April 15, 2012

Lítill sigur en sætur

Mynd: www.youthcancertrust.org

Sigrum ber að fagna. Sérstaklega þessum litlu. Hreinlega vegna þess að þeir gera lífið skemmtilegra. Ég er montin með mig í dag. Sigurinn er lítill en sætur. Ég fór út að hlaupa í fyrsta sinn í 7 mánuði! Kannski er ekki rétt að kalla þetta hlaup, meira svona göngutúr með stöku skokki.

Síðast hljóp ég Reykjarvíkurmaraþoninu (sjá hér). Í þessu hlaupi klikkaði hausinn minn en ég hef líka verið í vandræðum með slæma beinhimnubólgu. Þrálátt fyrirbæri sem hefur fylgt mér í mörg ár og truflað mig í leik og starfi á tímum þegar ég hef verið hvað duglegust að hoppa og skoppa. Því fór ég til sjúkraþjálfara sem hjálpaði mér mikið. Hann setti mig í 2ja mánaða hlaupabann. Þegar því tímabili var að ljúka hrundi ég niður stiga og sleit liðband í ökla. Svo það hægði enn frekar á "afrekum" í hlaupum.

Hlaup eru svosem ekkert stórmál fyrir mér. Mér finnast þau oft erfið svo hlaupabann olli engum sálarkvölum. Hinsvegar fylgir þeim ótrúlega góð frelsistilfinning og einhverskonar hugleiðsla. Það er eitthvað við vorið og sumarið sem veldur hlaupafiðringi hjá mér.

Þessa helgina hef ég verið óttaleg lufsa. Óstjórnlega þreytt og löt. Þó tókst mér að herða mig uppí að reima á mig skónna og halda af stað útum útidyrnar og ganga af stað. Plataði mig af stað í fyrstu, sagði við sjálfa mig að þetta væri bara göngutúr. Þegar ég var búin að ganga ca. 2 km jók ég hraðann og byrjaði að hlaupa. Það var meðvituð ákvörðun að bera engin GPS mælitæki á sér til að meta þessa gleði. Ég fór hægt yfir - það var líka meðvituð ákvörðun. Leiðinlega skynsöm auðvitað, því óþægindin við beinhimnubólguna og laus liðbönd í ökla eru óþörf. Vonandi allavega.

Líklega hljóp ég rúma 2 km á hraða snigilsins en er algjörlega alsæl með árangurinn. Hlakka til að reima á mig skónna aftur fljótlega.

No comments:

Post a Comment