November 18, 2012

Hvíldarinnlögn


Hluti af meistaranámi mínu í háskóla var tekin við CBS í Kaupmannahöfn. Þar kynntist ég sjö frábærum stelpum sem voru í sama námi. Dvölin í Köben var mikið ævintýri og margt lærðist sem aldrei var lesið í skólabókum. Við kölluðum félagskapinn Glytturnar og settum það að markmiði að leggja heiminn undir okkur... í það minnsta hið smá Ísland.

Svei mér þá, þær virðast ekki langt frá því að ná settu marki þessar kraftmiklu kjarnakonur.


Í nokkurn tíma hafa þó "reglulegir strategíufundir" legið niðri. Við ætlum að bæta úr því og ein Glyttan bauð okkur hinum í sumarbústað á suðurlandinu. Þrátt fyrir að hafa ekki verið mikið saman uppá síðkastið var þessi bústaðarferð svo áreynslulaus og afslöppuð. Endurnærandi samvera.


Myndarvélin mín varð eftir heima en instagramið í símanum var brúkað þeim mun meira... og konu gæti grunað að þetta væri matarblogg af því að skoða myndirnar. Við borðuðum góðan mat enda eru þær allar listakokkar.









November 14, 2012

Feika'ða og meika´ða



Eftir dásamlegt sumar finnst mér haustið dimmt, napurlegt og lítið skemmtilegur tími. En þar til að skammdegið í sálatetrinu fjarar út reyni ég að "feika´ða þar til ég meika'ða". Jólin eru auðvita stórfín en mér finnst samt betra að fæla myrkrið í burtu með litafylleríi. Kveiki á kertum síðdegis, fer í heitt bað, mæti í ræktina, sinni fjölskyldunni og endurtek nýju möntruna mína sem ég fann á Pinterest.

Hver veit nema einn daginn muni ég trúa þessu? Það er þess virði að reyna ;o)


www.wantadumpsterbaby.com


November 11, 2012

Markmiðamartöð


Í öllum kennslubókum um markmið er talað um mikilvægi þess að þau séu SMART.

S = Skýr: mikilvæg, læsileg og skiljanleg.
M = Mælanleg: þú verður að vita hvenær þú hefur náð þeim.
A = Alvöru: þú verður að geta náð þeim.
R = Raunhæf: það má ekki taka of langan tíma að ná þeim.
T = Tímasett: settu lokatíma á markmiðin.

Nú er ég í vanda með mitt októbermarkmið. Þau voru reyndar nokkur en aðalverkefnið var að prjóna peysu á einum mánuði. Sem er skýrt markmið, alvarlegt, mælanlegt og tímasett. Í sjálfu sér jafnframt raunhæft... þó tæplega.

Martröðin er sú að sjá að hindranirnar á veginum gera það að verkum að erfitt er að standa við tímarammann sem settur var. Þá kemur í ljós hvurslags karakter kona er. Gefst hún upp eða heldur hún áfram. Ákveður hún að tímanum sem varið er í að klára verkefnið væri betur varið í að sinna öðrum verkefnum og ef svo er, má þá telja markmiðið mistök?

Í hverjum sólarhring eru 24 klst. og innan þess tímaramma rúmast býsna mörg skylduverk. Að setjast niður, slá saman prjónum í rólegheitum og horfa á áþreyfanlegan árangurinn er virkilega gefandi iðja. Þó er því ekki að neita að ef kona er í tímaþröng og þarf að múltitaska skriljón hluti samtímis þá verður prjónaskapurinn að kvöð fremur en ánægju.

Á síðasta mánuði hefur peysunni verið sinnt og ýmislegt annað þurft að sitja á hakanum. Hún hefur verið rekin upp og prjónuð uppá nýtt. Að ná SMART markmiði á réttum tíma hefur valdið prjónakonunni hugarangri. Að gefast upp hefur verið freistandi... jafnvel skynsamlegt. En til að þjálfa seigluna hefur hún ákveðið að fyrirgefa sjálfri sér að standa ekki við tímamörkin og leyfa sér meira að segja að njóta restarinnar af verkefninu... svona að mestu leiti ;o)

November 1, 2012

Hrekkjavaka


31. október er ágætis dagur til að vera hryllilegur en skemmtilegur samtímis. Villingur og Tryllingur buðu þremur vinum hvor heim í hrekkjavökupartý. Frú Hryllingur hafði fyrir því að baka múffur og lagði sig fram um að hræða vinina. Fyrir viku síðan skar frumburðurinn út grasker (með ogguponsulítilli aðstoð). Það er í þriðja árið í röð sem það gerist... þar með er það orðið að hefð!

Planið var að nota kjötið úr graskerinu i ljúffenga graskerköku... en því var þó ekki komið í verk. Hefði verið smart að henda inn uppskrift að bragðgóðri dásemd. Jæja, kona kemst ekki yfir allt sem henni langar til að gera.

Litlu guttarnir voru alsælir með uppistandið. Klæddu sig í búninga og léku sér. Það er ástæðulaust að láta sem maður sé yfir "Dag hinna dauðu" hafinn. Það er gaman að nota tækifærið til að gera eitthvað skemmtilegt.

Við skemmtum okkur allavega hræðilega vel.