July 6, 2014

Fólkið í blokkinni



Sagt er að samkenndin sé sterk í litlum samfélögum og sennilega er það rétt. Reykjavíkurmær uppalin í Breiðholtinu sem á ættir að rekja til Vesturbæjar og Árbæjar þekkir þessa samkennd. Stigagangur í blokk getur verið heill heimur útaf fyrir sig. 

10 íbúðir og tíu fjölskyldur með sama heimilisfang. Börn rápuðu inn og út úr íbúðunum og gátu heimsótt vini sína án þess að fara í skónna. Settar voru upp dansæfingar í geymsluganginum. Mömmurnar kíktu í kaffi hver til annarar og stundum fengu pabbarnir sér "kallakók" saman um helgar. Það var skemmtilegt. Börn að aldri pössuðum við enn minni börn sem bjuggu í blokkinni... 

Þarna eignaðist ég vinkonur til lífstíðar. Þrjár jafnaldra stelpur sem elskuðu að dansa og setja upp leikrit. Stundum voru við bestu vinkonur en stundum var einhver "spilliköttur" - dramatíkin er sjaldan langt undan þegar dívur eru annars vegar (líklega ósanngjörn fleirtala ;o).

En svo var það rómantíkin. Þarna urðu líka til ný ástarsambönd. Einhleypir íbúar fundu hvort annað á stigapallinum. "Tíu fingur upp til guðs" - ég er ekki að plata!

Það eru forréttindi að fá að alast upp í góðri blokk sem iðar að kátum krökkum. Að lifa í sátt og samlyndi við nágranna sína. Að fá að kynnast þeim og vera þátttakandi í lífi þeirra er eitthvað sem hefur mótað mig - þetta er samfélag sem hélt utan um mig í æsku.

Síðustu daga hefur hugur minn verið hjá fólkinu mínu í blokkinni góðu.

No comments:

Post a Comment