July 4, 2011

Næstum níu ára

Sumarið er tíminn... Stóri strákurinn sprengir alla hamingjuskala þessa dagana. Frelsi sumarfrísins á vel við hann.

Eitt kvöldið fékk hann að vera óvenju lengi úti. Aðallega vegna þess að ég gleymdi mér... og honum. Þegar hann kom heim sá ég að eitthvað mikið hafði gerst í lífi hans. Ég hafði legið eins og kartafla í sófanum og horft á fjöldaframleidda sjónvarpsþætti en hann hafði tekið út þroska. Það hafði í sjálfu sér ekkert stórfenglegt gerst hjá honum en það er einhvernveginn þannig þegar maður er næstum níu ára að eðli tímans er með öðrum hætti en hjá fullorðna fólkinu.

Bergur leikur að mestu leiti lausum hala í sumarfríinu. Nýtur góðs af því að hafa mömmu sem er mikið heima við. Mömmu sem vill þó endilega senda hann á skemmtileg námskeið. Það er kjörið að nota sumarnámskeiðin til að kynnast nýjum íþróttum og upplifa nýja hluti. En stóri strákurinn segist ekki tíma að eyða sumarfríi sínu í svoleiðis lagað... Hann fór þó á golfnámskeið í eina viku og fannst það æði. Tveir til þrír vinir hjóluðu saman á morgnanna útá golfvöll til að slá kúlur. Leiðin er ekki löng í metrum talið en ótrúlega mikið ævintýri hjá þessum næstum níu ára strákum.

Í síðustu viku gerðist svo dálítið stórfenglegt í lífi þessa næstum níu ára drengs. Hann eignaðist farsíma!!! Þetta er síminn sem ég hef verið með í tæp 2 ár og bölvað næstum daglega því mér hefur þótt hann svo leiðinlegur í notkun. Þegar maður er næstum níu ára jaðrar það við mannréttindarbrot að eiga ekki gsm síma. Þrátt fyrir að vera ekki mikill rellari hefur Bergur beðið oft og mikið um síma síðustu mánuði. Enda "ALLIR komnir með síma. Mamma!"

Honum varð semsagt að ósk sinni fyrir síðustu helgi og ómægod hvað þetta skrapatól gladdi hann mikið.

Tveim dögum eftir að hann eignaðist sumsé símann sinn, lagði hann af stað norður til ömmu sinnar. Ég fékk sms á leiðinni, afi hans fékk símtal þegar leiðin var hálfnuð með þær stórfréttir að hann væri í búð! Svo hringdi hann í pabba sinn þegar hann var búin að fá sér sopa úr lindinni sem kölluð er Kisi.

Veltengdur og kátur. Næstum níu ára strákar kunna líka að meta frelsið í sveitinni...

No comments:

Post a Comment