March 28, 2012

Góða nótt

Ef það er eitthvað í þessu heimi sem ég trúi á þá er það máttur svefnsins. Þess vegna þykir mér vænt um háttatímann. Reyndar dregst hann oft á langinn hjá okkur. Svo mikið er nostrað við að koma bræðrunum í svefninn.


Fyrir þeim er nauðsynlegt að enda daginn á sama stað og hann hófst. Í móðurskipinu... mömmurúmi... þar sem allir góðu draumarnir halda sig í niðdimmri nóttunni. Stundum lesum við fyrir háttinn og stundum horfum við á nokkra Tomma&Jenna þætti á youtube. Þeir eru óþreytandi á að biðja um "einn í viðbót". Því næst færum við okkur inní þeirra eigin herbergi. Því er alltaf mótmælt! Samt sætta þeir sig við það á endanum.


Stóri strákurinn fær upplestur á Harry Potter. Það er nú meira hvað sá bókaflokkur er langur. Við vorum í hálft ár með síðustu bókina sem við lásum. Þegar við verðum búin að komast í gegnum allar 7 bækurnar verður komin tími til að byrja lesturinn að nýju fyrir yngri bræðurna...


Faðir vor og Sitji guðs englar fá svo að vernda drengina yfir nóttina... alveg þar til hlýjir mjúkir kroppar vakna að nýju og skríða undir sæng hjá mömmu eða pabba.

Góða nótt

2 comments:

  1. Bókalestur og Sitji Guðs englar eru gott veganesti út í lífið! Notaleg bloggfærsla.

    ReplyDelete
  2. Takk Dísa... svefnpurkur kunna að meta svefnserímóníur ;o)

    ReplyDelete