February 22, 2012

Influenza

Ónæmiskerfi mitt er eitt af mínum bestu eiginleikum. Ég er svo baneitruð að sýklar leggjast yfirleitt ekki á mig. Svo vaknaði ég á sunnudagsnótt (eftir skvísupartý) með liðverki og í svitakasti... í fyrstu viss um að of margir drykkir væru um að kenna. En hingað til hef ég ekki fengið háan hita vegna þynnku.

Í fjóra daga hef ég legið í rúminu og "látið stjana við mig" óóó hvað ég vorkenni þeim sem hugsa um mig... ég hef ekki góða skapgerð í veikindum. Kontrólfrík eru slæmir sjúklingar. Mikið sem það er gott að vera gift þolinmóðum manni með jafnaðargeð.

Trausti féll fyrir flensunni degi á eftir mér. Hann er alsæll með að vera heima hjá mömmu sinni, kúrandi uppí rúmi og horfandi á teiknimyndir. Þegar ég mældi hann í morgun, og sá að hitinn hafði hækkað síðan í gær, sagði ég "æi, Trausti minn þú ert ennþá veikur" en hann svaraði bara "jess" ;o)

Svo nú liggjum við mæðginin uppí rúmí - naflastrengurinn sterkari en nokkru sinni og horfum á myndir í tölvunni minni. Hann alsæll en ég skapstygg.

Planið fyrir þennan öskudag var að keyra norður. Það er vetrarfrí hjá Bergi og Bjartur á nokkra samfellda frídaga. Við ætluðum að renna okkur á skíðum, slaka á í sundlauginni, gista í Aðaldalnum, versla í Nettó og kíkja á Frúnna í Hamborg. Skíðafrí norður á Akureyri er einn af hápunktum vetrarins í mínum huga. Það er þó ljóst að það verður ekki núna.

No comments:

Post a Comment