March 14, 2012

Fýlupóstur

Vegna þess að ég er illa sofinn, þreytt og þrútinn er við hæfi að pirrast aðeins. Mér er búið að vera kalt í dag og get ekki beðið eftir að leggjast í rúmið og svífa inní draumalandið. Vissulega er skemmtilegra að vera jákvæð og auðmjúk alla fjandans daga en þetta er ekki slíkur dagur

Gjörið svo vel og njótið pirringsins:
  • Danski þátturinn Borgen sem sýndur er á sunnudagskvöldum er ágætur. Hins vegar finnst mér óþolandi bjánalegt að forsetisráðherrann skuli ekki hafa annað hvort au-pair eða heimavinnandi karl. Það er bara engan veginn sannfærandi að hún þurfi að færa til fundi til að geta sótt börnin í skólann. Hugmyndin er auðvitað sú að sýna konu í krefjandi starfi sem þarf að miðla málum á milli framans og heimilisins. Gott og vel. Hins vegar finnst mér nálgunin í þáttunum myndi ganga betur upp ef hún væri ekki valdamesta kona Danmerkur (á eftir Margréti Þórhildi?)!
  • Sama flík í sömu stærð (S-M-L) sem eru misstórar. Þegar ég finn flík sem ég fíla á ég það til að kaupa nokkur eintök. Fyrir skömmu féll ég fyrir hlýrabolum í Selected. Ekkert merkileg flík þannig lagað, en ég geng flesta daga í hlýrabolum innanundir. Svo nú á ég samskonar bol í sömu stærð í 4 litum. Nema hvað að hver litur hefur sína stærð. Það sama gerðist svo þegar maðurinn minn keypti eftir leiðbeiningum 2 einfalda bómullarboli úr H&M samskonar og ég á nú þegar. Hver litur eru af sinni stærð... hvar í helv. er gæðaeftirlitið???? ÓÞOLANDI!
  • Hvers vegna í ósköpunum er það sem ég ætla að kaupa í IKEA "ekki til en væntanlegt"? 
  • Eru þið að djóka með ástandið á klósettinu heima hjá mér... ég bý með fjórum spottum... say no more!
  • Ég bauð umfram "Karólínum" ekki með uppí sumarbústað um helgina. Finnst þessar hitaeiningar helst til uppáþrengjandi.
Jebb, það eru stóru málin sem angra frúnna. Ekki fáránlegt bensínverð, skrípaleikur í Landsdómi, hugsanlega yfirvofandi annað bankahrun, aukin framlengd gjaldeyrishöft, Facebook statusar hjá þingmönnum alþingis, skortur á forsetaframbjóðendum né dularfull verðhækkun í Bónus daginn áður en helgartiboðin birtast í Fréttablaðinu.

Neibb... engin réttlát reiði hér á bæ bara raunveruleg vandamál ;o)

Pollýönnukveðja

4 comments:

  1. gott að koma þessu frá sér....sumar dagar...

    ReplyDelete
  2. Þér hlýtur að líða betur eftir þesi skrif ;) En ég held svei mér þá að ég geti tekið undir allt saman... Ég lendi t.d. alltaf í Ikea dæminu, þá meina ég ALLTAF, þegar ég læt loksins verða af því að kaupa mér það sem mig er búið að langa í lengi... óþolandi.

    ReplyDelete
  3. Gaman að lesa. Vá hvað maður þyrfti að koma frá sér svona póstum suma daga. Pústaðu bara á okkur. Það er fínt

    ReplyDelete
  4. Æj hvað ég þarf að skrifa svona fýlupóst, alveg búið að vera þannig dagur hjá mér:) Þarf að komast að því hvernig maður stillir þetta blessaða kommentakerfi á blogspot, ég er alltaf með eitthvað annað hjá mér sem ég veit ekki alltaf hvort virki!

    ReplyDelete