October 23, 2012

Meistaramánuður (frammistöðuskýrsla)

Hvernig ætli gangi hjá meisturum mánaðarins?

Mynd: knitoneone.com


Hér er haldið vel á prjónunum... í orðsins fyllstu. Búin með búk og aðra ermina. Byrjaði að prjóna eftir uppskriftinn en svo rifjaðist upp fyrir mér hvers vegna ég gafst upp á þessari peysu fyrir tveim árum síðan. Stærðirnar passa ekki! Svo nauðsynlegt var að rekja upp nokkurra daga vinnu. Fara í smá fýlu, safna kjarki í að byrja uppá nýtt og reikna stærðir og prjónafestu uppá nýtt. Þarf þó að vera ansi dugleg til að fullklára verkið á næstu dögum. Krossa fingur og vona það besta.

Heimsljós Halldórs Laxnes er á lokasprettinum. Góð bók, auðvitað. Merkilegt samt hvernig manni finnst sem nauðsynlegt sé að setja sig í einhverjar hátíðlegar stellingar við að lesa Laxnes. Hún passar (óviljandi) inní eitt bókaþema síðustu mánaða hjá mér sem er íslenska bændasamfélagið eins og það var í upphafi síðustu aldar. Nýlega lauk ég við Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Sögusviðið í Heimsljósi er harla svipað. Önnur er skáldsaga og hin æviminningar. Hef ekki gert upp hug minn um hvor sé betri... enda ekki nauðsynlegt.

Miðlungurinn les 5x í viku. Honum eru skammtaðar 2 bls. á dag úr lesheftum sem ætluð eru krökkum í fyrsta bekk. Skammtaðar... því hann vill lesa meira! Til að halda áhuganum er betra að lesa lítið og oft. Stundum fer hann í leiki inná nams.is og Glóa Geimfara til að halda lestrarnáminu fjölbreyttu.


Mynd: www.thequotefactory.com

Ef eitthvað fleira var á meistaralistanum þá verður að viðurkennast að ég kemst ekki yfir meira.

No comments:

Post a Comment