Ég svolgraði í mig tveimur bókum um síðustu helgi. Las Hausaveiðarana eftir Jo Nesbö og Ómunatíð eftir Styrmi Gunnarsson. Stórgóðar báðar tvær þó ólíkar séu.
Hausaveiðarnir er spennusaga. Hrikalega skemmtileg og spennandi og vel skrifuð bók. Höfundurinn er norskur og hefur skrifað nokkrar bækur um lögreglumanninn Harry Hole. Þær eru allar stórgóðar og þessi er ekki síðri. Eins og góðum krimmum hæfir þá gat ég ekki lagt hana frá mér fyrr en hún kláraðist.
Mynd: Uppheimar
Bókin sem tók við af norskum krimma var bókin Ómunatíð: Saga um geðveiki. Sérdeilis vel skrifuð bók eftir fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Hún fjallar um geðveiki og byggir mikið á veikindi konu höfundar. Það er ekkert tilfinningaklám í bókinni þó höfundur gangi nærri sér og fjölskyldu sinni í frásögninni. Góð bók! Betri en ég bjóst við.
Mynd: Veröld
Fyrst ég er byrjuð þá vil ég nefna bókina sem ég kláraði fyrir páska. Frönsku svítuna. Sagan um bókina og höfundinn er hugsanlega meira heillandi en sagan í bókinni. Þó hafði ég stórgaman af henni. Hún fjallar um líf fólks í Frakklandi á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Höfundur kláraði ekki söguna þar sem hún dó í stríðinu. Þetta er samtíma frásögn úr stríðinu. Ljómandi fín bók.
Mynd: Forlagið
Ég er einmitt ekki búin að lesa Hausaveiðarann enn þá en ég sá myndina um daginn hún var alveg frábær... ég bíð spennt eftir að klára bókina sem ég er að lesa til að geta lesið bókina, enda eru bækurnar yfirleitt betri en myndirnar... spurning um að reyna lesa hana á norsku :D
ReplyDeleteEr búið að gera bíó eftir myndinni... það virkar áreiðanlega vel!
ReplyDeleteSniðugt að lesa Jo Nesbö til að æfa sig í norskunni mín kæra ;o)
Tengdamæður mínar halda tungumálakunnáttu sinni með lestri erlendra bóka. Dáist að þeim fyrir að nenna því.