Skytturnar þrjár voru í litríkum fötum. Ekki bara vegna þess að litir eru svo miklir vinir stílistans heldur af öryggisástæðum. Það er nefnilega erfiðara að týna litlum landkönnuðum sem klæddir eru í alla regnbogans liti.

Tvíburakerran sem var fengin að láni kom að góðum notum. Vel fór um litlu strákana í B.O.B. kerrunni sem var appelsínugul að auki (til að auka enn á litagleðina). Óþarfi er að útlista í löngu máli þá athygli sem við fengum á flugvöllum. Fólk brosti til okkar og kinkaði kolli í virðingarskyni en óskaði þess á sama tíma að við myndum ekki ferðast með sömu flugvél og það sjálft.
Að fara í gegnum öryggishlið á flugvöllum er leiðinlegt á góðum degi. Að fara ein með 3 ung börn, handfarangur og þessa líka fínu kerru í gegnum nálarauga öryggisvarðanna er hressandi upplifun.
Ekki nóg með að þurfa að setja handfarangur uppá færiband og í gegnum röntgentæki, heldur þarf að klæða 6 auka fætur úr strigaskóm, klæða sig úr yfirhöfnum og taka uppúr töskum myndavél og tölvutæki. Fara í gegnum hliðið og svo leita ókunnugir og einkennisklæddir útlendingar á börnunum.
En hey, ef fólk upplifir sig öruggara á ferðalagi sínu eftir þessa skoðun þá er líklega búið að réttlæta óþægindin.
Á leiðarenda tók við svo einfalt lífi við Miðjarðarhafið. Andrúmsloftið ilmaði að lavander, rósmarín og sólarvörn. Við sáum brot af Provence og Riveríunni og komumst að því að Frakkar geta verið kurteisir og elskulegir. Að viku liðinni tók við sama prógramm; tvö flug, öryggisleit, litríkar skyttur og Mútta sem ýtti strákunum sínum um í appelsínugulum "sófa".
No comments:
Post a Comment