October 22, 2012

Fram, frúin og ferðalangarnir fljúgandi

Samviskusama mamman með lausu skrúfuna fór til Akureyrar til að hvetja frumburðinn á handboltamóti með sitt fagra föruneyti. Eins og fín frú flaug hún norður og gisti á fallegu hóteli. Ferðafélagarnir voru hinir mjög svo hressu synir hennar. Húsbóndinn var fjarri góðu gamni en var haldið vel upplýstum með hjálp tæknibyltingarinnar.

Þar sem biðin eftir flugferðinni var lengri en gert var ráð fyrir hófst ferðalagið með rölti um miðbæ Reykjavíkur og svo kíktum við örlítið útá Ægisíðuna. Sólsetrið var rauðgullið og logn í Vesturbænum. Við stoppuðum við skúra Grásleppukarlanna og lékum smávegis í síðdegissólinni.

 




Einn óvæntur gestur var með í för. Flökkubangsinn Fúsi, af leikskóladeildinni hans Loga, fékk að fara með. Eftirvæntingin að fá Fúsa í heimsókn er svo mikil að mamman hafði ekki dug í sér að gera það eina skynsama í stöðunni og skilja tuskudýrið eftir. Fúsi flaug því í Fokker 50 norður til Akureyra.



Bræðurnir voru alsælir með fallega hótelið og þá sérstaklega með sjónvarpið sem horft var á úr rúminu sem við deildum þrjú saman. Fúsi þurfti að dúsa á sófanum... samt ekki fyrr en sérlegur verndari hans var sofnaður.




Þessari fínu frú þótti bruðl að splæsa í bílaleigubíl svo þau fóru allra sinna ferða fótgangandi. Fyrirfram var talið að strætisvagnar myndu koma að gagni en þá sáum við hreint ekki á ferðinni. Ferðafélagarnir voru sæmilega viljugir að ganga upp gilið. Þeir eiga hrós skilið fyrir vaska framgöngu.

Í bjartsýni sinni trúði mamman með lausu skrúfuna að hún myndi geta átt notalegan "fullorðinstíma" með kærri vinkonu sem var fyrir norðan í sömu erindagjörðum, vinkonan fylgdi reyndar rauðklæddum Hafnfirðingum. Raunin var þó önnur... við hittumst í mýflugumynd á göngugötunni góðu, rétt á milli leikja, nógu lengi til að smella einni mynd af skvettunni hennar við saklausan ísbjörn.



Þessir bláklæddu kappar eiga auðvitað líka lof skilið fyrir vaska FRAMgöngu. Margt hefur gerst síðan þeir spiluðu handbolta á sínu fyrsta móti. Það er þroskandi ævintýri að fara í svona keppnisferð. Ómetanlegt! Mömmunni viðurkennir þó að stundum hafi verið erfitt að horfa á. Hún vonar að syninum hafi ekki þótt jafn erfitt að hafa mömmu á áhorfendabekknum... Móðir og sonur tóku bæði þroska í þessari ferð.

Eftir erfiðan dag í íþróttahöllinni var kærkomið að mæta á Bautann og fá sér einn sveran borgara. Líklega besti hamborgari lífs míns, jamm - svo svöng var ég. 



Ef frúin með ferðaþrána væri spurð hvort þetta hefði verið afslöppunarferð, þá væri svarið; Nei! Ef hún yrði spurð hvort þetta hafi verið vesen, þá væri svarið; Já! Ef spurningin væri, hvort þetta tilstand hefði verið þess virði, þá væri svarið; Já - alltaf!


Að ferðast með börn er eins og að... ferðast með börn ;o)

No comments:

Post a Comment