August 10, 2011

Hönd þín leiðir mig út og inn...

pistill eftir mig sem birtist í Sunnudagsmogganum 6.ágúst: 

Stundum þegar synir mínir leggja lófann sinn í lófann minn finn ég hlýjan straum hríslast um mig. Höndin þeirra er svo smá í lófanum mínum og handtakinu fylgir traust og fölskvalaus trú um að þeir séu öryggir. Þeir eru á réttum stað og ekkert getur komið fyrir því haldið er um trygga og hlýja mömmu-sinnar-hönd.

Það gerist daglega að ég held í einhvern drengjanna. Tilefnin eru ekki merkileg. Við höldumst í hendur, leiðumst yfir götu, útí bíl eða inní matvörubúð. Hversdagsleg augnablik. Þess vegna kemur það oft á óvart, þessi vellíðunarstraumur sem liggur frá einföldu handtaki barns.  Tilfinningin er góð en hún minnir jafnframt á ábyrgðina sem fylgir því að leiða smáa barnshönd. Litlir lófar stækka hratt og takast á við stöðugt flóknari verkefni. Það er mitt hlutverk að styðja við á torfærum köflum og sleppa takinu þegar við á. Saman leiðumst við yfir götu og út í lífið.

Lítill bjarthærður hnokki leggur lófa sinn í lófa mömmu sinnar. Þau leiðast í dagsins önn. Seinna verður þessi litla hönd að stórri og styrkri karlmannshönd. Hlutverkin munu snúast við þegar fram líða stundir og þá verður gott að þiggja hjálparhönd sonar síns.

Vellíðunarstraumurinn fer um móðurhjartað sem vonar að hlýjan sem streymir um handtakið venjist aldrei.

1 comment:

  1. Yndislegur pistill Agnes eins og sá sem ég las í síðasta sunnudagsblaði um hann Pétur Pan. Haltu áfram á þessari flottu braut.

    ReplyDelete