May 26, 2013

Sveitasæla og sauðburður

  

Breiðholtsstelpan fékk boð um að heimsækja nýfæddu lömbin í Borgarnesi í dag. Við vorum tvær vinnufélagar sem fylltum strumpastrætóinn af strákaormum og gerðum innrás á æskuheimili yfirmanns okkar. Bóndinn tók vel á móti okkur og sýndi hávaðagemlingunum góðan skilning.

Fyrir borgarbarn eins og mig er það ómetanlegt að komast í smá "sveitalykt".

Strákarnir voru jöfnum höndum spenntir og smeykir við dýrin. Það var mikill spenningur að hitta leikskólafélaga sína fyrir utan Geislabaug og því nokkuð fjör í lömbum okkar leikskólastarfsmannanna.

Við fræddumst um kindurnar. Hve gæf forustukindin væri og að Lukka ætti ekki von á góðu í haust eftir að hún stangaði barnabarn bóndans. Jafnframt að Obama væri sníkin en mun fríðari í eigin persónu en af þeim myndum sem dreifðar eru af henni á Facebook. Hún Líf var með eindæmum vinaleg og þefaði og hreinlega sleikti á mér fingurnar! Það var gaman að fylgjast með þremur svörtum lömbum (gef mér að það hafi verið sauðir) sem hoppuðu hreinlega af æskufjöri... það minnti  á þrjá aðra lífsglaða sauði. Svo hreinlega kolféll ég fyrir fjallmyndarlegum hrúti sem ber nafnið Bjartur ;o)

Takk Harpa, Ragnar Ingi og Ingmundur fyrir heimboðið.





















No comments:

Post a Comment