February 12, 2011

4 kossar í nesti

Ég var vakin snemma í morgunsárið til að keyra Bjart í vinnuna. Hann mætir til vinnu einu sinni í mánuði, það eru ekki margir sem komast upp með slíkt. Það er notalegur en ljúfsár bíltúr vestur Reykjanesbrautina í myrkrinu. Amma Dóra mætti til að passa uppá strákastóðið á meðan (ömmur eru svo undursamlegar manneskjur). Bjartur er búin að vera heima í rúmar 2 vikur og það er ósköp gott að hafa hann heima en ég kvíði því ekkert að verða aftur einræðisherra á heimilinu. Það hlutverk fer mér afskaplega vel ;o)

Svo fylgi ég honum meira að segja inní Leifsstöð og næ mér í ljúfan latte frá Kaffitári svona til að halda mér vakandi og varkárri í hálkunni á heimleiðinni. Við "tjékkinnið" kveðjumst við með 4 kossum, einn fyrir hverja viku þar til við sjáumst að nýju...

Á heimleiðinni hlusta ég á BBC World í útvarpinu þar sem hver sérfræðingurinn á fætur öðrum segir frá sinni skoðun og greiningu á ástandinu í Egyptalandi og Arabaheiminum. Annað heimili Bjarts er á þessu svæði. Þar sem bænasöngurinn er jafn sjálfsagður hluti hversdagslífsins og umhleypingarnir í íslenskri veðráttu. Þar sem farþegar flugvélanna skiptir yfir í viðeignandi klæðnað í miðri flugferð þegar komist er í nálægð við Mekka. Þar sem konur verða ósýnilegar þar sem þær líða um í svörtum burkum eins og skuggar eiginmanna sinna, bræðra, feðra eða sona.

Á sama tíma mun ljóshærður og freknóttur einræðisherra stýra þegnum sínum þremur af mikilli umhyggju, ylja sér við minninguna um þessa fjóra kossa og hlakka til að fá fleiri í framtíðinni...

February 11, 2011

Nýir tímar

Frá því að ég gekk með miðlunginn minn hef ég skrifað hugleiðingar mína um dásemdir móðurhlutverksins og birt myndir af hversdagslífi fjölskyldunnar á hinu ágæta Barnalandi. Eftir því sem tíminn líður hefur mér þótt sá miðill takmarkandi og því hef ég ákveðið að opna "alvöru" bloggsíðu.