Mynd: www.forkparty.com
Í haust kviknaði hjá mér ljós. Hugmynd að bók, hvorki meira né minna. Ég fór vel með þessa hugmynd og sagði engum frá. Ætlaði að njóta hennar ein með sjálfri mér. Ákveðin í að gera eitthvað í málinu.
Haustið er sá tími ársins sem hlutirnir gerast. Ég byrjaði í föstu starfi... sko alveg 5 klst. á dag, 5 daga vikunnar. Hnussið yfir því að vild en þetta voru viðbrigði fyrir frúnna. Auk þess var maðurinn mikið í fjarverandi og við mér blasti nýtt og stórkostlegt "sótt og skutl" prógramm þar sem frumburðurinn æfir 5x í viku. Miðlungurinn hóf talþjálfun og iðjuþjálfun 2-3x í viku. Auk þess sem ég sótti sjúkraþjálfara 2x í viku og lét mig dreyma um að nota WorldClass kortið sem ég borgaði mánaðarlega af. Þetta kallaði á endurbætur á daglegri rútínu fjölskyldunnar og slíkt tekur bæði tíma og orku.
Frítíminn sem ég sá í hillingum vegna hlutastarfsins og átti að nýtast í að hlúa að áhugaverðum verkefnum s.s. að vinna að ofangreindri hugmynd fuðraði upp. Ég varð svo pirruð útí að hafa ekki orku í að sinna þessu öllu saman að ég gerði það eina skynsamlega í stöðunni - keypti garn og byrjaði að prjóna peysu á Loga!
Ef það væri tími til að nýta "dauðar stundir" eins og á kvöldin eða á biðstofum tal-, iðju- og sjúkraþjálfara þá hlyti að vera tími til að henda nokkrum orðum á blað. Með þeim hætti væri hægt að höndla hugmyndina um bókina með viðráðanlegum hætti.
Frestunaráráttan er uppáþrengjandi fyrirbæri og fylgir mér flesta daga. Það er svo ótrúlega mikið auðveldara að gera flesta hluti seinna en strax. Markmið á ári drekans er viðleitni mín til að taka til á "to-do" listanum mínum. Lífið er núna!
Markmið aprílmánaðar er að byrja á þessu verkefni. Ég keypti í peysu handa Bergi um mánaðarmótin. Til þess eins að fresta því að prjóna hana þar til að efsta verkefnið á "to-do" listanum mínum er komið af stað - auðvitað fullkomlega röklegt samband eins og þið sjáið!
No comments:
Post a Comment