April 22, 2012

Heitt í köldu


Íslenska náttúran er margrómuð og áreiðanlega sú besta í heimi... líkt og við eigum sterkustu karlanna og fögurstu konurnar ;o)

Við fórum yfir Mýrdalsjökul, fórum varlega framhjá Kötlu gömlu svo við myndum ekki vekja þá kröftugu  fjalladrottningu. Komum okkur fyrir í fjallaskála í Hvanngili. "Vá, fínt hótel" sagði yngsti fjallagarpurinn. Kveiktum uppí gasofninum og lögðumst í kojurnar. Sváfum vært... sem er fréttnæmt. Hrotubelgir og fyllibyttur halda stundum fyrir manni vöku í sæluhúsum.

Morguninn eftir drógum við fram sleða og skíði, bundum í jeppana og létum þá draga okkur yfir rennisléttann Mýrdalssandinn. Komumst á snjó inní Strútslaug þar sem við fækkuðum fötum og dýfðum okkur í heita laug. Aldrei munu töfrandi áhrif þess að stinga sér í heita laug á hálendinu, um miðjan vetur missa áhrifamátt sinn. Aldrei!

Um kvöldið grilluðum við lambakjet og drógum tappa úr rauðvínsflösku. Spiluðum Olsen Olsen, púsluðum og tókum okkur kvöldgöngu uppá Brattaháls í Hvanngili. Sváfum vært... aftur!!!

Loks var tími til komin að halda heim til byggða. Keyrt var um Álftakrók við Álftavatn, Pokahryggi og slegið upp pylsupartýi við Dalakofa. Komin heim síðdegis, tekið uppúr töskum, yngsta barnið sótt úr pössun, skrímslið í þvottahúsinu fyllt af skítum fjallafötum og vatnssalernið dásamað!



















1 comment:

  1. Hljómar sem algjörlega fullkomin helgi. Dásamlegar myndir Agnes.

    ReplyDelete