November 11, 2012

Markmiðamartöð


Í öllum kennslubókum um markmið er talað um mikilvægi þess að þau séu SMART.

S = Skýr: mikilvæg, læsileg og skiljanleg.
M = Mælanleg: þú verður að vita hvenær þú hefur náð þeim.
A = Alvöru: þú verður að geta náð þeim.
R = Raunhæf: það má ekki taka of langan tíma að ná þeim.
T = Tímasett: settu lokatíma á markmiðin.

Nú er ég í vanda með mitt októbermarkmið. Þau voru reyndar nokkur en aðalverkefnið var að prjóna peysu á einum mánuði. Sem er skýrt markmið, alvarlegt, mælanlegt og tímasett. Í sjálfu sér jafnframt raunhæft... þó tæplega.

Martröðin er sú að sjá að hindranirnar á veginum gera það að verkum að erfitt er að standa við tímarammann sem settur var. Þá kemur í ljós hvurslags karakter kona er. Gefst hún upp eða heldur hún áfram. Ákveður hún að tímanum sem varið er í að klára verkefnið væri betur varið í að sinna öðrum verkefnum og ef svo er, má þá telja markmiðið mistök?

Í hverjum sólarhring eru 24 klst. og innan þess tímaramma rúmast býsna mörg skylduverk. Að setjast niður, slá saman prjónum í rólegheitum og horfa á áþreyfanlegan árangurinn er virkilega gefandi iðja. Þó er því ekki að neita að ef kona er í tímaþröng og þarf að múltitaska skriljón hluti samtímis þá verður prjónaskapurinn að kvöð fremur en ánægju.

Á síðasta mánuði hefur peysunni verið sinnt og ýmislegt annað þurft að sitja á hakanum. Hún hefur verið rekin upp og prjónuð uppá nýtt. Að ná SMART markmiði á réttum tíma hefur valdið prjónakonunni hugarangri. Að gefast upp hefur verið freistandi... jafnvel skynsamlegt. En til að þjálfa seigluna hefur hún ákveðið að fyrirgefa sjálfri sér að standa ekki við tímamörkin og leyfa sér meira að segja að njóta restarinnar af verkefninu... svona að mestu leiti ;o)

1 comment:

  1. Þú ert aðeins of mikið krútt... og gleður mig svo mikið..

    ReplyDelete