March 5, 2012

Bókaormur

Vegna þess að fátt er betra en að liggja uppí sófa og lesa góða bók, já eða að skúra gólf með vel lesna sögu í eyrunum þá verð ég að fá smá bókmenntalega útrás á þessari síðu.


Í gær lauk ég við hlustun á nýjustu bók Hallgríms Helgasonar: "Konan við 1000° - Herborg María Björnsson segir frá". Stórskemmtileg og mögnuð frásögn. Aðalpersónan á sér fyrirmynd þó þetta sé skáldsaga. Hallgrímur les sjálfur og það er brilljant að hlusta á hann. Stíllinn hans er afar sérstakur. Bæði lesstíll og svo auðvitað skrifstíllinn. Hvílik tök sem hann hefur á íslenskri tungu.

Ég bæði hló, hryllti mig og táraðist við hlustunina. Þannig eru góðar sögur. Aðalpersónan er meingölluð manneskja og það er jákvætt. Mér leiðast persónur sem eru algóðar eða alslæmar. Þegar líður á söguna öðlast maður skilning. Þess auki gerist hún vítt og breytt um heiminn og á löngum tíma. Ef sögupersóna er send til S-Ameríku þá er ég fallinn fyrir henni... það er virkar alltaf á mig. Svo segir hún átakanlega ástarsögu foreldra aðalpersónunnar og hvað er betra en dramatísk ástarörlög (þe. á blaðsíðum bóka ekkí á heimilinu). Saga Herbjargar er saga þjóðarinnar, saga seinni heimstyrjaldarinnar og sjónarhorn hennar á sögu Íslands og Evrópu á tímum seinni heimstyrjaldarinnar felur í sér bullandi ádeilu. Hressandi. Mæli með henni og öfunda þá sem eiga eftir að lesa bókina.

Hallgrímur talar og skrifar í belg og biðu. Það hefur hingað til truflað mig. Það á við um hans bækur eins og svo margar aðrar að þær eru of langar. Ekki vegna þess að mér þyki erfitt að lesa margar blaðsíður heldur vegna þess að fá orð geta oft teiknað upp sterkustu persónurnar og atburðina. Verðbólga í orðum trufla mig. Konan við1000° er löng og einkennist af miklum orðaskrúð en mikið sem mér þótti það allt skemmtilegt.

No comments:

Post a Comment