April 25, 2012

Markmið... og mistök!

Þegar markmið eru sett má eiga von á að þeim sé ekki náð. Það getur verið drullufúlt. Meira að segja verra en fúlt. Ég get verið reglulega andstyggileg við sjálfa mig þegar mér mistekst eitthvað. "Vondi heilinn" byrjar að rakka mig niður fyrir það hverskonar örlaga aumingi ég sé. Ég yrði snælduvitlaus ef einhver myndi tala með sama hætti við einhvern sem mér þætti vænt um. Myndi kalla það ofbeldi! Sálartetrið er skringilegt fyrirbæri.

Þegar markmið eru sett upplifir maður ákveðið varnarleysi. Í hvert sinn sem við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum þurfum við að takast á við þá staðreynd að manni gæti mistekist. Að ætla sér að klífa Hvannadalshnjúk, eignast kærasta, hlaupa 10 km í Reykjarvíkurhlaupinu, lifa á fæði steinaldarmanna eða hvað annað sem er nýtt, krefjandi og/eða framandi  krefst hugrekkis.

Það er mögulegt til að mistakast aldrei í lífinu; með því að taka aldrei áhættu, setja sér ekki markmið, forðast nýjungar og neita að aðlagast breytingum.  Sá möguleiki ver okkur gegn sársaukanum og drullunni sem fyrrnefndur "vondi heili" hellir yfir okkur. Ef maður velur þá leið í lífinu upplifum við heldur aldrei sæluvímuna við sigurinn yfir sjálfum sér. Slíkur einstaklingur nær aldrei að þroskast og vaxa sem manneskja.

Er þá ekki betra að vera margfaldur feiljör heldur en lúser sem aldrei þorir? Einn af fjölmörgum lyklum að  lífshamingjunni er að þora að gera mistök og læra af þeim.

Það held ég allavega!

Reyndar vill dr. Brené Brown eða "Vulnerability-TED" eins og hún kallar sig meina það i stórskemmtilegum fyrirlestrum sem hún hefur haldið á ted.com. Mér finnst hún frábær fyrirlesari og því verð ég að breiða út fagnaðarboðskapinn.

  1. The Power of Vulnerability
  2. Listening to Shame

Einn daginn mun ég ná þeim þroska að fagna mistökum mínum.
Það er markmið...sem gæti mistekist!


No comments:

Post a Comment