August 4, 2013

Ferðasögur Hringsins: VI. hluti



Að vakna upp við þoku í Vesturdal kveikti í löngun til að koma okkur fyrir í Sæluhúsinu í Aðaldalnum. Þrátt fyrir að þokunni létti og hitinn steig uppfyrir 20° hita þá tókum við upp tjaldið og héldum af stað í vesturátt.

Í sælureitnum er grunnt vatn sem kallað er Kisi, þar sem það er talið vera kattarlagað. Þessi lind er botnlaus uppspretta gleði og leikja hjá ungum sem öldnum. Við höfðum frá Spáni flutt heim uppblásinn bát sem bræðurnir notuðu til leiðangra út á Kisann.

Umhverfið er sem blautur draumur fyrir áhugafólk um fugla. Jaðrakan gelti á þúfu fyrir framan stofugluggann. Kríurnar leituðu að æti í Kisanum. Rjúpa með ellefu unga fór um allt í móanum (enda er þetta hennar heimili). Lóur kíktu í heimsókn ásamt Hrossagauk og Spóa. Lómurinn veinaði í nokkurri fjarlægð.
...það er ómögulegt að hrífast ekki af lífríkinu í Sælureitnum.

Nokkrir góðir gestir stungu inn nefum. Systkini fóru í hjólatúr / svaðilför um Þingeyjarsveit. Mér tókst sömuleiðis að hjóla í nágrenni Sælureitsins ásamt því að við hjónin hjóluðum Laxárdalinn. Annars var þetta með hefðbundnu sniði; Húsfreyjan bakaði vöfflur, Húsbóndinn bisaði við að koma upp loftneti á húsið og krakkar léku útum móa og mela.

















No comments:

Post a Comment