May 12, 2013

Mæðradagurinn: von, ótti og kærleikur



Innra með hverri móður býr von.

Von um að allir vegir séu færir barninu manns. Að möguleikar þess til að vaxa og dafna séu ótakmarkaðir. Von um að það fari leikandi létt í gegnum lífið og stökkvi létt á fæti yfir allar hindranir. Von um að það muni jafnframt kunna að meta forréttindi sín. Möguleikar barna eru mismunandi og vonir mæðranna í samræmi við það ólíkar. Sumar mæður þakka fyrir hvern dag sem barnið lifir, að það fái að mennta sig, að það verði ekki fyrir ofbeldi, að það fái nægan mat til að vaxa eðlilega. Aðrar mæður sem lifa við betri aðstæður leyfa sér meiri væntingar um framtíð barnsins. Vonin er þó þeim sameiginleg. Von um velgengni í þeim heimi sem það lifir í.

Innra með hverri móður býr ótti.

Ótti um að eitthvað slæmt hendi barnið manns. Það verði fyrir slysi, verði alvarlega veikt, að það þorskist ekki eðlilega, að einhver meiði það á líkama og/eða sál svo það bíði þess ekki bætur. Þrátt fyrir að ótti sé óþægileg tilfinning þá er hún mikilvæg því hún stuðlar að því að við verndum afkvæmi okkar.

Innra með hverri móður býr kærleikur.

Ást móður á barni er sterk tilfinning. Ég held að hún sé okkur eðlislæg. Jafnvel þó hún kvikni ekki alltaf við fyrstu sýn. Jafnvel þó konu langi stundum að skila óþekku barninu sínu í „búðina“ aftur. Jafnvel þó sumar mæður séu ekki fyllilega í stakk búnar til að annaðst barnið sitt. Þrátt fyrir einstaka frávik sýnir sagan að móðurástin er eitt sterkasta hreyfiaflið í veröldinni.

Tilfinningakokteill gerður úr kærleika, ótta og von getur verið yfirþyrmandi en flesta daga vikunnar er hann sætari en nokkur annar.

Til hamingju allar heimsins mömmur með daginn ykkar.

No comments:

Post a Comment