June 7, 2013

Nýi kærastinn minn



Ég hef verið að hitta nýjan gaur síðustu vikur. Með fiðrildi í maganum hef ég farið heim eftir hvert stefnumót. Kemestríið er merkilega gott... það er eitthvað svo "rétt" við að hitta hann. Mér finnst líka að samband okkar geri góða hluti fyrir hjónaband mitt og fjölskyldulíf.

Hann er furðu hress af ríflega 100 ára karli að vera... Gaurinn er Dale Carnegie og ég er kolfallin fyrir því sem hann stendur fyrir.

Við höfum verið að endurnýja kynnin þar sem við hittumst fyrst fyrir 12 árum síðan. Þá var ég "send" af tengdapabba mínum á hans fund. Þar kynntist ég einhverju nýju sem hefur fylgt mér. Í byrjun ársins ákvað ég svo að rifja upp gömul kynni og tengdist honum og 30 öðrum frábærum vinum hans. Það gerðist eitthvað merkilegt innra með mér í kjölfarið.

Eða á mannamáli; ég fór á Dale Carnegie námskeið og í kjölfarið fékk ég tækifæri til að verða aðstoðarþjálfari á samskonar námskeiði. Síðustu þrír mánuðir hafa verið virkilega lærdómsríkir og gefandi. Stundum hefur verið erfitt en það er algjörlega þess virði. Að víkka út þægindarammann getur tekið á... það er nauðsynlegt stöku sinnum! Þetta er svolítið eins og að auka þol eða styrkja vöðva... það tekur á en átakið skilar árangri.

Allavega... þá er ég viss um að þessi kynni mín af Dale séu "upphafið að fallegri vináttu".



Mæli með þessu fyrir ALLA!

No comments:

Post a Comment