August 19, 2012

Tilfinningaróf hlaupara

 Mynd: marathon.is

Stend við rásmarkið á Lækjargötu, óviss um hvar væri rétt að taka sér stöðu. Svo er ræst af stað með hvelli og hvetjandi tónlist hljómar. Eftirvæntingin liggur í loftinu og tilfinningarnar taka á sig mynd gæsahúðar og gleðitárs. Það er einfaldlega magnað að hlaupa yfir rásmarkið.

Kveiki á hlaupaúrinu mínu og sé að gleymdist að fá gervitunglatengingu fyrirfram og því byrja ég ekki að telja mínútur og kílómetra við rásmarkið. Það skiptir litlu máli þvi úrið átti ekki að vera plássfrekt í þessari upplifun.

Mannþröngin er mikil og ljóst að ekki er hlaupið að því að taka framúr. Klárlega þéttari hópur eða fleiri þátttakendur en nokkru sinni. Rauðklæddur hópurinn hlykkjast um Tjörnina, framhjá Þjóðminjasafninu og niður Suðurgötuna. Ég er bara eins og lítil fruma í þessari rauðu lífveru. Mér líður vel og soga að mér orkuna sem gjörningurinn gefur frá sér. Við Þjóðminjasafnið verður úrið tilbúið til tímatöku. Kveiki á úrinu og minni mig á að pæla ekki mikið í tímanum, pace-inu né vegalengdinni sem eftir er. Enn er þéttur hópur og erfitt að taka framúr.

Hjarðarhagi! Maður minn! Takk kæru íbúar - þið eruð stórkostleg. Hvílík stemning á þeirri götu. Við Ægisíðuna standa aðstandendur hjálparsamtaka sem hægt er að styrkja með hlaupum sínum. Nýrnasjúkir hvetja hlaupara. Parkisonsveikir standa keikir og hvetja hlaupara. Krabbameinssamtök hvetja hlaupara. Barnaheill hvetur hlaupara. Samtök um mænuskaða hvetur fólk áfram. Þakklát fyrir heilbrigði mitt hleyp ég áfram. Takk fyrir hvatninguna!

Mynd: marathon.is

Svo kemur Seltjarnarnesið sem skartar sínu fegursta. Sjórinn er spegilsléttur. Lindarbrautin er stórskemmtileg. Vönduð djasshljómsveit spilar og hvetur áfram. Takk íbúar - þið eruð líka stórkostleg. Af og til kíki ég á hlaupaúrið góða og sé að pace-ið er fínt. Hleyp á 5.4 - 5.5 - 5.3. Okey þetta er bara fínt, reyndar mun betra en ég átti von á. Alltaf gott að vera undir 6.0 - sé fram á að koma í mark á 56 -57 mín. Fínt, hugsaði ég, á nóg inni.

Við JL húsið þóttist ég vita af mínu klappliði. Þarna voru skytturnar mínar þrjár, mamma, pabbi, amma, systir og mágur - þau gáfu mér fæv og aukið búst til að taka Geirsgötuna. Í sama hlaupi ári áður sá ég særðan hlaupara fara í sjúkrabíl við Héðinshúsið og óskaði mér að skipta við hann um hlutverk, svo rosaleg var fýlan í mér á þeim stað á þeirri stund. Nú var ég bara með sæmilegan fókus og einbeitti mér bara að því að hlaupa á jöfnum hraða. Óvíst hvenær á að hefja endasprettinn þar sem allt er gefið í botn. Vegna þess að upplýsingaveitan, gps úrið, sýndi jákvæða framvindu ákvað ég að vera ekkert að spretta fyrr en í Lækjargötu. Kom brosandi í mark.

Seinna þegar úrslitin voru skoðuð á netinu varð ég hissa. Hlaupahraðinn sem gps úrið gaf upp var ekki í samræmi við niðurstöður. Öll upplifunin af hlaupinu breyttist eftir á. Vegna þess að hlaupið tók 59 mín en ekki 57 mín! Fyrstu 700 metrarnir tóku hlutfallslega lengri tíma en afgangurinn af hlaupinu, þar sem svo mikið af fólki var... eða ég ekki staðsett rétt... veit ekki.

Svo þessi stórkostlega upplifun tók 2 mínútum lengri tíma en planið var. Bömmer? Borgin skartaði sínu fegursta. Íbúar þess sendu rauða hlaupaorminum langa sínar bestu kveðjur. Ég naut góðs af þessari velvild. Það eru forrétindi að vera þátttakandi í 10 km hlaupi. Hver getur verið stoltur af því að vera nægilega heill heilsu til að fara þá vegalengd fyrir eigið afl. Svo leyfi ég mér að láta þessar skitnu 2 mínútur fara í taugarnar á mér. Góði heilinn minn segir bara; "Skammastu þín stelpa".

Hversu margir klukkutímar (eða 59 mín) lífsins eru jafn samanþjappaðir af orku, tilfinninganæmi, þakklæti, stolti, eftirvæntingu og gleði sem hlaupari upplifir í einu 10 km. Reykjavíkurhlaupi?

Mynd: marathon.is


No comments:

Post a Comment