January 15, 2012

Capt. Sport-Baldur



Þó nokkur eftirvænting hefur verið hjá okkur mæðginum að mæta í íþróttaskólann. Logi fékk að fylgja með bróður sínum stöku sinnum íþróttaskólann í fyrra. Þá var hann tæplega tveggja ára og óttalegur óviti. Á þessum tíma var reyndar ekkert grín að fylgja Trausta í gegnum þrautabrautirnar. Honum fannst þetta leiðinlegt, óskiljanlegt að fara eftir fyrirmælum og yfirspenntur af áreitum í fullum íþróttasal af börnum, foreldrum, systkinum og svo var tónlist á fullu blasti. Ég þurfti að beita mig hörðu að mæta með Tryllinginn minn. Fólk horfði skilningssljó á drenginn og síðan á mömmu hann sem lét hann gera þrautirnar með handafli í forundran. Það velti fyrir sér "hvað er að þessum barni og svo og HVAÐ er að MÖMMU hans???"


Þar sem miðjubarnið er að troða sér inní dagbókarfærslu sem á að vera um litla barnið þá verð ég að segja frá því að það var hrein unun að fylgjast með honum mæta á fyrstu fótboltaæfinguna sína í síðustu viku. Hann var svooo glaður og duglegur að fara eftir fyrirmælum og skemmti sér líka afar vel. Einn af mörgum litlum og dísætrum sigrum sem við upplifum í gegnum strákinn okkar.

Logi mætti sumsé kátur í íþróttaskólann, setti upp stútmunn sem einkennir einbeitinguna hans og glettni var í augunum. Svo fór hann í gegnum þrautabrautirnar, gerði kollhnýsa og sagðist vera "brjálaður vísindamaður" (sem hann segir alltaf þegar hann skellir sér í kollhnýs). Við foreldrarnir fylgdu honum bæði, aldrei þessu vant fékk hann ótakmarkaða athygli beggja foreldra og það leiddist honum ekki ;o)

No comments:

Post a Comment