May 28, 2012

Skíðadraumur

Á kortinu má sjá leiðina sem við fórum á ferðalaginun okkar. Þetta var vikuferðalag. Vegalengdin á milli Denver og St. Georg er álíka löng og frá Reykjavík til Egilsstaða. 

Denver er höfuðborg Colorado. Þar byrjaði og endaði ferðalagið. Reyndar sáum við ekkert af þeirri borg. Við leigðum bíl á flugvellinum og keyrðum af stað í vesturátt. Fyrsta nóttin var í skíðabænum Vail. Bjartur hafði pantað hótel fyrir okkur á netinu viku áður. Hótelið var ágætt og Vail áreiðanlega vænsti bær en við sáum lítið af hvorugtveggja. Vail er í tæplega 2 klst fjarlægð frá flugvellinum og við vorum svo óskaplega syfjuð þegar við komum þangað að ég hefði verið reiðubúin til að sofa á bílastæðinu ef þar hefði verið sæmilegt rúm til að fleygja sér í. Eftirminnilegasta úr Vail var að þegar við lögðum af stað, eldsnemma, þá var bílrúðurnar hélaðar!

Á heimleiðinni ákváðum við að stoppa í Aspen í Colorado, sem er annar frægður skíðabær. Þar var líka afar stutt stopp en þó náðum við að rölta aðeins um og anda að okkur tæru og fersku fjallaloftinu. Okkur þótti Aspen alveg sérlega fallegur bær. Falleg fjallaþorp umkringt skíðabrekkum er nokkurnvegin okkar hugmynd um himnaríki!

Það er þó nokkur bið þar til við höfum efni á að fara með fjölskylduna á skíði þarna. Skíðapassinn kostar um $100 (ca. 12.000 kr.)  á dag og þegar það er margfaldað með 5 manna fjölskyldu í 6 daga þá er kostnaðurinn orðin umtalsverður. Þá á eftir á að borga gistingu, mat, bíl og flug. Það er því hægt að fá meira fyrir "dýrmætu" íslensku krónuna á evrópskum skíðastöðum.










No comments:

Post a Comment