February 6, 2013

MM 03: Tölvutími

http://utahstories.com/graphics/computer_geek.jpg 
Mynd: utahstories.com



Tölvan er dýrkuð á mínu heimili sem skurðgoð! Hún er svo fjári skemmtileg að það getur orðið að vandamáli. Ekki bara hjá 10 ára gömlum stóra bróður heldur líka hjá 4 ára krútti... svo ekki sé talað um þann 5 ára gamla.

Stundum fæ ég hnút í mallakútinn þegar ég sé fréttir og umfjöllun um tölvufíkn unglingsdrengja. Logandi hrædd um að þetta verði örlög drengjanna minna. Tölvuleikirnir eru í sjálfu sér ekki vandamálið. Þeir eru saklausir og "þroskandi". Vandamálið er hve agalega skemmtilegir leikirnir eru. Hefðbundnir leikir falla í skuggan af þeim.

Allavega... þá er ég meðvituð um aðdráttarafl tölvuleikja og geri mitt besta til að vekja áhuga á bókum, útiveru og öðrum "skemmtilegheitum" til að keppa við hinn heilaga tölvuskjá. Með misjöfnum árangri.

Það er tvennt sem við gerum til að halda til að temja ástundunina:

1. Tímavaki: þetta töfratæki (fæst t.d. í A4) sem sýnir á svo sjónrænan hátt hve langan tíma má leika í tölvunni. Þetta fyrirbæri ætti að vera á hverju heimili. Hægt er að nota hann til að mæla hve lengi á að lesa fyrir skólann. Hve langur tími er þar til farið er í sund, heimsókn, má leika fyrir háttinn o.s.frv. Með tækinu er hægt að stýra hve lengi má vera í tölvunni hverju sinni. Það er líka sniðugt þegar á að skiptast á (í tölvuleik). Með þessu tæki hefur óánægjuköstum, að loknum tölvutíma, fækkað. Í eitt sinn sagði sá tölvusjúkasti við mig: "Mér finnst þetta ömurlegt mamma, ég set tíma á þig." Svo tímavakinn getur líka ákvarðað hve lengi kona má vera leiðinleg og ósanngjörn ;o)    

2. Tölvulausir dagar: Eftir allt hömlulausa frelsið sem fylgdi jólafríinu voru bræðurnir afar skapstyggir og erfiðir. Hluti af ástæðunni var hve mikill tími hafði farið í tölvuleiki. Því ákváðum við foreldrarnir að takmarka tölvutímann. Mánudagar og miðvikudagar eru tölvulausir dagar.  Það sem gerðist var að þeir leika sér betur saman. Eru ekki eins eirðarlausir. Ímyndunaraflið fær lausan tauminn. Ég ELSKA tölvulausa daga. Skólastrákurinn er duglegri þá en aðra daga að  heimsækja skólafélaga sína... hugsanlega eru ekki tölvulausir dagar á heimilum vinanna ;o) Það er samt bara allt í lagi.

Annars tek ég fagnandi á móti öllum ráðum tengdum skynsamlegri tölvunotkun. Endilega kommentið ef þið lumið á einhverju sniðugu.

Kannski það sé tími komin til að logga sig útúr tölvunni á þessum "tölvulausa degi" og svæfa strákastóðið. 

No comments:

Post a Comment