May 26, 2013

Sveitasæla og sauðburður

  

Breiðholtsstelpan fékk boð um að heimsækja nýfæddu lömbin í Borgarnesi í dag. Við vorum tvær vinnufélagar sem fylltum strumpastrætóinn af strákaormum og gerðum innrás á æskuheimili yfirmanns okkar. Bóndinn tók vel á móti okkur og sýndi hávaðagemlingunum góðan skilning.

Fyrir borgarbarn eins og mig er það ómetanlegt að komast í smá "sveitalykt".

Strákarnir voru jöfnum höndum spenntir og smeykir við dýrin. Það var mikill spenningur að hitta leikskólafélaga sína fyrir utan Geislabaug og því nokkuð fjör í lömbum okkar leikskólastarfsmannanna.

Við fræddumst um kindurnar. Hve gæf forustukindin væri og að Lukka ætti ekki von á góðu í haust eftir að hún stangaði barnabarn bóndans. Jafnframt að Obama væri sníkin en mun fríðari í eigin persónu en af þeim myndum sem dreifðar eru af henni á Facebook. Hún Líf var með eindæmum vinaleg og þefaði og hreinlega sleikti á mér fingurnar! Það var gaman að fylgjast með þremur svörtum lömbum (gef mér að það hafi verið sauðir) sem hoppuðu hreinlega af æskufjöri... það minnti  á þrjá aðra lífsglaða sauði. Svo hreinlega kolféll ég fyrir fjallmyndarlegum hrúti sem ber nafnið Bjartur ;o)

Takk Harpa, Ragnar Ingi og Ingmundur fyrir heimboðið.





















May 12, 2013

Mæðradagurinn: von, ótti og kærleikur



Innra með hverri móður býr von.

Von um að allir vegir séu færir barninu manns. Að möguleikar þess til að vaxa og dafna séu ótakmarkaðir. Von um að það fari leikandi létt í gegnum lífið og stökkvi létt á fæti yfir allar hindranir. Von um að það muni jafnframt kunna að meta forréttindi sín. Möguleikar barna eru mismunandi og vonir mæðranna í samræmi við það ólíkar. Sumar mæður þakka fyrir hvern dag sem barnið lifir, að það fái að mennta sig, að það verði ekki fyrir ofbeldi, að það fái nægan mat til að vaxa eðlilega. Aðrar mæður sem lifa við betri aðstæður leyfa sér meiri væntingar um framtíð barnsins. Vonin er þó þeim sameiginleg. Von um velgengni í þeim heimi sem það lifir í.

Innra með hverri móður býr ótti.

Ótti um að eitthvað slæmt hendi barnið manns. Það verði fyrir slysi, verði alvarlega veikt, að það þorskist ekki eðlilega, að einhver meiði það á líkama og/eða sál svo það bíði þess ekki bætur. Þrátt fyrir að ótti sé óþægileg tilfinning þá er hún mikilvæg því hún stuðlar að því að við verndum afkvæmi okkar.

Innra með hverri móður býr kærleikur.

Ást móður á barni er sterk tilfinning. Ég held að hún sé okkur eðlislæg. Jafnvel þó hún kvikni ekki alltaf við fyrstu sýn. Jafnvel þó konu langi stundum að skila óþekku barninu sínu í „búðina“ aftur. Jafnvel þó sumar mæður séu ekki fyllilega í stakk búnar til að annaðst barnið sitt. Þrátt fyrir einstaka frávik sýnir sagan að móðurástin er eitt sterkasta hreyfiaflið í veröldinni.

Tilfinningakokteill gerður úr kærleika, ótta og von getur verið yfirþyrmandi en flesta daga vikunnar er hann sætari en nokkur annar.

Til hamingju allar heimsins mömmur með daginn ykkar.

May 11, 2013

Auður, Auður og Auður


Mynd: thesearepeopleyouknow.tumblr.com


Á náttborðinu er alltaf stafli af bókum. Eina áramótaheitið sem ég setti mér var að skrifa niður allar bækurnar sem ég læsi á árinu 2013. Það er ekki keppni um að lesa sem flesta titla heldur bara að fá tilfinningu fyrir því hve margar bækur ég les "á meðalári". Ástæðan var fyrst og fremst sú að þessi hraðlestur gerir það að verkum að ég hreinlega gleymi bókum og sögupersónum.

Undir jólatrénu biðu mín tvær bækur; Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur og Undantekningin eftir Auði Övu. Þá fyrri tætti ég í mig á milli jóla og nýárs en Undantekning fékk að bíða aðeins og hún var lesin samhliða því sem ég hlustaði á bókina Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur.




Ósjálfrátt
Sjálfsævisöguleg skáldsaga Auðar er dásamleg. Hún er skrifuð af miklu hugrekki og kærleika fyrir sögupersónunum. Það er eitthvað mjög svo fallegt hvernig hún segir frá ömmu sinni, merkiskonunni Auði Sveinsdóttur, sem helst er kennd við mann sinn Halldór Laxnes. Það er forvitnilegt að vita hvar skáldskapurinn tekur við af veruleikanum í Ósjálfrátt. Textinn rennur vel og persónurnar eru mjög trúverðugar. Hlakka hreinlega til að lesa bókina aftur!



Undantekningin
Ljóðrænn texti. Framan af þótti mér aðalpersónan óáþreifanleg. Svolítið "dæmigerð íslensk sögupersóna" þar sem ritstíllinn skiptir meira máli en persónusköpunin. En þegar líður á söguna líkar mér betur við aðalpersónuna og ég hugsa til hennar eftir að hafa lesið bókina. Það er góðs viti. Eins og fagurbókmenntum er von og vísa er hún full af táknum og menningarlegum vísunum. Ég fíla það.


Auður
Fjallar um landnámskonuna Auði Djúpúðgu. Þetta er fyrsta bók af þremur um þessa merku konu. Textinn er með eindæmum fallegur. Vilborgu tekst að spinna sögu úr litlum heimildum um bakgrunn og tilurð þess að Auður nemur land við Breiðafjörðinn. Ég tók efnið inn í formi hljóðbókar sem Vilborg les sjálf. Hún hefur frábæra rödd til lestrar. Lesarinn skiptir svo miklu máli í hjóðbókum. Ég hlakka til að lesa/hlusta á framhaldið. Það hentar mér líka svo ferlega vel að "hinn merki bókmenntaarfur" okkar skuli vera nútímavæddur eins og hér er gert. Rétt eins Einar Kárason hefur gert með Sturlungu. Með þessari endurvinnslu kynnumst við, og lærum að meta fornsögurnar okkar.





Það er sannkallaður auður að eiga þessar góðu bækur og frábæru rithöfunda.

May 8, 2013

MM 09: Vantar þig standara?

 Mynd: www.thevillagegranny.com 

Krakkar elska að segja brandara. 
  • "einu sinni voru tveir tómatar..." 
  • "veistu afhverju Hafnfirðingar..." 
  • "einu sinn var maður sem hét Ekkert..."
Flest höfum við heyrt upprunalegu endinguna á þessum bröndurum en krakkar geta endalaust spunnið við þessar klassísku byrjanir. Sem móðir og leikskólastarfsmaður hef ég, satt best að segja, heyrt fleiri útgáfur en ég kæri mig um að heyra.  Oft pínt fram bros og kreist upp hlátur til að þóknast barninu.

Í dag sat ég með 5-6 ára börnum í strætó og hlustaði á brandarana þeirra. Það var sterk tilhneiging til að koma prumpi fyrir í langloku-útgáfunum að þessu sinni. Ég heyrði ekki alla brandarana en horfði á andlit þeirra uppljómuð af frásagnargleði. Þá rann upp fyrir mér hve mikilvægt það er fyrir krakka að æfa sig í að segja frá. Læra upphaf, ris og endi í frásögn.

Allamalla hvað þeim finnst gaman að segja brandara um tómatsósur og appelsínubáta... það er eiginlega ekki annað hægt en að hrífast með.

Svo næst þegar barn sem þú þekkir byrjar enn og aftur á langlokubrandara um brjóstarhaldara horfðu þá á andlit þess og njóttu gleðinnar sem þú sérð.

May 7, 2013

Hugleiðing



Þrátt fyrir að eiga hvorki epla-síma, epla-spjald né epla-tölvu þá hreyfir Steve Jobs (sem borðaði tímabundið einungis epli í öll mál) við mér.

Þetta er stutt myndband þar sem hann spyr "hvað ef þetta er síðasti dagur lífs þíns?" Tvær mínútur sem vekja mann til umhugsunar...