April 13, 2012

Útúrdúrar

..þessi atriði úr ferðasögunni eru bara of góð til að sleppa þeim ;o) 

Arabískur Atli með skakka turnin í París
Við vorum ekki alveg ein á ferðalagi. Vinnufélagi Bjarts var samferða okkur ásamt konu sinni (stórvinkonu minni) og tveimur sonum. Vinkonan er snillingur í að ferðast létt en í þetta skiptið ýtti eiginmaður hennar turni af töskum. Hann hefði gert hvern arabískann foringja stoltann af sér á þessu ferðalagi með tvær ljósleitar þokkadísir og 5 kraftmikla syni á flugvellinum. Það skildust leiðir með okkur í innritun á terminal 2 á CDG. Þau áttu hótelherbergi í París og gátu beðið af sér óvissuna þar. Á endanum ákvað hún að taka lest til Marseille. 4 tíma lestarferð er eins og að svífa um á mjúku skýi, samanborið við öll þau öryggishlið og töskubið og rútuferðir sem hefðu annars beðið hennar.

Do you speak english?
Þegar við settumst um borð í flugvélinni frá Orly til Marseille færðist yfir okkur ró. Fyrir utan að Trausti varð órólegur. Sagðist vera hræddur í flugvélinni. Hann missti ekkert stjórn á sér heldur tók málin í sínar hendur, dró fyrir gluggann og bað um að fá fartölvuna mína til að horfa á teiknimynd. Það fékk hann til að gleyma því að hann væri í 27 þúsund feta hæð. Ég var með eitt heyrnartól og þegar Logi vildi líka horfa á myndina ákvað ég að sleppa heyrnartólum og valda hávaðamengun í flugvélinni.

Í sætisröðinni fyrir framan okkur var ungt og fallegt franskt par með mánaðargamalt barn í fanginu. Þau skiptust á að horfast í augu við barnið og í augu hvors annars. Mikið sem þetta hefði getað verið falleg sjón... Eftir 15 mínútna áhorf á teiknimynd í tölvunni minni, án heyrnartóla, snéri nýbakaði franski faðirinn sér við og spurði hvort ég talaði ensku. "Yes" svaraði ég. Þá sagði hann að það væri óþarflega mikill hávaði frá fartölvunni minni og hvort ekki væri hægt að nota heyrnartól - "please" bætti hann við í skipunartón. Ég hvessti á hann augum og langaði að segja; hvaða helvítis fokking fífl ert þú, þarna sitjið þið tvennir foreldrar með sofandi ungabarn í fanginu og vogið ykkur að skipta sér af strákunum mínum, veistu hvað við erum búin að ganga í gegnum í dag, klukkan hvað við vöknuðum og hversu oft við höfum fækkað fötum í helvítis öryggishliðum á þremur flugvöllum í dag svo þú getur bara harkað af þér drulludelinn þinn á meðan miðjusonur minn gleymir flughræðslunni í smá stund.

Það sem ég sagði var þó ískalt "ókey"


Gráttu systir
Heimleiðin gekk eins og í sögu... sem er auðvitað rangt, því það voru viðburðarlausar tvær flugferðir með ríflegum biðtíma á milli og ekki mikið efni í dramatíska sögu. Þegar við færðum okkur á milli Terminal 2 á og Terminal 1 á CDG þá vorum við á svona flugstöðvar færibandi eftir löngum gangi. Á ganginum voru tvö færibönd samhliða sem ganga í sitthvora áttina. Þar mættum við grátandi konu á andstæðu færibandi og mig langaði til að hugga hana. Segja við hana að illu öflin ættu heima á þessum flugvelli. Eða bara; gráttu systir... ég skil þig svo vel!

No comments:

Post a Comment