February 13, 2013

MM 04: Skapandi búningar

Valkvíði á viðfangsefni í uppeldispistli vikunar. Öskudagurinn setur tóninn...



Íslenskir leikskólar eru metnaðafullar stofnanir. Þar er unnið mikilvægt starf. Þeir hafa þýðingamikið gildi fyrir jafnrétti í samfélaginu. Jafnrétti óháð stöðu foreldra barnanna. Krakkarnir eru ekki bara í pössun á meðan foreldrarnir vinna heldur eru leikskólar menntastofnanir. Það er allavega sú krafa sem foreldrar ættu að setja fyrir börnin sín.

Meginþættir Reggio Emilia leikskólanna fela í sér sjónrænt uppeldi. Þeir hvetja börnin til að virkja öll sín skilningarvit og skapandi hugsunar. 

Á Reggio-leikskólanum Geislabaugi gera börnin sjálf sína öskudagsbúninga. Sem foreldri með flottræfilshátt hefur mér stundum fundist glansgallar úr búðum flottari. En sem starfsmaður á leikskóla er ég alveg heilluð af sköpunargáfu og hæfileikum barna til að útbúa sinn eigin búning. Í dag var ég á öskudagsballi með ótal útgáfum af súpermönnum og garðabrúðum en líka einhyrningum, grænum hestum, blómálfum, eitruðum kóngulóm og ávaxtakóngum.

Börnin voru svo ánægð með útkomuna og örugg með sinn búning.

Í hugmyndafræði Reggio er það ferli sköpunar sem skiptir jafnmiklu eða meira máli en loka niðurstaðan. Gleðin við að skapa sitt eigið er ómetanleg. Fjöldaframleiddir nælongallar líta vissulega betur út. Það velkist engin í vafa um "hvað þú ert" í slíkum galla. Munurinn er sá búningur barnsins er hans sköpunarverk og getur verið stolt af sínu framlagi.

Hlutverkaleikir með búninga, heimagerða eða búðarkeypta, eru skemmtilegir og þroskandi. Ekki bara á öskudaginn.

No comments:

Post a Comment