April 4, 2012

Mömmublús - II. hluti

Málsháttur dagsins: Fljótt skipast veður í lofti.

Hóhóhó... haldiði ekki að allt sé fallið í ljúfa löð á milli okkar mæðgina. Frumburðurinn skríður uppí rúm á morgnanna þessa dagana til þess eins að kyssa mig á kinn og fara með ástarjátningar. Samt ekki fyrr en hann hefur fullvissað sig um að ég sé skikkanleg til fara undir sænginni ;o)

Stóri strákurinn kíkti uppí leikskóla í morgun til að borða með okkur. Enda er hann í páskafríi og það er ágætt að lokka hann til mín í vinnuna í smá stund, þó ekki sé nema til að brjóta upp tölvu-maníuna sem á sér stað þegar drengurinn fær að vera óáreittur einn heima hjá sér. Hann er býsna stór kall á gamla leikskólanum sínum. Gengur í öll verk sem kennari væri, tja, mínus klósettstörfin. Spilar við krakkana og er ósköp ljúfur í alla staði.

Eftir að "við kennararnir" stimpluðum okkur út. Kíktum við í Kringluna (án mikilla mótmæla) og þar sýndi Bergur ótrúlega þolinmæði. Var afar lukkulegur með nýja skó sem honum "bráðvantaði" og kvartaði rosalega lítið yfir því að þurfa svo að sækja réttu stærðina í annarri búð á leiðinni heim.

Þegar við komum heim sagði ég honum svo brandara sem hann hló svo innilega af.
Þá varð ég glöð inní innsta kjarna. Því hvað í lífinu getur mamma beðið um meira af 9 ára syni hennar en að honum finnist hún stundum ogguponsulítið fyndin? Og það eftir langdregin snúning í verslunarmiðstöð!

Gvöðblessi mömmustráka!

No comments:

Post a Comment