August 18, 2011

Pétur Pan og ég


Pistillinn minn sem birtist í Sunnudagsmogganum 14. ágúst: 

 mynd: www.enjoyfrance.com

Í veislu einni tóku tal saman, Pétur Pan og Vanda. Pétur Pan mætti í stuttbuxum, glaður í fasi og með glas í hönd. Hún var í sparikjól og ánægð með að hafa næturpössun fyrir Týndu drengina sína. Þau hafa þekkst svo lengi sem Vanda hefur verið lofuð sínum heittelskaða. Hann óskar henni til hamingju með nýja starfið sem sá heittelskaði hefur nýlega fengið. Starf sem felur í sér mikil ferðalög til fjarlægra staða og jafnvel stöku stopp í Hvergilandi.

Pétur Pan hefur nefnilega ferðast mikið, búið og unnið á framandi stöðum. Hann hefur sterka frelsisþörf og er áhugasamur um ólíka menningu. Hann er því ánægður fyrir hönd þess heittelskaða að hann fái að upplifa eitthvað svipað því sem hann hefur gert. Pétur Pan er Vöndu kær, sem skilur svo vel þessa frelsisþörf og forvitni en hugur hennar og skylda hvílir hjá Týndu drengjunum. Hún þakkar fyrir hönd þess heittelskaða. Hann sé vissulega spenntur og ánægður með þessa breytingu. Hún tekur líka undir með Pétri Pan sem segir að þessu fylgi svo miklir möguleikar, sko líka fyrir Vöndu og Týndu drengjunum. Þau muni líka getað heimsótt Hvergiland reglulega. Kannski búið þar um tíma og, og, og... Pétur Pan er komin á flug, svo áhugasamur um heill og hamingju Vöndu & co.

Vanda bendir þó Pétri Pan á að þessar breytingar hafi þó óneitanlega vissar takmarkanir í för með sér. Týndu drengirnir munu sakna þess heittelskaða þegar hann verður á ferðalögum. Að fjarveran geri það að verkum að þær skyldur sem fylgja Týndu drengjunum muni lenda nær einungis á hennar herðum. Sem leiddi til þess að möguleikar Vöndu til að sinna fullorðinsvinnu minnkuðu. Pétur Pan virtist ónæmur fyrir þessu sjónarhorni. Börn hafa svo mikla aðlögunarhæfni. Hann bendir á að börn geta búið hvar sem er í heiminum, líka í Hvergilandi og að Vanda væri smituð af fullorðinsveirunni sem gerir allt svo erfitt.

Vanda er hjartanlega sammála honum, en samt... Pétur Pan er reyndari og margfalt víðförli en heimakæra Vanda. Hann hefur séð og reynt á eigin skinni að börn eru þrautseig og þurfa ekki mikla umönnun til að lifa góðu lífi.  Hefði þetta samtal átt sér stað 8 árum fyrr hefði heimssýn þeirra verið sú sama. Það sem aðskilur þau er að Vanda er þremur börnum ríkari. Reynsla hennar af því að hugsa um Týndu drengina gerir það að verkum að hún gerir sér betur grein fyrir því nú en áður hvílík ábyrgð það er að verja þá og byggja upp fyrir framtíðina. Hún vonar að Týndu drengirnir hennar geti um tíma fylgt Pétri Pan, áhyggjulausir, barist við Kaptein Krók, frelsað Tígrislilju og elt flögrandi Skellibjöllu. Það geta þeir þar sem Vanda passar uppá þá og segir þeim sögur fyrir svefninn.



No comments:

Post a Comment