April 1, 2012

Mars-uppgjör: 29/31

Mikið sem það væri gaman að skella inn einu aprílgabbi... sérílagi í ljósi færslu gærdagsins. Hef fengið mikla hvatningu til fólkfjölgunar. Á tímabili taldi nú líklegt að ég hefði ekkert fram að færa á þessa síðu 1. apríl og myndi því forðast að svo mikið sem líta á þessa síðu í dag. En konan er í ham og uppgjör er við hæfi ;o)

Færslurnar voru 29 á 31 degi. Tæknilegir örðugleikar ollu því að ekki var hægt að blogga í sumarbústað í byrjun mánaðarins. Smartsímarnir okkar virkuðu ekki sem skyldi þar sem stillingar höfðu dottið út við skipti á símafyrirtækjum...boring afsökun. Fyrir síðustu helgi tók ég þá ákvörðun að gera bara það sem mig langaði að gera. Stundum þarf maður að taka slíkar ákvarðanir þegar íþróttafélög barnanna gerast of frekir við að ákveða hvernig frítíma manns er ráðstafað. Þegar ég lá uppí rúmi á sunnudagskvöld hafði ég bara ekki frá neinu að segja og ákvað því að svindla á mars-markmiðinu.

Að skrifa daglega er góð æfing. Bæði æfing í skrifum og líka í að forgangsraða. Dagleg skrif létta á pressunni við að allt sem maður sendir frá sér sé alveg meiriháttar frábært. Það krefst líka aga að búa sér til tíma til að setja saman nokkur orð. Oft hef ég verið í kapphlaupi við klukkuna. Setið seint að kvöldi við eldhúsborðið eða uppí rúmi með tölvuna og ekki haft frá neinu að segja. Samt hefur það tekist í 29 skipti í mars.

Þessi mánuður er búin að vera afar gefandi. Meira gefandi en sykurleysið í febrúar! Að gera hvort tveggja í senn reyndist mér þó ofviða. Hefði það ekki verið dásamlegt, að halda báðum boltum á lofti samtímis? Bæði að sleppa sætindum og blogga daglega. Ég er afar þakklát fyrir öll góðu viðbrögðin. Þetta markmið hefði ekki verið svona skemmtilegt nema vegna þess að þið sýnduð þessu áhuga.

...en áfram með smjörið! Næst er það apríl. Ég hef ákveðið markmið mánaðarins. Reyndar eru markmiðin tvö. Annað ætla ég að eiga með sjálfri mér og hitt er verður gert opinbert á næstu dögum. Þar mun ég fara töluvert útfyrir eigin þægindaramma. Ég fæ alveg hnút í mallakútinn við að hugsa um það...

Apríl verður viðburðarríkur mánuður fyrir utan markmiðin. Á stefnuskránni er:
  • Ferðalag til útlanda
  • Páskafrí
  • Hjólatúrar með fjölskyldunni
  • Undirbúningur á endurfundum villinganna úr Hólabrekkuskóla
  • Blogga 3x í viku
  • Skreppitúr með mömmu 
  • ...og örugglega margt fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu.

1 comment:

  1. Takk fyrir skrifin Agnes, þú ert svo léttur leikandi penni:) Þetta markmið þitt hefur orðið að áskorun á sjálfa mig um að blogga daglega í apríl, mér finnst nefnilega svo óhemjugaman að lesa gömul skrif og rifja upp ýmislegt gegnum tíðina. Haltu áfram!

    ReplyDelete