August 17, 2011

Biðin er á enda


Bergur er orðinn 9 ára. Loksins.
Ég kann reyndar mun betur við hann 8 ár og spurði hvort hann vildi ekki bara vera áfram 8 ára, sko fyrir mömmu sína. Diplómatinn minn sagði að hann væri til í að hætta að eldast eftir 9 ára afmælið. Sjálfsagt verða strákarnir mínir fyrir sálrænum skaða af minni hálfu vegna áráttu minnar til að stöðva framgang klukkunnar.
Það er svo ávanabindandi að vera AÐAL manneskjan í lífi þeirra. Eymingja mömmustrákarnir... það er bara spurning hvenær barnaverndanefnd blandar sér í málið ;o)
Áfram með smjörið...





9 ára afmælið var haldið með pompi og prakt. Fyrst fyrir fjölskylduna og síðan fyrir skólabræðurna. Það kom sér vel að veðrið var prýðilegt í báðum veislunum. Hægt var að sitja úti á pallinum og leika í garðinum á meðan fjölskyldufaðirinn grillaði beikon og húsmóðirin bakaði amerískar brönspönnukökur. Algjörlega ljúfengt!

Seinna stórafmælið var sérlega velheppnað. Þá mættu 10 vopnaðir strákar hingað heim á hjólunum sínum. Svo hjóluðum við í áttina að Hádegismóum, lögðum hjólunum og gengum inní Paradísardal. Þar er grasflöt, borð og eldstæði. Þarna léku strákarnir lausum hala. Við kveiktum eld og svo hituðu strákarnir sykurpúða og litlar kokteilpylsur á grillprjónum. Konunglega veitingar að þeirra mati. Að því loknu skiptu við þeim upp í tvö lið; þýska herinn og þann bandaríska. Síðan var barist með dótabyssum. Lasertag er vinsæll afmælisstaður hjá þessum strákum og Bergur alltaf glaður að vera boðið í svoleiðis afmæli. Það var þó var virkilega gaman að leyfa strákunum að leika frjálsum og á ævintýralegum en jafnframt leynilegum stað sem er í göngufæri frá heimili þeirra, úti í guðsgrænni náttúrunni.









Allir voru glaðir með daginn. Húsið var ekki í rúst á eftir. Þetta kostaði ekki handlegg. Strákaafmælið var margfalt minna vesen en fjölskylduboðið, sem þó var stórfínt.

1 comment:

  1. Súper afmælisveisla. Þetta kallar maður sko alvöru "lasertag". Til hamingju aftur með prinsinn.

    ReplyDelete