trausti minn þú ert ennþá veikur" en hann svaraði bara "jess" ;o)

Svo nú liggjum við mæðginin uppí rúmí - naflastrengurinn sterkari en nokkru sinni og horfum á myndir í tölvunni minni. Hann alsæll en ég skapstygg.

Planið fyrir þennan öskudag var að keyra norður. Það er vetrarfrí hjá Bergi og Bjartur á nokkra samfellda frídaga. Við ætluðum að renna okkur á skíðum, slaka á í sundlauginni, gista í Aðaldalnum, versla í Nettó og kíkja á Frúnna í Hamborg. Skíðafrí norður á Akureyri er einn af hápunktum vetrarins í mínum huga. Það er þó ljóst að það verður ekki núna.

February 12, 2012

Borða, biðja, elska



Hljóðbækur eru öðruvísi en hefðbundnar bækur því lesarinn hefur áhrif á því hvernig þú upplifir söguna. Lesarinn er millilðiður sem getur dregið góða sögu niður eða bætt miðlungsgóða bók. Ég er húkkt á hljóðbókum. Það er gott að leggjast með góða bók og lesa en með hljóðbókum er hægt að múltítaska. Með hljóðbókum er hægt að múltítaska; brjóta saman þvott og hlusta á sögu, prjóna og hlusta, ganga með barnavagn og hlusta... og svo framvegis.

Það er ein hljóðbók sem heillar mig meira en aðrar. Metsölubókin "Eat, pray, love" - sumir elska hana og aðrir elska að hata bókina. Sumir hafa einungis séð bíómyndina og fundist hún ömurleg eða alveg frábær. Mín hljóðbók er lesin af höfundinum. Mér finnst hún frábær, rétt eins og ég sé að kynnast manneskju sem hefur skemmtilega sögu að segja. Ég ímynda mér að við yrðum góðar vinkonur ef við myndum bara hittast ;o)
Ég hef gúglað hana og allt.... total fan!

Nú var ég að klára að hlusta á hana í 3 eða 4 skipti og ég velti fyrir mér hvað það er við bókina eða höfundinn sem heillar mig uppúr skónum. Annað eins hefur ekki gerst síðan ég litaði á mér hárið rautt á gelgjunni vegna áhrifa frá Ísfólkinu (sem ég las alla tvisvar).

Ég læt fylgja með link á TED fyrirlestur sem hún hélt fyrir nokkru síðan og líka brot úr myndinni (sem var að mínu mati allt í lagi sem slík en skilaði enganveginn innra ferðalagi þessarar konu.

Það sem heillar mig við bókina eru lífsviðhorfin sem birtast í henni og heiðarleiki hennar við að segja frá erfiðri lífsreynslu og hnyttni í orðavali. Hér eru nokkrar tilvitnanir :
  • Your treasure – your perfection – is within you already. But to claim it, you must leave the busy commotion of the mind and abandon the desires of the ego and enter into the silence of the heart.”
  • “You need to learn how to select your thoughts just the same way you select your clothes every day. This is a power you can cultivate. If you want to control things in your life so bad, work on the mind. That’s the only thing you should be trying to control.”
  • “In a world of disorder and disaster and fraud, sometimes only beauty can be trusted. The appreciation of pleasure can be an anchor to one’s humanity.”
  • “God is an experience of supreme love.”
  • “Learning how to discipline your speech is a way of preventing your energies from spilling out of you through the rupture of your mouth, exhausting you and filling the world with words, words, words instead of serenity, peace and bliss.”
  • “Having a baby is like getting a tattoo on your face. You really need to be certain it's what you want before you commit.” 
  • “You were given life; it is your duty (and also your entitlement as a human being) to find something beautiful within life, no matter how slight.”  
  • “You are, after all, what you think. Your emotions are the slaves to your thoughts, and you are the slave to your emotions.”

 Amen

February 8, 2012

...og hvernig gengur?

Sykurlaus í viku og það hefur bara gengið vonum framar. Fyrst fann ég alveg fyrir líkamlegum óþægindum, ég bjóst við að finna fyrir hausverk og sleni en það var ekki svo mikið.

Fyrsta föstudag í mánuði er svokölluð "Himnasæla" í vinnunni og þá mætir ein deild með kökur og gotterí í kaffið. Þessi góði siður ber nafn með rentu. En ég mætti bara með nesti... heilagri en nunna í föstu og snerti ekki við sætindunum... en fékk mér osta og heitann brauðrétt.

Mest finn ég fyrir þessu þegar ég borða eitthvað sem ég para saman við sætindi. Eins og ískalda kók með föstudagspizzunni og poppkorninu í bíó. Svo þegar risastór skál með uppáhalds namminu mínu er sett fyrir framan mig... þá er erfitt að hlusta á "góða heilann" sinn.

Það sem er snúið er auðvitað að það er sykur allstaðar. Ég hef því pottþétt borðað sykur án þess að vita af því. Ég sting bara puttanum uppí kok og gubba bara... DJÓK! Nei, ef það slæðist einhversstaðar inn sykur þá refsa ég mér ekkert fyrir það.

Svo hef ég búið til allskonar sykurlaust nammi. Gerði t.d. hráa snickersköku sem er dásemdin ein með kaffibollanum. Það er þó auðvelt að missa sjónar af því hve "varaskeifurnar" í sykurleysinu eru orkumiklar. Hnetur, kókosolía, agave, döðlur, möndlur og annað þessháttar er stútfullt af næringarefnum sem gera konu gott en þetta er orkuríkur matur og ekki "megrandi" (ef slíkur matur er þá til). 

Ég er líka þakklát fyrir að enginn viðbættur sykur er í hvítvíni. Takk!

February 3, 2012

Ár drekans


Í lok janúar hófst nýtt ár samkvæmt kínverska tímatalinu. Ár drekans. Sjálf er ég fædd á ári drekans og hef því ákveðið að þetta verði árið mitt. Kínversku stjörnumerkin tileinka hverju ári einu stjörnumerki, ólíkt vestrænu stjörnumerkjunum sem miða við mánuðina.

Stjörnumerki Kínverja eru 12: uxinn, rottan, svínið, hesturinn, snákurinn, haninn, apinn, geitin, kanínan, tígurinn, hundurinn og drekinn.


Hérna er raunsönn lýsing á eiginleikum okkar drekanna: 

Sjaldan bregst að Drekarnir eru fólk sem geislar af prýðis heilsu og þrótti. Þar sem þeir eru gullheiðarlegir eiga þeir hvorki til neins konar nísku ne hræsni og ekki láta þeir draga sig inn í vafasamar athafnir af neinu tagi. En þetta eru líka heimsins lélegestu “diplomatar”! Drekinn er að vísu ekki svo saklaus sál sem Svínið en hann stendur við sannfæringu sína af hreinleik hjartans og á þá til að hlda marga hluti gull, bara af því þeir glóa.

Oft blæs drekinn eldi og brennisteini – vegna sáraómerkilegra hluta. Hann er hugsjónamaður, vill að allt sé fyrsta flokks og vill helst ekki sætta sig við annað en það besta. Því krefst hann oft mikils af sjálfum sér og örðum. En þótt hann krefjist mikils þá gefur hann líka mikið á móti.

Óþolinmóður er hann og þrár og þar sem hann er orðhákur mikill segir hann stundum fleira en hann beinlínis ætlar sér. En sama hve orðljótur hann er, þá eru skoðanir hans þess virði að hlustað sé á þær.
Drekinn er ákaflega stolltur. Hann er svo ákafur í eðli sínu að stundum fer hann offari.

Hann er hæfileikaríkur og vel gefinn, úthaldsgóður og viljasterkur og rausnarlegur mjög. Ekkert er honum ómögulegt. Hvað sem hann gerir mun hann gera vel. Litlar líkur eru til þess að Drekinn eigi eftir að lenda í því að eiga ekki til hnífs og skeiðar

Hvort sem Drekinn leggur út á listamannasbrautina, gerist hermaður, læknir eða stjórnmálamaður, mun honum vegna ágætlega í starfi. Honum vegnar raunar vel hvar sem hann fer. Hann mun ráða fram úr hverjum vanda. En því miður er þessi hæfileiki tvíhentur. Drekinn gæti átt til að gerast baráttumaður fyrir illt málefni – og þar yrði honum ekki síður ágengt en annars staðar. Drekanum er eiginlegt að fara með sigur af hólmi.

Margir festa ást á Drekanum en sjálfur verður hann sjálfur frekar sjaldan ástfanginn. Ekki þjaka hann af áhyggjum af ástmálum og sjaldgæft er að hann verði fyrir vonbrigðum í ástum. Þvert á móti er hitt algengara að hann kremji hjörtu. Konur undir þessu merki eru umkringdar aðdáendum og eiga nóga biðla

Ekki þykir Drekanum það henta sér að giftast á unga aldrei. Margir Drekar eru jafnvel piparsveinar eða piparmeyjar alla ævi. Þeir eru meira en nógir sjálfum sér til að geta metið þá kosti sem einlifinu fylgja. Satt best að segja eru Drekarnir hamingjusamari einir.

En ef Drekinn gengur í hjónaband á annað borð ætti hann t.d. að geta lynt vel við hina góðhjörtuðu Rottu, se tekur við öllu því sem Drekinn réttir að henni – einnig afskiptaleysi og áhugaleysi. En Rottan mun líka njóta margs góðs af sambandinu og öllu því sem Drekinn dregur til búsins. Drekinn mun lika hafa gott af gagnrýnihæfileika Rottunnar og peningaviti hennar.

Sama má segja um Snákinn, en skopskyn hans veður nokkur hemill á stollt Drekans. Karl sem fæddur er undir merki Drekans mun ætið falla fyrir töfrum konunnar sem fædd er undir merki Snáksins. Hann mun líka vera mjög hreykinn af að eiga hana fyrir konu.

Hinn mikilláti og hreykni Hani mun einnig eiga vel við Drekann. Hann mun tína upp þá mola sem falla af borði Drekans og verða feitur af.

En hinn fullkomni betri helmingur handa Drekanum er hins vegar Apinn… bæði í viðskiptum og í ástum. Vegna slægðar Apans og þess styrkleika sem Drekinn býr yfir hafa þeir þörf hvort fyrir annan – en það veit Apinn einn. Rétt er lika að muna að Apinn er sá aleini af öllum merkjunum sem getur leikið á Drekann. Samband Drekans og Tígursins getur varla orðið rólegt eða árekstralaust. En mest af öllu skyldi Drekinn var sig á að lenda undir sama þaki og Hundurinn. 
Drekinn mun eiga við ýmsa minni háttar örðuleika að stríða á ævinni. Einkum mun honum seint þykja sem foreldrarnir standi sig nógu vel og geri nógu mikið fyrir hann.

Því torsóttari og erfiðari sigra sem Drekinn vinnur, þeim mun fjær fer því að hann sé ánægður. Samt mun hann verða hamingjusamur á sinn hátt – þótt hann geri sér ekki grein fyrir því fyrr en á síðasta æviskeiði sínu. Það skeið mun veita honum allt sem hann þráir.

Dags daglega glitrar Drekinn og skín. En ljóminn er allur á yfirborðinu. Hann er í rauninni ekki fær um að varpa frá sér þeim innri bjarma sem hrífur og heillar varanlega. Styrkleikurinn sem hann virðist hafa til að bera er þegar nánar er að gáð aðeins uppgerð.

Drekinn er líka í raun heimatilbúið undur. Það má láta hann spúa eldi og gulli eftir því sem hentar. En þagar hátíðinni er lokið og gleðin yfirstaðin er skepnan tekin og brend á báli. Svo rís Drekinn upp úr ösku sinni líkt og fuglinn Fönix, og sér ekki á honum blett eða hrukku.

Frægir Drekar: Sálfræðingurinn Sigmund Freud, Jóhanna af Örk, heimspekinguirnn Jean-Jacques Rosseau, byltingamaðurinn Danton, og enginn annar en Jesús Kristur.
Hvað getur Drekinn orðið: Leikari, listamaður, iðnjöfur, verslunnareigandi, arkitekt, læknir, lögmaður.Byssubófi, prestur, spámaður.

February 2, 2012

Sæt en sykurlaus

Eitt af ótal markmiðum mínum á ári Drekans er að neyta ekki viðbætts sykurs í febrúarmánuði. Þetta er afar, afar, afar metnaðarfullt markmið. Það er ekki nauðsynlegt að þekkja mig mikið til að vita að ég er "sykursjúk" - algjörlega sjúk í sykur.

Nú eru komnir 2 sykurlausir dagar og ég er á lífi. Það sem merkilegra er að enn hef ég ekki tekið neinn af lífi. Ég lofa þó ekki að allir komi lífs af í þessu verkefni... það er þó rétt að vona hið besta.

Ástæðan er tvíþætt. Hin augljósa er sú að sykur er óhollur. Hin ástæðan er flóknari, og þó ekki, ég er að æfa viljastyrkinn. Viljann þarf að þjálfa eins og hvern annan vöðva. Efling viljans er þema markmiða ársins.

Sykurbindindi er ekki einfalt mál. Það krefst skýrrar skilgreiningar. Hvað er sykur og hvað er ekki sykur... það er flóknara en mig grunaði. Sumir "sérfræðingar" segja að ekkert sé að marka sykurbindindi nema ALLUR sykur sé fjarlægður, þar með taldir ávextir. Aðrir tala um að hvíti sykurinn sé frá skrattanum komið. Þýðir það að ég geti drukkið líter af dag af agavesýrópi með góðri samvisku? Hvað með gervisykur... það er gervi, sumsé ekki sykur. Jæja niðurstaða mín er svona:

Má:
  • ávextir (hef ekki trú á neinu mataræði sem hvetur til þess að maður sneiði framhjá ávöxtum og grænmeti) 
  • agave
  • hunang
  • pálmasykur og annað "fínerí" úr heilsubúðum
  • döðlur, sveskjur, fíkjur
  • ...og já, sparkið í mig, kallið mig hræsnara en 70% súkkulaði er ekki sykur - hey, þetta er mitt verkefni!
Má ekki:
  • nammi
  • kók
  • ís
  • kökur (þetta er allt frekar augljóst)
  • sykraðar mjólkurvörur
  • tilbúnir djúsar
  • ...og flest annað sem gefur lífinu gildi ;o)
Já, ég verð svooo skemmtileg næstu 27 dagana. Ef vel gengur verð ég ein af þessum óþolandi, frelsuðu lífsstílsskinkum sem nota hvert tækifæri til að tala um skaðsemi sykurs, síðan mun ég taka út glúten, því næst mjólk, svo verð ég farin að nærast einungis á sömu fæðu og steinaldarmaðurinn... þið getið byrjað að hlakka til ;o)