July 19, 2011

Hoppandi skoppandi gleðigjafi

Ein mestu mistök ævi minnar var að óska sérstaklega eftir því að fá EKKI KitchenAid hrærivél í brúðargjöf (dramatísk að vanda, en ég meina það samt). Krúsjal mistök fyrirmyndarhúsmóður sem elskar að baka kökur og að halda veislur. Svona gerist þegar kona reynir að berjast gegn sínu rétta eðli ;o) Svo kom góðæri og ekki keypti ég mér fína hrærivél þó ég væri farin að gera mér grein fyrir því á þeim tíma að svona vél þyrfti ég að eiga. Eftir góðærið skall á kreppa og enn mikilvægara að eiga góða hrærivél fyrir öll heimabökuðu brauðin sem manni hefur verið talið trú um að breyti fjárhag hagsýnna húsmæðra. En kreppan gerði það jafnframt að verkum að gæðavél hækkaði mjög í verði og heimavinnandi húsmæður fá ekki launaseðil til að eyða í óþarfa.

Fyrr á árinu seldi ég nokkra gæðahluti á barnalandi og ákvað að aurinn sem ég fékk endaði ekki hjá Bónus né bensínstöðvunum. Þess heldur ætlaði ég mér að safna mér fyrir KitchenAid vél. Svona fyrirhyggjusemi er sjaldséð hjá undirritaðri en ég stóð við mitt. Stóð við mitt þar til... ég fékk flugu í höfuðið. Þar sem ég stóð í Rúmfatalagernum og horfði á Trausta í hamingjukasti hoppandi og skoppandi á trampólíni flaug mér í hug að nýta þennan sjóð í hoppandi skoppandi gleðigjafa. 

Það varð úr! Í dag fórum við mæðginin og skoðuðum helstu trampólín stórhöfuðborgarsvæðisins og bárum saman verð, gæði og öryggisstaðla. Á endanum keyptum við hæfilega stórt og öruggt trampólín. Settum það í strumpastrætóinn okkar og keyrðum með það heim. Nú bíður það í 5 kössum á pallinum okkar eftir því að handlagni heimilisfaðirinn setji það saman. Jibbýkóla.... ég hlakka svo til... já, og strákunum mínum líka ;o)

1 comment:

  1. Takk Agnes fyrir innlitið og hrósið, alltaf velkomin.

    Vona að þú eignist KitchenAid einn daginn ;-)

    ReplyDelete