May 11, 2013

Auður, Auður og Auður


Mynd: thesearepeopleyouknow.tumblr.com


Á náttborðinu er alltaf stafli af bókum. Eina áramótaheitið sem ég setti mér var að skrifa niður allar bækurnar sem ég læsi á árinu 2013. Það er ekki keppni um að lesa sem flesta titla heldur bara að fá tilfinningu fyrir því hve margar bækur ég les "á meðalári". Ástæðan var fyrst og fremst sú að þessi hraðlestur gerir það að verkum að ég hreinlega gleymi bókum og sögupersónum.

Undir jólatrénu biðu mín tvær bækur; Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur og Undantekningin eftir Auði Övu. Þá fyrri tætti ég í mig á milli jóla og nýárs en Undantekning fékk að bíða aðeins og hún var lesin samhliða því sem ég hlustaði á bókina Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur.




Ósjálfrátt
Sjálfsævisöguleg skáldsaga Auðar er dásamleg. Hún er skrifuð af miklu hugrekki og kærleika fyrir sögupersónunum. Það er eitthvað mjög svo fallegt hvernig hún segir frá ömmu sinni, merkiskonunni Auði Sveinsdóttur, sem helst er kennd við mann sinn Halldór Laxnes. Það er forvitnilegt að vita hvar skáldskapurinn tekur við af veruleikanum í Ósjálfrátt. Textinn rennur vel og persónurnar eru mjög trúverðugar. Hlakka hreinlega til að lesa bókina aftur!



Undantekningin
Ljóðrænn texti. Framan af þótti mér aðalpersónan óáþreifanleg. Svolítið "dæmigerð íslensk sögupersóna" þar sem ritstíllinn skiptir meira máli en persónusköpunin. En þegar líður á söguna líkar mér betur við aðalpersónuna og ég hugsa til hennar eftir að hafa lesið bókina. Það er góðs viti. Eins og fagurbókmenntum er von og vísa er hún full af táknum og menningarlegum vísunum. Ég fíla það.


Auður
Fjallar um landnámskonuna Auði Djúpúðgu. Þetta er fyrsta bók af þremur um þessa merku konu. Textinn er með eindæmum fallegur. Vilborgu tekst að spinna sögu úr litlum heimildum um bakgrunn og tilurð þess að Auður nemur land við Breiðafjörðinn. Ég tók efnið inn í formi hljóðbókar sem Vilborg les sjálf. Hún hefur frábæra rödd til lestrar. Lesarinn skiptir svo miklu máli í hjóðbókum. Ég hlakka til að lesa/hlusta á framhaldið. Það hentar mér líka svo ferlega vel að "hinn merki bókmenntaarfur" okkar skuli vera nútímavæddur eins og hér er gert. Rétt eins Einar Kárason hefur gert með Sturlungu. Með þessari endurvinnslu kynnumst við, og lærum að meta fornsögurnar okkar.





Það er sannkallaður auður að eiga þessar góðu bækur og frábæru rithöfunda.

No comments:

Post a Comment