February 8, 2012

...og hvernig gengur?

Sykurlaus í viku og það hefur bara gengið vonum framar. Fyrst fann ég alveg fyrir líkamlegum óþægindum, ég bjóst við að finna fyrir hausverk og sleni en það var ekki svo mikið.

Fyrsta föstudag í mánuði er svokölluð "Himnasæla" í vinnunni og þá mætir ein deild með kökur og gotterí í kaffið. Þessi góði siður ber nafn með rentu. En ég mætti bara með nesti... heilagri en nunna í föstu og snerti ekki við sætindunum... en fékk mér osta og heitann brauðrétt.

Mest finn ég fyrir þessu þegar ég borða eitthvað sem ég para saman við sætindi. Eins og ískalda kók með föstudagspizzunni og poppkorninu í bíó. Svo þegar risastór skál með uppáhalds namminu mínu er sett fyrir framan mig... þá er erfitt að hlusta á "góða heilann" sinn.

Það sem er snúið er auðvitað að það er sykur allstaðar. Ég hef því pottþétt borðað sykur án þess að vita af því. Ég sting bara puttanum uppí kok og gubba bara... DJÓK! Nei, ef það slæðist einhversstaðar inn sykur þá refsa ég mér ekkert fyrir það.

Svo hef ég búið til allskonar sykurlaust nammi. Gerði t.d. hráa snickersköku sem er dásemdin ein með kaffibollanum. Það er þó auðvelt að missa sjónar af því hve "varaskeifurnar" í sykurleysinu eru orkumiklar. Hnetur, kókosolía, agave, döðlur, möndlur og annað þessháttar er stútfullt af næringarefnum sem gera konu gott en þetta er orkuríkur matur og ekki "megrandi" (ef slíkur matur er þá til). 

Ég er líka þakklát fyrir að enginn viðbættur sykur er í hvítvíni. Takk!

No comments:

Post a Comment